16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér er ekki kunnugt um þessa sögu, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, og ég fæ heldur ekki séð, að verksmiðjustjórnin geti ráðið við það, hvað einstakir menn gera sín á milli. En mér þætti fróðlegt að vita, hvort verksmiðjustjórnin hefir ritað á þennan samning eða ekki. Það er von, að þessi hv. þm. geti látið sér detta í hug slíka samninga sem þessa, en ég sé ekki, hvað verksmiðjustjórnin getur ráðið við það, þó að einhver maður hætti vinnu og semji við annan um að koma í sinn stað. Þetta sýnir því ekkert um hlutdrægni verksmiðjustjórnarinnar. Ef hún hefir ráðið þennan mann, þá er það vafalaust af því, að hún hefir haft þörf fyrir hann til starfa, en mér er sem sagt ókunnugt um þessa sögu. Ég bara spyr, hvort verksmiðjustjórnin hafi staðfest þessa samninga milli þessara manna? Ef svo er, þá má ræða þetta við hana, annars er þetta henni óviðkomandi.

Hv. 1. þm. Skagf. fannst það hið mesta hermdarverk af mér sem ráðh. að bera þær sakir á ýmsa leiðtoga Sjálfstfl., að þeir hefðu staðið fyrir stöðvun síldarútvegsins á síðastl. vori, og vildi hann halda því fram, að með þeirri stöðvun hefði lánazt að hækka síldarverðið. Hv. þm. veit, að þetta er tilbúningur einn og með öllu tilhæfulaust. Hann veit, að áður en ég fór af landi burt í vor, var búið að ákveða fast verð á síldinni, kr. 5,30. Það er því tilbúningur einn, sem sjálfstæðismenn hafa búið til, eftir að þeir fóru halloka í þessari deilu, að þeir hafi nokkru áorkað um, að verðið hækkaði. Það var ákveðið áður.

Annars vil ég segja það, að mér finnst hv. 1. þm. Skagf. leika mjög eftirtektarverða rullu við þessar umr. Mikill hluti af ræðu hans snerist í þá átt að mæla gegn því frv., sem hann sjálfur hefir greitt atkv. með. En þá er nú leikaraskapurinn kominn á nokkuð hátt stig, þegar eins langt er gengið og hv. 1. þm. Skagf. gengur í sambandi við frv. þeirra hv. þm. Eyf.