06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2587)

124. mál, Vestmannaeyjahöfn

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þessi till. er borin fram fyrir tilmæli bæjarstjórnar Vestmannaeyjakaupstaðar, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp ástæður hafnarnefndar fyrir umsókninni. Á fundi hafnarnefndar 9. marz var þetta mál tekið fyrir, og um það segir svo í gerðabók hafnarnefndar:

„Nefndin samþykkir að leggja til, að farið verði fram á það við yfirstandandi Alþingi, að veittur verði, helzt á þessu ári, eða, ef þess er ekki kostur, á fjárlögum næsta árs, ríflegur styrkur til dýpkunar á innsiglingunni í höfnina. gegn 3/5 kostnaðar úr hafnarsjóði.

Mannvirkjagerð innan hafnar er nú svo langt komið, með lokastækkun Básaskersbryggju á síðastl. ári, að hægt mundi að afferma þar skip allt að 1800–2000 smál. brúttó að stærð. Telur nefndin brýna nauðsyn bera til þess, að undinn sé bráður bugur að því að dýpka innsiglinguna í höfnina, svo að skip, sem fljóta innan hafnar, komist inn í höfnina að bryggju, hvort sem stórstraumur er eða smástraumur.

Nú er svo háttað, og hefir verið, að skip af þeirri stærð, sem venjulega koma hingað með salt og kol, fljóta ekki inn á höfnina nema í stórstrauminn, og það hefir og komið fyrir, að þau fljóta ekki inn, ef flóð eru lítil í strauminn. Hafa þau þá orðið að bíða næsta stórstraums, allt að hálfum mánuði, ef ekki hefir verið hægt að koma því við að létta þau með því móti, að skipa upp miklu af farminum í uppskipunarbátum af ytri höfninni. Slíkar tafir hafa það í för með sér, að mjög erfitt er að fá hingað flutningaskip, nema með slíkum ókjörum, að ekki er við unandi. T. d. eru farmgjöld til Vestmannaeyja núna helmingi hærri en til Reykjavíkur, og er óhætt að fullyrða, að Vestmannaeyingar greiði nú svo tugum þúsunda skiptir meira í þessu skyni heldur en greiða verður á sambærilegum stöðum annarsstaðar á landinu.

Nefndin telur alla sanngirni mæla með því, að ríkissjóður leggi 2/5 kostnaðar fram til mannvirkjagerðar eða umbóta á höfninni hér, eins og hann gerir víða annarsstaðar, bæði vegna þess, að hann á hér allt land, og ekki síður vegna þess, hve miklar tekjur renna til ríkissjóðs héðan, samanborið við önnur héruð landsins, miðað við fólksfjölda.“

Ég vil því næst leyfa mér að lesa upp bréf frá vitamálastjóra, þar sem hann lætur í ljós álit sitt um framkvæmd verksins og kostnað við það. Það er á þessa leið og er dags. 22. marz þ. á.:

„Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum hefir með símskeytum, dags. 10. og 13. þ. m., beðið mig um að gera áætlun um dýpkun hafnarinnsiglingarinnar, þannig að mynduð verði 15 m. breið renna 250 m. inn í höfnina, svo að dýpið verði um meðalflóð 6,3 m., sem samsvarar 3,3 m. um stórstraumsfjöru.

Við höfum athugað þetta mál og viljum fyrst benda á, að renna fyrir innsiglinguna, sem aðeins er 15 metra breið, mun vera mjög óheppileg. Í skipulagsuppdrættinum yfir höfnina er gert ráð fyrir 60 m. breiðri rennu fyrir innsiglinguna á höfnina, og mun það alls ekki of mikið. En 15 m. breið renna, eins og hér er um að ræða. mun verða alveg ófullnægjandi eða jafnvel hættuleg fyrir innsiglinguna, og hún mun jafnframt á tiltölulega stuttum tíma fyllast aftur. Að gera rennu mjórri en 25 m. væri mesta óráð, og ég vil fyrir mitt leyti leggja til, að verkið yrði ekki hafið með mjórri rennu heldur en 40–50 m. Gizka má á, að dýpkun rennunnar með 25 m. breidd muni kosta um 27000 kr., í 40 m. breidd um 43000 kr.“

Eins og kunnugt er, er á fjárlögum fjárveiting til lagfæringar höfninni. Um þær framkvæmdir, er þar hafa verið gerðar síðastl. ár, segir svo í bréfi frá Finnboga R. Þorvaldssyni verkfræðingi:

„Vinna við bryggjugerðina stóð yfir frá miðjum júlí til ársloka 1936.

Þessi verk voru unnin:

1. Rekið niður 180 m. langt járnþil.

2. Járnþilinu fest með boltum í blakkir úr járnbentri steinsteypu, sem lagðar voru í fyllingu bryggjunnar.

3. Að austurhlið uppfyllingarinnar var lagður steinveggur upp að Tangabryggju og veggurinn gerður sandþéttur með timburflekum og járnþili úr plötuafgöngum.

4. Dýpkun hafnarinnar kringum bryggjuna: Svæðið, sem dýpkað hefir verið, nær um 130 m. austur fyrir bryggjuna, um 160 m. í vestur frá bryggjunni, en 40–50 m. í norður. Fyrir vestan bryggjuna hefir verið grafið í 2,5 m. dýpi, en fyrir norðan og austan bryggjuna í 4,0 m. dýpi, miðað við lægstu fjöru. — Alls mun dýpkun kringum bryggjuna nema um 45000 m3, og af því mun um áramót hafa verið komin í bryggjutóttina um 37–38000 m.3.

5. Landfylling í bryggjuna: Bryggjutóttin hefir nú að mestu leyti verið fyllt sandi, en nokkuð mun þó enn vanta á, að sandfyllingin sé eins trú og áætlað var, enda er eftir að festa bryggjuþekjuna og steypa stétt meðfram bryggjuveggjunum. Sömuleiðis er eftir að festa búmtré í bryggjuvegginn og steypa nokkur festarhöld og ljósastaura.“

Þannig hefir hér verið dýpkað kringum bryggjuna og búið til nýtt land úr sandinum. En nú er það, sem næst liggur fyrir, að dýpka innsiglinguna, því að fyrir innan steinrifið hefir myndazt sandbúlki svo mikill, að 15 metra dýpi er á steinrifinu sjálfu, en aðeins 131/2 metra dýpi á búlkanum. Nú bíða tvö saltskip fyrir utan búlkann og komast ekki inn fyrr en í næsta stórstraum. Að þessu er vitanlega óskaplegur bagi og kostnaður, eins og bezt er lýst í samþykkt hafnarnefndar. — Ég mun ekki að sinni fara fleiri orðum um þetta mál, en óska, að því verði að lokinni umr. vísað til fjvn.