01.04.1937
Sameinað þing: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2544)

23. mál, uppbót á bræðslusíldarverði

*Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. atvmrh. hóf mál sitt á því að segja, að síldareigendur vildu heldur selja síldina fyrir fast verð heldur en láta vinna úr henni fyrir sig. Þetta er vitanlega rétt. En það er ekki úr vegi að athuga, hvernig í þessu liggur. Sannleikurinn er nfl. sá, að þeir, sem síldina eiga, treysta þeim ekki, sem fyrirtækjunum stjórna, til þess að skila þeim réttu verði fyrir vöruna. Þetta er og m. a. skiljanlegt af því, að þeir eiga engan þátt í stjórn fyrirtækjanna. Það hefir verið staðfest af hæstv. atvmrh.. og því hefir ekki verið mótmælt af hv. þm. Ísaf., að upp úr bræðslusíldinni hefði fengizt það, sem frsm. þessa máls færði rök fyrir. Þvert á móti voru færð rök fyrir því, að hagnaður af síldarkaupum verksmiðjanna hefði jafnvel orðið meiri en frsm. gerði ráð fyrir, og á ég þar við hin miklu gæði síldarinnar, sem hv. þm. Ísaf. var að tala um.

Nú myndi eðlilegast að spyrjast fyrir um það, hvað af því fé hafi orðið, sem afgangs var hjá síldarverksmiðjunum umfram þær 200 þús. kr., sem taldar eru í sjóði. En þess þarf ekki með. Hæstv. ráðh. hefir gefið skýringuna, að verja hafi orðið miklu fé í endurbætur og viðauka við verksmiðjurnar, og háttv. þm. Ísaf. bætti svo við, að ef till. okkar yrði samþ., þá yrði ekki hægt að byggja nýjar þrær eða gera aðrar nauðsynl+egar umbætur á verksmiðjunum. Ég held, að það sé vert að gefa þessum skýringum gaum. Það er nfl. vitað, að það eru síldareigendurnir sjálfir, en ekki ríkið, sem stofnkostnaður verksmiðjanna hvílir á. Þeir eiga að borga í fyrningarsjóð, varasjóð og alla vexti af stofnfénu. Eigi þeir svo þar að auki að taka á sig og borga alla viðauka við verksmiðjurnar, þá er áreiðanlega gengið of langt og beinlínis framið brot á viðskiptamönnum verksmiðjanna. Á þessu vil ég vekja serstaka athygli, því að með þessu móti er alltaf hægt að taka hagnað verksmiðjanna til þess að auka við þær, og láta viðskiptamenn þeirra þannig greiða umbætur, sem þeim ber ekki skylda til, þar sem allir viðaukar við verksmiðjurnar hljóta að teljast til stofnkostnaðar þeirra, en ekki rekstrarkostnaðar. Út af þeim orðum, sem fellu í hinni löngu og tuddalegu ræðu hv. þm. Ísaf., að rekstrarsaga síldarverksmiðjanna væri raunasaga, vil ég benda honum á, að um það má hann saka sjálfan sig og sína fylgifiska. Það var lagt upp í hendur þeim til þess að stjórna fyrirtæki, búið fullkomnustu tækjum. En stjórn þeirra á því tókst með þeim ósköpum, sem nú eru löngu þjóðkunn orðin, þar sem þessir háu herrar sáu sér ekki annars úrkosta en að skipa svo fyrir, að enginn mætti reisa síldarverksmiðju nema með sérstöku leyfi atvmrh., til þess að tryggja það, að verksmiðjur ríkisins fengju þó alltaf síldina, hversu illa sem þeim væri stjórnað.

Þá taldi hv. þm. Ísaf. það ósannindi og fjarstæðu, að við sjálfstæðismenn skyldum halda því fram, að við hefðum með skrifum um síldarverðið í fvrravor haft áhrif á síldarverðið síðastl. sumar. Um þetta skal ég ekkert þrátta við hv. þm.; þess gerist ekki þörf, því að það er öllum vitanlegt, að verksmiðjustjórnin var pínd til þess að taka skref fyrir skref aftur á bak með verðið, frá því, sem það fyrst var ákveðið. Það var því kröfum sjálfstæðismanna að þakka, að útkoman á síldveiðunum varð ekki verri en hún varð síðastl. sumar.

Hv. þm. hefir nú játað, að hagnaðurinn af rekstri síldarverksmiðjanna hefi orðið 200 þús. kr. síðastl. starfsár. Það er því sannað, að þær geta greitt þá 70 aura uppbót á hvert síldarmál, sem hér er farið fram á, að verði greidd. Að till. beri ekki annað með sér en að útgerðarmenn einir eigi að fá þessa uppbót, sjómennirnir séu hvergi nefndir, er vitanlega hin mesta fjarstæða. Till. er fyllilega ljós og skýr. Hún segir, að það eigi að endurgreiða síldareigendunum þetta fé, en það eru bæði útgerðarmenn og sjómenn, því að á flestum síldveiðiskipunum munu hafi verið hlutaráðningar.