01.04.1937
Sameinað þing: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2546)

23. mál, uppbót á bræðslusíldarverði

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég hefi litlu að svara hæstv. Atvmrh. til viðbótar við það, sem hv. þm. G.-K. hefir þegar svarað honum. Þó vildi ég geta þess í sambandi við þá fyrirspurn hæstv. ráðh., hvort við flm. ætluðumst til, að aðrar verksmiðjur en verksmiðjur ríkisins borguðu uppbót á bræðslusíld, t d. Krossanesverksmiðjan, að það verður að teljast eðlilegt, að kröfu um uppbót á verðinu sé fyrr beint til ríkisins og Alþingis, og ekki sé byrjað á því að krefja útlent firma. Ég býst við, að útgerðarmenn og sjómenn, þó þeir ekki telji sig eiga mikil ítök í hæstv. ráðh., þá finnist þeim þeir eiga stærri hönk upp í bakið á honum heldur en Krossanesverksmiðjunni.

Ég tel, að ég hafi ekki í minni framsöguræðu flutt þannig mál þetta, að formaður verksmiðjustjórnar, hv. þm. Ísaf., hafi þurft að fara í þann habít, sem hann fór. Ég reyndi að halda málinu á hlutlausum grundvelli. Ég hélt mér við viðurkenndar tölur, af því að mér virtust þær sá rétti grundvöllur, er krafan um verðuppbót ætti að byggjast á.

Hv. þm. varði miklum hluta sinnar ræðu til þess að skýra það, hve mikill vandi það væri að áætla síldarverðið. Ég var ekki að gagnrýna verðáætlun verksmiðjustjórnarinnar. Ég hélt mér við þessa áætlun eins og hún er prentuð. Ég sló því föstu, að fyrirtækið hefði fengið ákveðna fjárupphæð fram yfir áætlun, og á þeim grundvelli, en ekki áætluninni sjálfri, byggjum við okkar kröfur. Þar með er ekkert ljótt sagt um þá háu herra, sem verksmiðjunum stjórna, þótt því sé haldið á lofti, að meira verð hafi fengizt fyrir afurðirnar en áætlað var. En það er ekki áætlunarverðið, heldur sannvirði síldarinnar, miðað við rekstur verksmiðjanna, sem á að gilda; þannig eru boð laganna. Í 8. gr. síldarbræðslulaganna segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eigendum skal greitt söluverð afurða þeirrar síldar, sem tekin er af þeim til vinnslu, að frádregnum þeim kostnaði, sem hér segir:

1. Stjórnarkostnaði og öðrum venjulegum rekstrarkostnaði, þar með taldir vextir af stofnkostnaði, eins og hann er á hverjum tíma.

2. Afborgunum af stofnkostnaði síldarstöðva, svo sem um er samið á hverjum tíma við lántakendur eða ríkissjóð.

3. 2% fyrningargjaldi af húsum, mannvirkjum, vélum og áhöldum.

4, 5% gjaldi í varasjóð.“

Og hann er ekkert smáræði, allur sá kostnaður, eins og hv. 6. þm. Reykv. sýndi fram á. Allir sjóðirnir verða að fá sitt, áður en síldareigendum er útborgað. Ég neita því fastlega, að á bak við till. okkar felist nokkurt ábyrgðarleysi. Úr því að sannað er, að afkoman varð betri en áætlað hafði verið, þá ætti það að vera öllum ljóst, að rétt er að bæta upp áætlunarverðið, miðað við raunverulega afkomu. — Hv. þm. Ísaf., form. verksmiðjustjórnar, minntist á það, að tapazt hefði á rekstri verksmiðjanna 1935 um 200 þús. kr. Um þessa upphæð má deila, og mun tapið hafa verið miklum mun lægra, þegar dregnir eru frá þeir kostnaðarliðir, sem eftir eðli sínu fremur ber að telja til stofnkostnaðar en rekstrarkostnaðar.

Samkv. skýrslu meiri hl. verksmiðjustjórnarinnar, þar sem gerð er áætlun um rekstur verksmiðjanna árið 1936 og birt er í Alþýðublaðinu 4. júní f. á., er gert ráð fyrir því, að rúmar 60 þús. kr. verði eftir til óvissra útgjalda með því að greiða 5,30 kr. fyrir málið. Í skýrslu þessari segir stjórnin ennfremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Rekstrarhalli verksmiðjanna síðastl. ár var kr. 207667,20, eða kr. 1,04 á hvert mál síldar, er verksmiðjurnar keyptu. Rekstrarhalla ársins 1935 verða verksmiðjurnar vitanlega að vinna upp aftur, en þar sem útgerðarmenn hafa tapað stórlega á útgerð undanfarandi, þá sér verksmiðjustjórnin sér ekki fært að gera áætlanir fyrir því, að þessi halli verði greiddur, heldur áætlar síldarverðið svo hátt sem framast sýnist fært til stuðnings útgerðinni.“

Þetta segir meiri hl. verksmiðjustjórnarinnar í sumar. Hann gerir þá ekki ráð fyrir að vinna tapið frá 1935 upp á rekstrinum 1936, en nú fer hún að tala um 200 þús. kr. ógreidda skuld í Landsbankanum, sem gera má ráð fyrir, að hafi verið greidd með hagnaðinum árið 1936. En í sambandi við þennan halla frá árinu 1935, 200 þús. kr., sem hv. þm. Ísaf. var að tala um, vil ég benda honum á, að þá áskotnaðist verksmiðjum ríkisins mikið fé á móti, þar sem var eftirgefið lóðarverð frá Siglufirði til verksmiðjanna, sem nam 195 þús. kr., sem bærinn vann til að gefa eftir, til þess að fá hina nýju verksmiðju reista þar, og auk þess lagði bærinn fram til byggingar verksmiðjunnar 23 þús. kr., svo að hagur verksmiðjanna batnaði á árinu 1933 um 220 þús. kr. af þessum ástæðum. Það er því harla einræðiskennt hjá hæstv. ráðh. og verksmiðjustjórn, að neita algerlega að taka tillit til þess, að reksturinn gekk betur árið 1936 en áætlað var, að ætla að taka þessar 200 þús. kr., sem samkv. lögum ómótmælanlega eru eign útgerðarmanna og sjómanna, og leggja þær við eignir verksmiðjanna þvert ofan í lög og eigin yfirlýsingar verksmiðjustjórnarinnar sjálfrar.

Hv. 3. landsk. var hér með dálitlar aths., sem mjög snerta mig. Hann var að gera samanburð á stjórn minni á Lifrarsamlagi Vestmannaeyja og þeim kröfum, sem gerðar eru í till. þeirri, sem hér liggur fyrir. En ég verð að gefa þær upplýsingar, að hann sló dálítið vindhögg með þessum samanburði. Það er rétt, að verð, sem útborgað var á lifrarlítra í samlaginu árið 1936, var 32 aurar, en ég held ég megi fullyrða, að allir útgerðarmenn, sem skiptu við samlagið, hafi verið ánægðir með, hvernig farið var með þær 40 þús. kr., sem hann var að geifla með, að ég hafi dregið af útgerðarmönnum. Þannig stóð á með þessa upphæð, að þegar gengið var frá endanlegum samningum við Útvegsbankann um viðskipti ársins, þá gaf bankinn stjórn lifrarsamlagsins það eftir, að 40 þús. kr. af umsaminni afborgun árið 1936 mætti leggja í serstakan sjóð, sem hafa ætti til vara næst, ef illa gengi. Ef Útvegsbankinn hefði ekki sýnt fyrirtækinu þessa sérstöku velvild, að leyfa að draga þessar 40 þús. kr. af afborguninni, þá hefðu þessir peningar farið inn í bankann, en ekki komið lifrareigendum til góða í hækkuðu lifrarverði, og þá ekki heldur nú verið handbærir til þess að þetta undir með samlaginu, ef illa fer. Þetta dæmi hv. 3. landsk. er því gripið úr lausu lofti og sýnir það eitt, að honum er hentara utan þings að bera slefsögur sínar úr Vestmannaeyjum bæði í hæstv. atvmrh. og aðra heldur en að eiga að verja þær innan þingsalanna.

Hv. 6. þm. Reykv. upplýsti það, að orðalag tili. um uppbót á verðinu sýnir, að ætlazt er til. að uppbótin komi til góða bæði útgerðarmönnum og sjómönnum; þess vegna er það óþarft af hv. þm. Ísaf. að vera að kasta því fram, að við höfum ætlað að afskipta sjómennina, ef till. yrði samþ. Það getur vel verið, að meiri hl. þings og ríkisstjórn fallist ekki á að greiða þessa sanngjörnu verðuppbót, þrátt fyrir það, þótt fullar sannanir liggi fyrir því, að svo eigi að vera, að sjómenn og útgerðarmenn tvímælalaust eiga þá peninga, sem hér ræðir um, en það er þá ekkert annað en ofríki þessara valdhafa, sem þá ræður. En ég held, að framtíð verksmiðjanna verði eins vel tryggð með því, að láta sanngirnina ráða í þessu efni og greiða þessar 200 þús. kr. til þeirra, sem þær eiga, en halda þeim ekki í fyrirtækinu með einræði og ofríki, því að engin trygging er fyrir því, að sömu menn og nú ættu að fá þessa peninga fái þá síðar, þótt þeir þá yrðu notaðir til að jafna halla á rekstri verksmiðjanna.

Hæstv. forseti tilkynnir mér, að ræðutími minn sé nú búinn, og verð ég að hlýða þingsköpum, þótt sanngjarnt hefði verið, að ég sem flm. till. fengi eitthvað lengri ræðutíma en aðrir, sérstaklega með tilliti til hinnar löngu ræðu hv. þm. Ísaf.