16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Magnús Guðmundsson:

Ég beið með að kveðja mér hljóðs, af því að ég vildi ekki trufla þann sjónleik, sem hv. stjórnarfl. leika hér, og ætlaði að draga mig í hlé, því að ég leik ekki neitt aðalhlutverk þar. En hv. 1. þm. Eyf. vill sjáanlega fá dálítið hlé til að hugsa, og vil ég þá leyfa mér að segja örfá orð.

Mér skildist af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að hann ætlaði að fara að setja hæstv. atvmrh. undir eftirlit, svipað og er með „Kveldúlf“, og hefi ég ekkert við það að athuga út af fyrir sig. En nú þegar hæstv. ráðh. svarar, þá segir hann, að hann ætli að vera í samráði við stærstu flokka þingsins, eins og hann orðaði það, og koma með undirbúna löggjöf um þetta efni, eftir að hafa haft samráð við hina stærstu flokka þingsins um hana. Hæstv. ráðh. sagði ekki eitt orð um það, að hann ætlaði að fara eftir ráðum þessara flokka. Hann ætlar að leita eftir vilja þeirra, en hvort hann fer eftir honum, er ósannað mál. Það kemur nú fram í öðrum þætti þessa leiks, hvort hv. 1. þm. Eyf. vill láta sér nægja þetta. Ég hefi gaman af að heyra, hversu ánægður hv. 1. þm. Eyf, er með þetta svar, sem ég efast ekki um, að er undirbúið fyrirfram.

Annars vil ég benda á, að þetta mál er ekki nýtt mál á þingi. Það er vitað, að á síðasta þingi voru deilur um þetta mál, svo að segja allt þingið, og þá fór það þannig, að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman. Þá var gripið til þeirra ráða, sem ég tel vera hreinustu örþrifaráð, að ráðh. gaf út bráðabirgðal. um atriði, sem vitað var, áður en þingi sleit, að mundi koma fyrir, og þess vegna var eftir öllum þingræðisreglum skylt að gera út um þetta á því þingi. Hér er því eftir mínu viti um að ræða hreina misnotkun á bráðabirgðal. Það þarf enginn að reyna að telja mönnum trú um, að stj. og stjórnarflokkarnir hafi ekki vitað um þetta, sem átti að koma fyrir strax að þinglokum, að umboðsmenn Alþfl. í stjórn síldarverksmiðjanna segðu af sér.

Annars vil ég út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, geta þess, að hann ætlast nú til, að hæstv. atvmrh. fái að ráða fyrirkomulagi þessara mála til áramótanna næstu, og verður ekki séð annað en að hann sé nú ánægður með það, þótt hann áður hafi látið allt aðra skoðun í ljós. Eftir næstu áramót ætlast hann til, að tekin verði annaðhvort upp sú tilhögun, sem hann hefir stungið upp á í sínu frv., sem afgr. hefir verið frá þessari d., eða önnur, sem aðalflokkar þingsins koma sér saman um. En ég get ekki séð, að það séu miklar líkur til, að það verði samkomulag, nema ef svo er, að hv. 1. þm. Eyf. ætli sér eftir 1. jan. eða fyrir 1. jan., þegar 1. verða undirbúin, að slá enn undan.

Ég hjó eftir því, að hv. 1. þm. Eyf. sagði við umr. um þetta mál, að aðalástæðan fyrir því, að hann bæri sitt frv. fram hér í d., væri sú, að sér væri kunnugt um það af frásögnum sinna flokksmanna á Siglufirði, að beitt væri megnri hlutdrægni í veitingu starfa við þessar verksmiðjur. Hann sagðist ekki þekkja þetta af eigin reynd, en sagðist hafa það eftir sínum flokksmönnum á Siglufirði, og hann hefði enga ástæðu til að rengja það. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvaða tryggingu hefir hann útvegað sínum flokksmönnum fyrir því, að þeir verði ekki beittir þessari sömu hlutdrægni, það sem eftir er þessa árs, eins og hann telur, að hafi verið beitt hingað til?

Það þykir kannske ósvífni að minna á, að það er til þriðji flokkurinn, og hann allstór á Siglufirði, sem eru sjálfstæðismenn, og mætti hnýta því aftan í fyrirspurnina, hvort nokkuð sé séð fyrir því, að þeir verði ekki beittir órétti það sem eftir er ársins?

Vænti ég þess, að hv. 1. þm. Eyf svari þessu, því að hann getur tæplega ekið heilum vagni heim frá þessu máli, nema hann hafi á einhvern hátt tryggt sínum flokksmönnum a. m. k., að þeir fái réttmætari meðferð í þessum málum til áramóta heldur en þeir hafa fengið hingað til eftir hans eigin sögn.

Annars eru það lítil meðmæli með ríkisrekstri, hvernig fer með þetta mál. Það er leiðinleg flokkatogstreita, sem hér á sér stað. Og þegar svo er komið, að 2 aðalflokkar þingsins sjá sér ekki annað fært, eða sáu sér fyrir nokkrum dögum ekki annað fært, en setja upp 20 manna stj. eða yfirmenn við þessa verksmiðju á Siglufirði, til þess að reyna að fyrirbyggja misrétti, — þá sér maður, að ekki er allt með felldu.

Ég veit ekki, hvort hv. 1. þm. Eyf. hefir skipt um skoðun í þessum efnum. Mér skilst ekki. Annars verð ég að segja það, að mér verður á að álíta, að hann sé ekki sérstaklega hreinskilinn í þessum málum, þegar hann gefur yfirlýsingu um það, að hann viti ekkert, hvort það eigi að rjúfa þingið. Þegar hann, sem er einn af hinum ágætustu mönnum í stjórnarflokkunum, ætlar að fara að telja okkur trú um það, að hann viti ekkert, hvort á að rjúfa þingið eða ekki, þá sýnist mér, að hv. þm. sýni okkur hérna í d. ekki alveg fulla hreinskilni, því að ég veit, að hann efast ekki um, að þetta eigi að verða.

Ég vík að því aftur, sem ég nefndi áðan, að það fyrirkomulag á að gilda til næstu áramóta, sem hæstv. atvmrh. ákvað með bráðabirgðal., en svo vill hv. 1. þm. Eyf. skipta um stefnu frá 1. jan. Þá kemur víst hans tími til að taka við þessum málum, og ættu stjórnarflokkarnir því að skipta yfirráðunum yfir verksmiðjunum á milli sín, eins og krakkar skipta leikföngum sínum, þannig að þau hafa þau sinn klukkutímann hvort, og leikföngin eru þessi stórkostlegu ríkisfyrirtæki, sem rekin eru á Siglufirði og víðar.

Ég vil að síðustu taka það fram, að ég vona, að hv. 1. þm. Eyf. svari greinilega og með meiri hreinskilni en hann talaði um þingrofið, hvort tryggt sé, að ekki verði beitt þeirri hlutdrægni við síldarverksmiðjurnar, sem hann lýsti svo átakanlega við flutning þess frv., sem hann bar fram fyrir nokkru hér í d.