01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (2562)

40. mál, síldarverksmiðjan á Norðfirði

*Flm. (Jónas Guðmundsson):

Ég skal ekki á þessu stigi málsins fjölyrða um aths. hæstv. fjmrh., þar sem ég vænti þess, að málið fari til fjvn.

Eins og ég ætla, að ég hafi tekið nægilega skýrt fram, þá er hér nákvæmlega um sama að ræða og gert hefir verið þráfaldlega á Alþ. áður, að veita tilteknum ákveðnum aðilja fjárhagslegan styrk frá ríkinu, þegar hann hefir staðið höllum fæti vegna óáranar og óhagstæðra lána. Þetta hefir verið gert vegna frystihúsa og mjólkurbúa. Nú stendur sjávarútvegurinn svo höllum fæti eftir illæri þau, sem yfir hann hafa gengið að undanförnu, að fullkomin ástæða er til að veita þessa hjálp, sem hér er farið fram á. Ég hefi bent á það, að öll fyrirtæki hliðstæð þessu, sem hér á landi hafa verið reist fyrir tilstilli hins opinbera, þau hafa, hvert einasta þeirra, fengið meiri stuðning frá ríkinu heldur en þetta — nákvæmlega hliðstæð fyrirtæki.

Um það, sem hæstv. ráðh. sagði, að þetta fyrirtæki eigi ekki fyrir skuldum, vil ég segja, að ég hygg, að svo sé ekki eftir reikningum verksmiðjunnar að dæma. En á þeim stöðum, þar sem atvinnulíf hefir brugðizt, þá getur það æfinlega verið svo, að um það sé hægt að deila. hvort fyrirtækin eigi fyrir skuldum. þ. e. hvort eignir þeirra seljist við því verði, sem lánardrottnar þurfa að fá til greiðslu á sínum kröfum. Á þessu fyrirtæki hvíla ekki aðrar veðskuldir en 1. veðréttar skuld við Fiskveiðasjóð Íslands og þær skuldir, sem ríkið er í ábyrgð fyrir. Fyrirtækið skuldaði á sínum tíma til dr. Pauls, en þeirri skuld hefir verið breytt í lán, sem ekki er tryggt með veði í verksmiðjunni.