01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (2560)

40. mál, síldarverksmiðjan á Norðfirði

*Flm. (Jónas Guðmundsson):

Ég hefi leyft mér að flytja hér þáltill., sem er nokkuð sérstök í sinni röð, þeirra þáltill. sem fluttar hafa verið í Sþ. á undanförnum árum. Hún er um fjárhagslegan stuðning við síldarverksmiðjuna á Norðfirði, sem er eign Neskaupstaðar. Og eins og tekið er fram í grg. till., hefir þessi verksmiðja ekki notið annars styrks frá því opinbera en þess, að ríkissjóður hefir gengið í ábyrgð fyrir lánum, sem á þeim tíma, sem þau voru tekin, voru mjög óhagkvæm, en ekki hefir tekizt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að breyta í hagkvæm lán.

Mér finnst ástæða til að benda á, að það er ekki einsdæmi í sögu Alþ., sem hér er farið fram á, því að hvað eftir annað hefir það verið samþ. hér á Alþ., að ríkissjóður veitti fjárhagslegan stuðning ýmsum þeim fyrirtækjum, sem reist hafa verið í svipuðum tilgangi og þessi verksmiðja.

Fram til ársins 1927 var engin síldarverksmiðja til austanlands. En þá reisti dr. Paul verksmiðju á Norðfirði, og ætlaði hann að láta hana vinna úr öllum fiskúrgangi, sem til felli á Austurlandi. En árið 1931 hætti hann svo við þetta fyrirtæki og bauð verksmiðjuna til sölu, og átti þá að rífa hana og flytja hana burt. Ástæðan til þess var sú, að þurrkaður fiskúrgangur seldist þá háu verði út úr landinu. Það leit því helzt út fyrir, að þetta iðnfyrirtæki, sem var hið eina slíkt á Austfjörðum, mundi leggjast niður. Bæjarstjórnin á Norðfirði keypti þá fyrir kaupstaðarins hönd verksmiðjuna fyrir 70 þús. kr., án þess að ríkið gengi í ábyrgð fyrir greiðslu kaupverðsins. Var verksmiðjan síðan rekin í 2 ár. Árið 1933 var mikil síldveiði, og vaknaði þá áhugi fyrir þessum iðnrekstri. Á þinginu 1934 var fengin ríkisábyrgð til handa þessari verksmiðju fyrir 70 þús. kr., og síðar fyrir 30 þús. kr., því að kostnaðurinn reyndist meiri en áætlað hafði verið. Árið 1934 sýndi verksmiðjan sæmilegan árangur, því að afli var þá í meðallagi. Aftur brást þá vetrarsíldin, og hefir síldin ekki komið síðan að Austurlandi að ráði fyrr en nú í vetur. Árið 1935 var hið versta ár, sem gengið hefir yfir Austurland nú um langan tíma. Þá var fiskafli ekki helmingur af því, sem þar má telja meðalafla, og síld engin. Þá gat Neskaupstaður ekki risið undir útgjöldum í sambandi við verksmiðjuna, og ríkissjóður hljóp þá undir baggann. Árið 1936 var gott síldveiðiár, en illt þorskveiðiár. En þorskveiðarnar hafa staðið að mjög verulegu leyti undir viðgangi verksmiðjunnar, þar sem hún er bæði fiskmjöls- og síldarmjölsverksmiðja. Hagur þessa fyrirtækis er af greindum ástæðum verri en hagur annara sambærilegra fyrirtækja hér á landi, og veldur mestu um það aflaleysið 1935. Ég tel því að ef þessu fyrirtæki verður ekki hjálpað á verulegan hátt, annaðhvort þann, sem gert er ráð fyrir í þáltill., eða á annan hátt. þá muni hún verða að hætta störfum, sem vitanlega mundi verða ómetanlegt tjón fyrir þá, sem eigi afkomu sína að mestu eða öllu leyti undir þessu fyrirtæki og því, hvernig það gengur.

Hið fyrsta verulega spor í þá átt, að hagnýta síld til iðnaðar, var gert með l., sem sett voru 1928, um stofnun síldarverksmiðju. Þá var tekið 1 millj. kr. lán til byggingar síldarverksmiðju, sem átti að endurgreiðast af rekstri síldarverksmiðjunnar á 25 árum. Síðan hefir þessi iðngrein blómgazt svo hér á landi, að nú er hún sú stórfelldasta, sem þjóðin hefir með höndum.

En ekki eru öll vandræði þar með leyst, þó að þessi iðngrein sé vel á veg komin. Útgerð landsmanna, og sérstaklega smáútgerðinni, er nauðsynlegt að geta hagnýtt sér allt, sem úr sjó kemur, sem bezt. Nú hagar svo til víða, að síld kemur þar ekki árum saman, en er þar „öðrum tímum að staðaldri. Framtíðarlausn þessara mála mun því vera sú, að verksmiðjur, sem annast mjölvinnslu úr sjávarafla, geti einnig annazt vinnslu lifrar. Norðfjörður fór fyrstur af stað með framkvæmdir í þessu efni, og hafa nú Seyðisfjörður, Akranes, Keflavík og Húsavík þessi mál í undirbúningi hjá sér, á svipuðum grundvelli eins og þegar er gert á Norðfirði. Á þessum stöðum verða verksmiðjur í þessu skyni ódýrari og haganlegri vegna þeirrar reynslu, sem fengizt hefir á Norðfirði um þetta. En frá því opinbera hefir Norðfjörður engan styrk fengið nema ríkisábyrgð. En þegar þess er gætt, hve mikinn stuðning ríkið hefir veitt annarsstaðar til svona lagaðra fyrirtækja og hliðstæðra, þá er stuðningur ríkisins við þessa verksmiðju ekki mikill.

Fyrsta síldarverksmiðja ríkisins var reist fyrir fé, sem ríkissjóður tók að láni og greiða átti upp á 25 árum af rekstrarágóða verksmiðjunnar. Verksmiðjan var reist á Siglufirði, en Siglufjarðarkaupstaður hefir ekkert fé lagt fram til verksmiðjunnar og enga skuldbindingu á sig tekið hennar vegna. Þegar svo dr. Paul hætti rekstri sinnar síldarverksmiðju þar, var hún keypt af ríkinu. Sólbakkaverksmiðjan var líka keypt af ríkinu án nokkurrar skuldbindingar frá því byggðarlagi, sem að henni liggur. Og þegar hr. Frederik Gundersen hætti að reka verksmiðjuna á Raufarhöfn, þá var hún keypt af ríkinu, án þess að hreppurinn, sem verksmiðjan er í tæki nokkra skuldbindingu á sig, né kostnað vegna verksmiðjunnar. Í l. frá 1934 um síldarverksmiðjur ríkisins á Norðurlandi er ríkissjóði heimilað að leggja fram 100 þús. kr. vegna verksmiðju á Seyðisfirði. Ég fullyrði því alveg óhikað, að ríkissjóður hefir veitt þessum atvinnurekstri, síldarbræðslunni, meiri stuðning alstaðar annarsstaðar, þar sem hið opinbera hefir verið við hann riðið, heldur en á Norðfirði, þó að sýnt sé, að það fyrirkomulag, sem haft hefir verið á þessum atvinnurekstri á Norðfirði, hafi rutt sér til rúms og muni ryðja sér til rúms í öllum öðrum sjávarplássum á landinu, þar sem svipað er ástatt um í þessum efnum.

Ýmsum kann nú að þykja þessi leið, sem hér er farið fram á, að farin verði, óheppileg og óviðkunnanleg, að ríkissjóður gefi þessu fyrirtæki þessar um 60 þús. kr. Ég hefi orðið var við þessa skoðun hjá einstökum þm., og skal ég nokkuð víkja að henni. Fyrst er á það að líta, að hér er um bæjarfélag að ræða, en ekki farið fram á, að ríkið gefi neinum einstaklingi sérstökum eða einstaklingum. Bæjarfélagið í Neskaupstað tókst það á hendur að kaupa og reka þetta fyrirtæki, af því að útilokað var, að einstakir menn eða önnur félög leystu þetta nauðsynjamál fyrir kaupstaðinn. Hér er því aðeins um það að ræða að hjálpa bæjarfélagi, sem á við erfiðleika að stríða.

Hefir þá ríkissjóður aldrei gert neitt hliðstætt því, sem hér er farið fram á? Ef svo hefði ekki verið. Þá hefði mér aldrei komið til hugar að flytja þessa till. Öðru nær. Þegar landbúnaðurinn átti erfitt uppdráttar, af því að saltkjötsmarkaðurinn var að lokast, þá voru árið 1933 á Alþ. samþ. l., sem eru nr. 79 frá 19. júní það ár, og 51. gr. þeirra hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er ríkisstjórninni að greiða eða taka að sér greiðslu á lánum allt að 1/4 stofnkostnaðar, er tekin hafa verið til að reisa frystihús samvinnufélaga eða sýslufélaga, enda sé aðalhlutverk þeirra að frysta kjöt til útflutnings.

Sama gildir og um lán, sem hvíla á Sláturfélagi Suðurlands vegna stofnkostnaðar við niðursuðuverksmiðju þess.“

Þetta var samþ. á Alþ. 1933, og á síðari hl. ársins 1934 var ríkið búið að taka að sér 364 þús. kr. greiðslur vegna 13 samvinnufélaga og sláturfélaga. Þessi styrkur, sem þessi félög hafa þannig fengið, getur ekki talizt annað en gjöf, því að ekki er ætlazt til, að neitt af þessu fé verði endurgreitt af félögum þessum.

Enn má skýra frá því, sem stendur í l. nr. 95 19. júní 1933, þar sem ræðir um, að ríkið greiði ákveðinn sterk til tiltekinna mjólkurbúa, allt að 1/4 stofnkostnaðar. Það er því síður en svo, að er sé hér með nýmæli á ferðinni. Öllum er það ljóst, að nú á sjávarútvegurinn við svipaðar ástæður að búa og landbúnaðurinn átti 1933. Þess vegna er honum full þörf á hjálp frá því opinbera, að svo miklu leyti sem við verður komið. Og sá stuðningur, sem hér er farið fram á, er hóflegur mjög og ekki tilfinnanlegur fyrir ríkissjóð. Þó hefi ég talið rétt, að vextir og afborganir lána þeirra, sem um ræðir í 2. og 3. lið þáltill., verði greiddir af rekstrarhagnaði síldarverksmiðja ríkisins á mörgum árum, og ætti þetta að vera leikur einn.

Vænti ég, að hv. þm. líti með skilningi á þetta mál, og að því verði svo að lokinni umr. vísað til fjvn.