17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (2641)

153. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Finnur Jónsson:

Ég vil mótmæla þeim ummælum hv. þm. Ak., að í minni brtt. felist óvinátta í garð þess máls, sem hann flytur með þáltill. sinni. Ég benti á það, að Alþingi hefði tekið upp þá reglu, þegar veitt var ríkisábyrgð fyrir Ísafjörð, að veita ríkisábyrgð fyrir aðeins 85% af kostnaðinum, og sama mun hafa gilt fyrir aðrar ríkisábyrgðir. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt, ef veita á lán til virkjunar fyrir Akureyrarkaupstað og nærliggjandi héruð, að þeirri reglu verði fylgt áfram. Hvað það snertir, að ég hefði getað flutt þessa till. sérstaka, er það vitanlega alveg rétt. Ég hefi fram að þessu búizt við, að fjárlög yrðu afgr. á þessu þingi, og þá myndi þessi heimildartill. verða flutt þar við, en ekki sérstök. Ég hefi þess vegna komið með þessa brtt. í þeim tilgangi að reyna að koma henni fram á þessu þingi, ef inn á þá braut yrði farið að afgr. hér eitthvað af stærri ríkisábyrgðum með þáltill. Ég get gert það hv. þm. Ak. til geðs að taka þessa brtt. aftur til síðari umr., í þeirri von, að hv. fjvn. taki hana til athugunar samtímis því, að þessi þáltill. verður afgreidd.