25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

11. mál, alþýðutryggingar

*Thor Thors:

Mér finnst ástæða til þess við þessa umr. að minnast betur á en hæstv. atvmrh. gerði, að á síðasta þingi var borið fram frv., sem að efni til gekk út á það sama og þessi bráðabirgðalög, að menn á aldrinum 60–67 ára skyldu eiga rétt til ellilauna eins og verið hefði samkv. gamla skipulaginu. Hér í Nd. fékkst fullkomið samkomulag um þetta mál, og voru flokksmenn hæstv. atvmrh. þar sammála okkur sjálfstæðismönnum. En í Ed. beitti hæstv. atvmrh. áhrifum sínum á síðustu stundu til að koma í veg fyrir, að frv. næði fram að ganga. Hann hélt því þá fram með tilsvarandi yfirlæti, að frv. væri óþarft. Reynslan hefir nú sýnt, hvor hafði meira til síns máls.

Ég verð að kalla það kaldhæðni örlaganna, að hæstv. ráðh. skuli nú hafa orðið að gefa út bráðabirgðalög alveg sama efnis og það frv., sem hann beitti sér svo mjög fyrir, að næði ekki fram að ganga á síðasta þingi.