15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Hv. þm. Ísaf. fann sig eitthvað sekan í þessu efni, en ég get sagt það, að mín ummæli beindust ekki til hans persónulega, þó að ég þykist vita, að hann muni nota sitt pólitíska vald til þess að 1áta sína flokksbræður sitja fyrir vinnu frekar en andstæðingana. En jafnvel þótt ekki hafi verið teknir nema tveir fastir starfsmenn af núv. verksmiðjustjórn, þá veit hv. þm. það mjög vel, að það eru iðulega teknir hópar af mönnum til lengri og skemmri tíma til þess að vinna við verksmiðjurnar, og hann veit, að það eru hans pólitísku bræður, sem sitja fyrir þeirri vinnu, og hv. þm. veit líka um þau ummæli, sem hv. þm. Eyf. viðhöfðu nýlega í hv. Ed. um einn mjög ákveðinn fylgismann sósíalista við verksmiðjurnar á Siglufirði, og það er ákaflega óeðlilegt, að þeir hafi viðhaft sömu ummælin og ég, ef þeir hafa ekki fundið þetta líka. (Atvmrh.: Þeir hafa engin slík ummæli viðhaft). Víst. Hæstv. ráðh. veit, að þetta frv. hv. þm. Eyf. er einungis borið fram til þess að svara þessu, og ég vil svo benda hv. þm. Ísaf. á það, að sá maður, sem nú starfar á skrifstofu síldarútvegsnefndar á Siglufirði og líka er formaður félags jafnaðarmanna þar, notar sína aðstöðu mjög pólitískt; hann notar sinn tíma, bæði þegar hann á að starfa sem skrifstofumaður hjá þessu fyrirtæki og endranær, til þess að afla sínum flokki fylgis. Og þessi maður kynokar sér ekki við að hafa ýms önnur störf á hendi, sem beinlínis eru á móti hagsmunum þeirra manna, sem hann vinnur fyrir, útgerðarmannanna, og ég hygg, að hv. þm. Ísaf. viti mjög vel, að þessi maður er mjög pólitískur, og er nú sagt, að hann eigi að vera í kjöri fyrir sósíalista í Eyjafjarðarsýslu, og það er einnig sagt, að það séu ákveðnir menn, sem vinni að því, að hann verði í kjöri, og ekki verði farið eftir þeirri prófkosningu, sem farið hefir fram, og er það í samræmi við það, sem annarsstaðar er vitað um starfsemi þessara manna.