01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (2561)

40. mál, síldarverksmiðjan á Norðfirði

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir frá hv. 6. landsk., er að mínu áliti dálítið óvanaleg.

Það, sem hér liggur fyrir, er, að þetta fyrirtæki, síldarbræðsluverksmiðjan á Norðfirði, eftir því sem hv. 6. landsk. segir, á ekki fyrir skuldum. Og þessi till. fer fram á það, að eftirgjöf til handa þessu fyrirtæki gangi út yfir einn af lánardrottnum verksmiðjunnar, sem sé ríkissjóð, þannig að hann gefi þessu fyrirtæki eftir ákveðna upphæð, án þess þó að verksmiðjan gangi undir skuldaskil, eins og venjulegt er, þegar svo stendur á, svo að allir jafnréttháir kröfuhafar fái samskonar úrlausn. Vil ég mælast til þess, að hv. fjvn., sem vitanlega fær þetta mál til meðferðar, kynni sér allar kröfur, sem hvíla í þessu fyrirtæki. Og ég hygg, að það muni þá koma í ljós, að með þessari till. sé í raun og veru verið að gera tilraun til að bjarga fé fyrir suma af lánardrottnum verksmiðjunnar á kostnað ríkissjóðs. Ég hefi nú ekki við höndina upp lýsingar um það, hverjir eru kröfuhafar hjá þessu fyrirtæki. En sjálfsagt er hægt að fá þær hjá hv. flm. till. En það þykist ég muna, að ekki séu allar þær upphæðir, sem á fyrirtækinu hvíla, á ábyrgð ríkissjóðs.

Það hefir ekki verið gengið inn á þá braut hingað til að styrkja með framlagi til stofnkostnaðar fyrirtæki sömu tegundar og þetta, sem hér um ræðir. Og um það má deila, hvort fært sé að leggja út á þá braut. En mér finnst óviðkunnanlegt að flytja þáltill. eins ég þessa, eftir að fyrirtækið, sem farið er fram á að styrkja, er komið á það stig, að það á ekki fyrir skuldum. Þá finnst mér eðlilegast að skapa fyrirtækinu einhver skuldaskil, sem ganga jafnt út yfir alla þá, sem hjá því eiga.