13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Það er vegna veikinda hv. 6. þm. Reykv., að ekki hefir verið lögð fyrir brtt., sem við höfðum hugsað okkur að koma fram með við þetta frv., sem við höfum að öðru leyti skrifað undir nál. með fyrirvara.

Það er kunnugt, að fiskimálan. hefir með höndum að úthluta leyfum til togaraferða til markaðslandanna. Og það er svo mikill munur á því, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hygg, að hæstv. atvmrh. hafi gefið hér í ræðu, er meðalsala togaranna til Þýzkalands um 1900 sterlingspund og meðalsala til Englands um 1000 sterlingspund. Það mun hafa verið árið 1931, sem það tókst í fyrsta sinn að opna sölumöguleika fyrir ísl. togara í Þýzkalandi, og framan af árunum 1932, 1933 og 1934 úthlutaði þeirra félagsskapur, samtrygging íslenzkra botnvörpunga, þessum ferðum. Síðan fiskimálan. var sett á stofn, hefir hún haft þetta starf með höndum, að úthluta ferðunum, a. m. k. til Þýzkalands, en ég veit ekki, hvort hún úthlutar líka ferðunum til Englands. Ég hefi heyrt nú undanfarna mánuði, að eftir að fiskimálan. tók við, hafi verið allmikil óánægja yfir úthlutun þessara ferða, þannig að talað hefir verið um, að mismunað væri hinum ýmsu togaraeigendum. Borið hefir allmikið á þessari óánægju í haust. Þetta hefir mér borizt til eyrna, en ég hefi hinsvegar ekki haft aðstöðu til að rannsaka það til hlítar. En hinu get ég bætt við, að á meðan samtrygging botnvörpunga, eða skrifstofa hennar, úthlutaði þessum leyfum, varð ég aldrei var við óánægju, og í því efni skipti ákaflega mikið um, þegar fiskimálan. tók við þessu starfi.

Við 1. umr. var borin fram af einum útvegsmanni kvörtun yfir þessu ástandi. Og þegar hér á Alþ. er beinlínis kvartað yfir hlutdrægni af hálfu fiskimálan. í þessari úthlutun, þá virðist mér rétt að taka til athugunar, hvort ekki sé hægt, í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að lögfesta einhverjar reglur fyrir fiskimálan. að fara eftir, eða a. m. k. að Alþ. gefi fiskimálan. vísbendingar um að gæta fyllsta jafnréttis í þessari úthlutun, eftir því sem unnt er. Og eins og ég tók fram áðan, þá hefði brtt. þessu viðvíkjandi verið komin fram, ef við tveir, sem skrifuðum undir nál. með fyrirvara, hefðum báðir verið hér. En annar okkar, hv. 6. þm. Reykv., hefir verið veikur og er það enn, svo að það verður að bíða til 3. umr. að koma fram með brtt. út af þessum kvörtunum um skiptingu Þýzkalandsferðanna.