17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (2644)

153. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég get tekið undir það með hæstv. fjmrh., að það sé hyggilegt að leitast við að draga úr þeim ríkisábyrgðum, sem venja hefir verið að veita fram að þessu, en þar verður áreiðanlega ekki hægt að byrja á stærstu ábyrgðunum. Það er augljóst mál, að þegar bæir þurfa að fá lán, þá er miklu erfiðara fyrir þá að útvega sér há lán upp á eigin spýtur heldur en lág lán, en nú hefir ríkisábyrgð verið veitt hvað eftir annað fyrir nokkrum tugum þúsunda króna handa bæjarfélögum, sem segja má, að hafi verið vorkunnarlaust að útvega án ríkisábyrgðar, en það er ekki hægt að segja það sama, þegar upphæðin veltur á milljónum. Ef hæstv. fjmrh. vill gera tilraun með það, hvar hægt sé að stinga fótum við í þessu efni, þá hygg ég, að réttara sé að byrja á lægri lánunum. Ég tel mjög litlar líkur til þess, og Akureyringar sjálfir telja það nokkurnveginn útilokað, að hægt sé að útvega Akureyri þetta lán án ríkisábyrgðar, en það verður reynt að útvega lánið, og ef það tekst án ríkisábyrgðar, þá verður ekki um annað beðið, en það er í því tilfelli, sem yfirgnæfandi líkur eru til, að það þurfi ríkisábyrgð, sem þeir óska, að ríkisstj. fái þessa heimild til að ábyrgjast lánið.

Viðvíkjandi orðum hv. 1. landsk., að það lægi fyrir frv. um svipað efni, vil ég nota tækifærið til þess að þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu þessa máls, svo langt sem hún nær, en eins og grg. þáltill. ber með sér, er hún fram borin vegna þess, að einsætt þótti, að frv. mundi ekki ná fram að ganga. Nú mun ég reyna að ýta á eftir frv., þangað til þessi þáltill. kemur til síðari umr., og þá verður enn betur séð, hvernig horfir með möguleikann fyrir því, að koma frv. áfram. En ég hygg, að ef hv. 1. landsk. væri alvörumál að styðja að því á þessu þingi, að ábyrgðin næðist í gegn, þá mundi hann nú styðja þessa þáltill. mína og láta þá skeika að sköpuðu, hvað um frv. yrði á þessu þingi, sem nú er talið vera komið að lokum. — Við hv. þm. Ísaf. vildi ég segja það, að ég tel nokkra bót í því, að hann taki till. sína aftur til síðari umr., og vil ég því þakka honum fyrir það.