16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

Kosning fastanefnda

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst hv. 4. landsk. heimta meira af mér heldur en sjálfum sér. Hann vill ekki svara neinu því máli, sem hér er um að ræða, en segist skuli sýna það við atkvgr. Ég ætla því að fara svipað að og svara honum síðar. Annars þarf hv. þm. ekki að spyrja; hann veit vel, við hvaða flokka ég á, því að hann stendur í fylkingunni sjálfur með báða fætur fjötraða.

Þá er það hv. þm. S.-Þ. Hann sagði, að það væri sýnt sambandið í verkunum milli Bændafl. og Sjálfstfl., af því að við vorum að styðja Bændafl. í að koma mönnum í n. Út af þessu vil ég benda á, að ég man þá tíð, er hv. 4. landsk. var hér á þingi einn í flokki. (JBald: Ég var flokkur). Þá hjálpaði ég honum til að komast í n. En nú ætlar hann að setja sig á svo háan hest að líta niður á litla flokka. Það fer illa á því, er menn ofmetnast, ef vel gengur, og nú, þegar hann er orðinn voldugur, ætti hann að minnast sinna fyrri tíma og sýna öðrum sömu sanngirni og honum var sýnd meðan hann var lítilmagni. Hv. þm. S.-Þ. tekur sömu afstöðu til þessa og hv. 4. landsk. En ég vil bara segja honum, að það getur vel komið fyrir, að hann verði fáliðaðri síðar heldur en nú, ef hann á eftir að verða gamall maður — það er reyndar sagt, að hann sé nú þegar orðinn það, en ég vil ekki taka undir það, — og þá getur skeð, að hann vilji gjarnan komast að því að starfa í n. á þingi. Ég álít það ósið að útiloka þá þingflokka frá störfum, sem kunna að vera svo fámennir, að þeir hafi ekki afl til þess að koma mönnum í n. Auk þess er það heimskulegt, því að þeir menn geta engu síður lagt fram góða starfskrafta heldur en þeir, sem eru í stóru flokkunum, þar sem hver liðleskjan á víst að komast í n. En duglegum manni, sem er í litlum flokki, er bægt frá að komast að störfum. Þetta er ranglæti, sem ekki ætti að eiga sér stað.