15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Thor Thors:

Þetta er eitt af stóru málum þingsins, þó að það virðist ekki í fljótu bragði vera mjög stórkostlegt. Mér finnst því rétt, að það fari ekki svo út úr d., að þm. gefist ekki kostur á að lýsa skoðun sinni á málinu. Maður kemst ekki hjá því að átelja allan þann skrípaleik, sem hefir átt sér stað í sambandi við þetta mál frá upphafi til enda. Jafnframt verður maður að átelja harðlega þá óvirðingu við þingræðið, sem hér hefir átt sér stað. Þetta mál er vinnudeila á milli stjórnarflokkanna. Það er deilt um það, hvorir eigi að ráða meira um atvinnu við síldarverksmiðjurnar á Siglufirði, framsóknarmenn eða sósíalistar. — Nú er reynt að jafna þessa vinnudeilu, og hv. þm. N.-Þ. ber hér fram till. um sáttatilraun í vinnudeilu, og nú virðast sósíalistar vera æði fegnir þeirri sáttatilraun.

Það er vitað mál, að allt þingið í fyrra var hörð rimma milli stjórnarflokkanna um þetta mál. Deilan var um það, hverjir skyldu stjórna síldarverksmiðjunum og hverjir skyldu úthluta náðarbrauðinu við verksmiðjurnar. Sú deila fékkst ekki leyst innan þingsins. Þetta vissi hæstv. atvmrh., og þetta vissi allur sósíalistaflokkurinn. Hann vissi, að það þurfti að ryðja burt einstökum mönnum úr verksmiðjustjórninni, en það var ekki hægt að gera með samþykki alls þingsins. Þess vegna var byrjað með því á þinginu í fyrra að úthluta bitum og bitlingum til þeirra, sem verið höfðu í stj. verksmiðjanna. Hv. 3. landsk. var keyptur til þess að segja af sér embætti með því að gera hann að endurskoðanda landsreikninganna. Eftir að þingi er lokið, grípur hæstv. atvmrh. til þess að gefa út braðabirgðalög um efni, sem hann veit, að þingið ekki samþ. Þetta var fyrsti þáttur þessa máls. En deilunni heldur áfram, og flokksþing framsóknarmanna lætur þetta mál til sín taka. Það kemur greinilega fram í samþykkt þess þings, að framsóknarmenn vilja ráða því, hvaða menn þeir skipi í stj. síldarverksmiðjanna. Þm. Eyf. fluttu frv. í Ed. um breyt. á stj. verksmiðjanna; það var gerður allmikill hávaði út af þessu, og því var 1ýst yfir í blaði framsóknarmanna, að nú hafi Framsfl. fundið nýja leið í þessu máli, sem sé fullkomlega réttlát, eina leiðin, sem tryggi það, að þjóðin ráði yfir þessu mikla ríkisrekstrarfyrirtæki. Í umr. í Ed. var mikið barizt um þetta, og þm. Eyf. staðhæfðu, að þetta væri sú eina rétta lausn málsins, og þingflokkurinn, þar á meðal hæstv. forsrh., greiddu þessu frv. atkv., og Ed. samþ. það. Þjóðinni var tilkynnt, að Framsóknarflokkurinn ætlaði ekki að víkja frá þessari stefnu í málinu og sýna kjark til að rísa upp gegn ofríki sósíalista. Ýmsir urðu til að fagna því, einkum í hópi framsóknarmanna. Þeir höfðu þráð það, að sú stund rynni upp, að Framsfl. risi upp gegn ofjörlum sínum. En það sýnir sig bezt hér, að hér er aðeins um einn flokk að ræða, og að það er aðeins einn húsbóndi á þessu kærleiksheimili. Allt í einu er snúið við á bak við tjöldin og öll orð og athafnir framsóknarmanna í Ed. gerð gersamlega ómerk. Að hugsa sér þennan drengskap gagnvart samflokksmönnum og flokksmönnunum á Siglufirði, sem þarna sáu loksins hið fyrirheitna land! Fyrr má nú vera drengskapur!

Hv. þm. N.-Þ. segir, að frv. þm. Eyf. sé rétti grundvöllurinn í þessu máli. Því þá að víkja af þeim rétta grundvelli? Hvað kemur hv. þm. N.-Þ. og öllum Framsfl. í þessari hv. d. til þess að víkja af réttum grundvelli? Þeir virðast ekki hafa heyrt þetta: „Vinn það ei fyrir vinskap manns, að víkja af götu sannleikans.“ Þeir eru að víkja af vegi þess sannleika, sem þeir hafa skjalfest í Alþt., til þess að vinna sér vinfengi ofjarlanna, hv. 2. þm. Reykv. og þeirra, sem honum fylgja. — Það er bersýnilegt, að þetta er stefnan með þessari sáttatilraun hv. þm. N.-Þ. En þjóðin fær tækifæri til þess að dæma um þá karlmennsku og drengskap við flokksmennina, sem þarna kemur fram, hvort sem það verður í vor eða næsta sumar.

Það er einkum hjá stjórnarliðinu, að enn er haldið áfram að gefa til kynna, að þingrof sé framundan, en mér virðist lítið vera orðið úr þeim vindi, sem var í ýmsum fyrir mánuði síðan. Þá setti hv. 2. þm. Reykv. úrslitakosti til Framsfl., sem átti að afgreiða á einni nóttu. Ég sé ekki, að komið hafi til neinna úrslita milli flokkanna, þó að ekki hafi verið farið að ráði hv. 2. þm. Reykv. í einu máli. Það er augljóst mál, að nú gengur ekki hnífurinn á milli stjórnarflokkanna. Þeir eru sammála í einu atriði sem öllu. Og því á þá að halda áfram að blekkja þjóðina? Því á ekki að taka upp alvarleg störf á þessu þingi, sem ennþá hefir ekkert gert?

Það er nú auðvitað dálítið hjákátlegt hjá hæstv. atvmrh. að vera að tala um, að ráðh. eigi þann kost að biðjast lausnar, þessum ráðh., sem jafnvel framsóknarmenn hafa haft þau orð um, að ómögulegt væri að losna við hann úr ráðherrastóli, svo þaulsætinn væri hann.

Ég sé ekki ástæðu til þess að taka upp almennar umr. við hæstv. atvmrh. um hlutdrægni í embættisveitingum, en meðan það er vitað, að hann hefir sagt við pólitískan andstæðing, að hann gæti ekki veitt honum embætti, af því að hann gæfi honum þar með gott tækifæri til þess að beita sínum pólitísku áhrifum, þá ætti hann ekki að vera að tala um hlutdrægni í embættisveitingum.

Það er nú fyrirsjáanlegt, hver verður framgangur þessa máls, en ég vil segja það að lokum, að ég vorkenni framsóknarmönnum í Ed. þegar þeir fara að greiða atkv. með þessu frv., eftir það, sem á undan er gengið í þeirri d.