13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Ég er ásáttur um, að umr. um þær kvartanir, sem kunna að hafa komið fram út af úthlutun fiskimálan. á leyfum til togara til söluferða til Englands og Þýzkalands, bíði til 3. umr., því að þá er hægt að hafa skjöl fyrir sér til þess að mæta þessum kvörtunum.

Það mun verða ákaflega erfitt að setja lögformlegar reglur um þetta. að sjálfsögðu verður að haga sér eftir því, hvað gengur á kvótana á hverjum tíma. Þar að auki ber að taka tillit til þess, hvort skipin fara á síld- eða karfaveiðar eða ekki. Hitt er óhjákvæmilegt, að ríkisvaldið hafi afskipti af þessum málum og refsi fyrir að misnota vísvitandi þau leyfi, sem gefin hafa verið til þessara ferða, með því að taka allt of mikinn farm í skipin eða með því að brjóta á móti þessu skipulagi á annan hátt, eins og gert hefir verið í sambandi við Þýzkalandssöluna. Það er ekki hægt að segja annað en að þær tekjur, sem skipin hafa fengið með þessu móti, hafa verið teknar frá öðrum skipum.