15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ólafur Thors:

Hv. þm. N.-Þ. telur, að ég sé með óþarflega mikil heilabrot út af málinu. Ef svo er, þá held ég, að hann sjálfur hafi brotið heilann sinn óþarflega lítið eða óhæfilega lítið í sambandi við flutning þessarar till. Það er rétt sem hv. þm. sagði, að till. væri um það, hvenær viss lög eiga að falla úr gildi og önnur að koma í staðinn, en þá stendur það óhaggað, sem ég hefi sagt, að svo framarlega sem þessa till. á ekki að skoða yfirlýsingu um það, að búið sé að taka fasta ákvörðun um þingrof, þannig að þingið eigi að koma saman aftur í haust, þá hefi ég fullt leyfi til að spyrja hv. þm. um það, hvaða lög það séu, sem eigi að koma í staðinn um næstu áramót, þegar þessi lög eru fallin úr gildi. Hver á að setja lögin, ef ekkert Alþingi á að koma saman til að setja þau? Fyrir þinginu liggur skynsamlegt frv., sem Framsfl. hefir flutt, um skipan þessara mála, og við sjálfstæðismenn höfum stutt, svo að það er von, að ég spyrjist fyrir um, hvort þessi hv. þm. geti gefið okkur sjálfstæðismönnum yfirlýsingu um, hvernig þau fyrirmæli eiga að vera, sem lögfest verða um áramótin, ef þetta þing lætur undir höfuð leggjast að samþ. það lagafrv. um þetta mál, sem Framsfl. hefir borið fram og Sjálfstfl. vill styðja, og þar sem það er greinilegt, að svo framarlega sem þetta á ekki að skoðast sem yfirlýsing um þingrof, þá hlýtur að koma að því, að það þurfi einhver annar en Alþingi að gefa út þessi fyrirmæli. Verði ekki þingrof, á þing að koma saman aftur 15. febr. næstkomandi, en þessi lög eiga að falla úr gildi um næstu áramót eftir till. hv. þm. N.-Þ.; ég hefi þess vegna leyfi til að spyrja hann, hvað eigi að koma í staðinn, því að ef hann getur ekki gefið um þetta neina yfirlýsingu, þá verður hann að sætta sig við það, að við sjálfstæðismenn skorum á Framsfl. að fylgja fram þeim till., sem þeir hafa sjálfir borið fram hér í þinginu og við viljum styðja, með því að þær geyma skynsamlegri og eðlilegri fyrirmæli um stj. þessa mikla fyrirtækis heldur en fram komu í þeim bráðabirgðal., sem þessi hv. þm. ætlar nú að hjálpa til að halda í, og þetta er því eðlilegra sem það er jafnframt vitað, að hæstv. atvmrh. er þegar búinn að lýsa því skýrt yfir, að ef það yrði hans hlutskipti að þurfa að gefa út um þetta ný lög, þannig að þingið gengi ekki frá málinu, þá mundi hann gefa út samskonar lagafyrirmæli og þau, sem í þessum bráðabirgðal. felast, sem Framsfl. hefir lýst sig andvígan, hvað sem það kann að hafa verið, þegar þau voru gefin út. Mér sýnist eðlilegt og þinglegt, að við sjálfstæðismenn berum fram þessa fyrirspurn, og ef ekki kemur yfirlýsing um, hverskonar lagafyrirmæli eiga að koma um þetta mál um næstu áramót, þá höldum við fast við að vera bæði á móti þessari till. og frv. og viljum reyna að knýja fram það frv., sem Framsfl. hefir borið fram, og framsóknarmenn verða þá að una því hlutskipti að verða sjálfir banamenn þess frv., sem þeir sjálfir fluttu.