15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Ég hygg, að það eigi að skilja brtt. hv. þm. N.-Þ. þannig, að það sé fengið samkomulag um það milli Framsfl. og Alþfl. að afgreiða þetta frv. sem lög frá Alþingi, en lofa frv. því, sem hv. þm. Eyf. báru fram í Ed., að sofna, og mér virðist þess vegna eðlilegt að spyrjast fyrir um það, hvort sú saga sé sönn, sem gengur um, að gegn þessu hafi Framsfl. verið lofað því, að hann skuli fá frekari íhlutun um stjórn síldarverksmiðjanna á Siglufirði en hann hefir nú. Það er sem sé vitað, að sá skilningur hefir verið ríkjandi, a. m. k. síðan þing Framsfl. var haldið, að þingfl. ættu að ráða því, hverjir væru kosnir í stjórn þessa fyrirtækis. Sá maður, sem Framsfl. hefir kosið að hafa í stjórn fyrirtækisins, er Þormóður Eyjólfsson á Siglufirði, og ég hygg, að aðaltilgangur hv. þm. Eyf. með því að bera fram þetta frv. hafi verið að tryggja þeim flokki, að sá maður komist í stjórn síldarverksmiðjanna, vegna þess að hann er góður fylgismaður Framsfl. og hefir mjög haldið uppi þeirra rétti á Siglufirði pólitískt. Nú er það vitað, að við síldarverksmiðjurnar á Siglufirði starfa nú mjög ákveðnir fylgismenn jafnaðarmanna, og ég hefi sannanir fyrir því, að það hafi verið beitt hreinni atvinnukúgun við þetta fyrirtæki, og pólitískt fylgi við flokk jafnaðarmanna beinlínis sett að skilyrði fyrir atvinnu. Ég mun á sínum tíma, þó að ég vilji ekki gera það nú, geta sagt hæstv. ráðh. nöfn ákveðinna manna, sem einn af ákveðnum fylgismönnum jafnaðarmanna, sem vinnur við verksmiðjurnar, hefir reynt að hafa áhrif á pólitískt, og þessari hlutdrægni er náttúrlega borgið áfram, ef þetta frv. nær fram að ganga, því að þá starfa áfram sömu kraftar við verksmiðjurnar og verið hefir. Hinsvegar þætti mér gaman að vita, hvaða „mótíveringu“ hv. þm. Eyf. á sínum tíma færa fram fyrir hinni breyttu afstöðu sinni, sem þeir væntanlega verða að hafa gagnvart þessu frv., þegar það kemur til hv. Ed. Sjálfstfl. er mjög fjölmennur á Siglufirði, en það hefir, eins og hægt hefir verið, verið gengið fram hjá þeim mönnum, sem hafa fylgt þeim flokki, af ráðamönnum síldarverksmiðjanna. Ég þykist vita, að hæstv. ráðh. muni neita þessu, eins og hann gerði í hv. Ed., en það er samt sem áður satt, og það þýðir ekki fyrir hann að berja í borðið og halda hinu gagnstæða fram, því að Siglfirðingar vita það betur, og ég hefi það eftir þeim. Það verður fróðlegt að vita, hvort þeir samningar hafa verið gerðir milli þessara flokka, að bráðabirgðal. skyldu samþ., en samt sem áður ætti að koma inn í stjórn síldarverksmiðjanna frekari íhlutun af hálfu Framsfl., þannig að tryggt væri fyrir þann flokk það, sem hv. þm. Eyf. ætluðu að tryggja með því frv., sem þeir báru fram.