15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ólafur Thors:

Það er nú sýnt, hvert stefnir með þessi l. hæstv. ráðh., sem mestum hneykslum hafa valdið hér á Alþingi. Það er útlit fyrir, að bráðabirgðalög hæstv. forsrh. um leigunám á mjólkurstöð mjólkursamlags Kjalarnessþings verði samþ., og það má segja, að margt, beri við hér á þessum síðustu dögum, þegar það er sjálfur Framsfl., sem flytur till. um að lögleiða beinlínis þá skipun á stjórn síldarverksmiðjanna, sem flokkurinn hefir opinberlega lýst sig andvígan og ekki farið dult með. Enda er það vitað í þingsölunum, að Framsfl. hefir verið andvígur þessum bráðabirgðalögum, og honum var í sjálfsvald sett að koma sínum vilja fram í þessu máli, þar sem það er kunnugt, að Sjálfstfl. fyrir sitt leyti var þess albúinn að fella frv. það, sem hér er til umr., sem eru bráðabirgðalög, er hæstv. atvmrh. ber ábyrgð á, og samþ. á þessu þingi nýja löggjöf um skipun þessara mála, sem er frv., er borið var fram af hálfu Framsfl. og hv. Ed. er búin að fallast á.

Ég harma það mjög, að Framsfl. skuli hafa tekið sinnaskiptum í þessu máli og að hann skuli nú bera fram till. um að bjarga þessu ófremdarverki, en öðru nafni get ég ekki kallað þessi bráðabirgðalög, og bera út sitt eigið afkvæmi, þetta eina afkvæmi, sem við höfum fullkomlega og án kinnroða getað meðgengið með Framsfl. (Hlátur í salnum). Við sjálfstæðismenn vorum reiðubúnir að fylgja því máli fram til sigurs með Framsfl. Það er ekki nema eðlilegt, að menn eins og hv. þm. Ísaf. gangi hér um og hlægi að hv. þm. N.-Þ. fyrir það, að hann skuli hafa borið fram þá till., sem hér er fram borin. Mér dettur ekki í hug, að háttv. þm. N.-Þ. geri það sjálfs sín vegna að bera fram þessa till. Hann gerir það áreiðanlega í nafni flokks síns. Það er einn liðurinn í því samkomulagi, sem er sagt, að sé á bak við tjöldin hjá stjórnarfl., til þess að einingin geti orðið sem bezt í þeim kosningum, sem sagt er, að séu fram undan.

Ég þarf ekki að taka það fram, að við sjálfstæðismenn munum greiða atkv. móti þessari till. hv þm. N.-Þ. og á móti lögunum. Við viljum ekkert annað en fella þessi bráðabirgðalög. Við viljum ekki gera okkur það til háðungar og sýna þá hálfvelgju í málinu, að lengja líf þessara bráðabirgðalaga með því að samþ. þessa till., og gefa þannig Framsfl. tækifæri til þess að gera okkur meðábyrga, að þessi lög gildi áfram.

Ég skal ekki endurtaka þau andmæli, sem við sjálfstæðismenn berum fram gegn þessu frv. Ég gerði það við 1. umr. málsins, og það er ekki til annars en að vekja upp nýjar málalengingar um málið að fara að endurtaka það nú. Afstaða Sjálfstfl. til þessa máls er sú, að hann vill styðja frv. framsóknarmanna, en fella þessi bráðabirgðalög, sem hæstv. atvmrh. ber ábyrgð á.