16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég get svo sem skilið það, að hæstv. ráðh. þyki það ekki neitt langt gengið, að ráðinn sé maður að verksmiðjunni, eftir að búið er að fullráða nóga menn að verksmiðjunni, og neita mörgum um vinnu þar, þegar það er sósíalisti, sem bætt er við. Þessi maður var sendur austur með bréf upp á vasann. ég man ekki, hvort heldur frá verksmiðjustjórninni eða forstjóranum, en ég hefi þetta allt skjalfest heima hjá mér og get sannað það hvenær sem er. Þegar maðurinn er svo búinn að vera á Raufarhöfn í 10 eða 12 daga, án þess að gera nokkuð, af því að lítið eða ekkert var handa honum að gera, þá selur hann öðrum manni atvinnuna og fer burt. Ég fæ ekki séð, hvernig þetta mannsal hefir getað farið fram án samþykkis verksmiðjustjórnarinnar.