16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. N.-Ísf. svaraði ekki því, sem ég spurði hann að. Ég spurði hann, hvort þeir samningar, sem hann segist hafa í fórum sínum, væru áritaðir af verksmiðjustjórninni. Það er það eina, sem skiptir máli. Hitt get ég fullvissað hv. þm. um, að maðurinn hefir alls ekki verið ráðinn að verksmiðjunni, ef ekki hefir verið þar pláss fyrir hann, og hefir hv. þm. sannað þetta sjálfur, því að hann sagði, að maðurinn, sem seldi vinnuréttindin, hefði verið óánægður yfir því, að sá, sem keypti, hefði fengið meiri vinnu en búizt var við.