06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (2578)

90. mál, strigaverksmiðja og rafveita á Eskifirði

*Flm. (Jónas Guðmundsson):

Ég get verið stuttorður um þessa till., því að grg. tekur fram öll þau atriði, sem máli skipta, og eins bréf það frá hreppsnefnd Eskifjarðarhrepps, sem hér birtist sem fskj. með till.

Í grg. till. er getið ástæðna fyrir flutningi þessa máls. Á Eskifirði hefir sem sé skapazt einkennilegra ástand en þekkist í nokkru byggðarlagi landsins, þar sem allur atvinnurekstur er kominn svo í kalda kol, að ríkissjóður hefir orðið að veita þangað beinan styrk svo tugum þúsunda skiptir, til þess að fólkið gæti dregið fram lífið. Það er því sýnilegt, að gagnvart slíku ástandi verður eitthvað að gera, annaðhvort taka fólkið og flytja það í burtu, eða stofna verður til einhvers atvinnurekstrar, sem skapað gæti lífvænlegt ástand í þorpinu. — Ég skal taka það fram, að ég flyt þessa till. eingöngu fyrir beiðni hreppsnefndar Eskifjarðar, og hefir hún að öllu leyti unnið að því að koma málinu á þann rekspöl, sem kominn er, þ. e. a. s. aflað sér upplýsinga um það, hvað kosta muni að koma þarna upp fyrirtæki, sem skaffað gæti fólkinu nokkra atvinnu. Síðan ég svo flutti þessa till., hefir verið haldinn fundur í sýslunefnd Suður-Múlasýslu, og sá fundur samþ. að skora á Alþ. að verða við því, sem í till. felst, sem sé að heimila ábyrgð fyrir stofnun þessa fyrirtækis, og jafnframt má skilja yfirlýsingu sýslunefndar á þá leið, að hún muni taka að sér ábyrgð á rafveitu fyrir kauptúnið, eins og fram á er farið í þessari till. Það hefir ennfremur gerzt í þessu máli síðan, að almennur borgarafundur hefir samþ. áskorun til Alþ. um að verða við þessari beiðni. og ætla ég, að það sé þegar komið hingað erindi frá borgarafundinum um það. Jafnframt hefir forgöngumaður þessa máls á staðnum beitt sér fyrir því, að hefja undirbúning að hlutafélagsstofnun til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, ef þáltill. næði fram að ganga.

Mönnum kann nú að finnast, að hér sé um nokkuð mikla upphæð að ræða, sem fram á er farið í þessari þáltill. En ég sé ekki betur en að hér sé verið að útbýta í dag frv., þar sem farið er fram á að veita 11/2 millj. kr. lán til rafveitu á Akureyri og nágrenni við hana. Og það er vitanlegt, að á síðustu þingum hafa verið teknar ábyrgðir fyrir rafveitur svo mörgum milljónum kr. skiptir. Sú ábyrgð, sem hér er farið fram á fyrir allfjölmennan stað, er því smáræði eitt í samanburði við það, sem farið er fram á nú á þessu þingi, og það, sem veitt hefir verið á undanförnum þingum. Alþ. ætti og að kunna að meta þessar tilraunir Eskfirðinga og þann áhuga, sem vaknað hefir hjá þeim til þess að hrista af sér þetta slyðruorð, sem á þeim hefir legið, með því að koma af stað atvinnurekstri, svo að þeir ekki þyrftu að vera handbendi þjóðfélagsins. Þetta, segi ég, ætti Alþ. að meta með því að heimila þessa ábyrgð, því að hvaða stj. sem situr mundi vitanlega ekki nota þessa ábyrgðarheimild, nema því aðeins, að nokkurnveginn sé tryggt, að fyrirtæki það, sem reist verður, starfi á sæmilega fjárhagslegum grundvelli.

Um nauðsynina fyrir því að reisa strigaverksmiðju hér á landi get ég verið fáorður, því að það vita allir, sem nokkuð þekkja inn á framleiðsluna til sjávar, að ein sú vara, sem þar er notuð mest nú orðið og kostar Íslendinga árlega fleiri hundruð þús. kr. í erlendum gjaldeyri, er einmitt strigi til hverskonar umbúða. Og eins og vikið er að í grg., þá ætti ekki að vera erfitt að fá nokkurn hluta hlutafjárins frá þeim aðiljum, sem mest nota af þessari vöru, en það eru síldarverksmiðjurnar og fiskframleiðendur.

Rekstur fyrirtækisins skal ég ekki fara neitt út í, en aðeins geta þess, að ályktanir þær, sem birtast í meðfylgjandi bréfi, eru teknar eftir athugunum þeim, sem gerðar hafa verið af skipulagsnefnd atvinnumála og sjá má greinilegar heldur en hér í nál. hennar, sem allir hv. þm. hafa fengið í hendur, og læt ég nægja að vísa til þess.

Ástæður til að fella þessa till. eru ákaflega litlar, og jafnvel engar, en ástæðurnar til að samþ. hana eru miklar, þar sem hér er í fyrsta lagi um að ræða byggðarlag, sem sýnilega verður á einhvern hátt að hjálpa af því opinbera til þess að koma á einhverjum atvinnurekstri, og svo í öðru lagi, þar sem þarna er um fyrirtæki að ræða, sem áreiðanlega gæti, eins og svo mörg önnur hliðstæð fyrirtæki, sem nú er búið að koma upp hér á landi, orðið þjóðinni til hagsbóta með því að spara hinn erlenda gjaldeyri og auka vinnu í landinu sjálfu.

Ég skal svo ekki þreyta þessa fáu áheyrendur, sem hér eru, með lengri ræðu, en vil vænta þess, að till. verði vísað til fjvn. til frekari athugunar og væntanlegrar fyrirgreiðslu, þegar menn hafa rætt út um hana.