14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Ég hefi leyft mér að koma fram með brtt. við þetta frv. í samræmi við þær umr., sem fram fóru við 2. umr. þessa máls, og hljóðar þannig, að fiskimálan. skuli úthluta þessum útflutningsleyfum á ísfiskmarkaðinn sem allra réttlátast. Ég lýsti því við 2. umr. þessa máls, að ég hefði hug á að koma með þessa brtt., og skal aðeins við þessa umr. drepa á, að eftir skýrslu, sem ég hefi fengið frá samtryggingu íslenzkra botnvörpuskipa, virðist vera talsvert ósamræmi á úthlutun kvóta til togarafélaganna, ef nokkurt tillit á að taka til þess, hvort skipin eru fleiri eða færri. Í sumum tilfellum hafa togarafélög fengið allt að því 100% meiri úthlutun, ef miðað er við skipafjölda, heldur en önnur, og í öðrum tilfellum er það sýnilegt, að úthlutun er að mjög miklum hluta minni til einstakra félaga heldur en rétt væri, ef sömu reglum væri fylgt. Ég skal ekki segja um það, hvaða ástæður kunna að hafa legið fyrir því misrétti gagnvart togarafélögunum um úthlutun útflutningsleyfa, sem augsýnilegt er, að fiskimálan. hefir beitt. En fram hjá því verður ekki komizt, þegar maður kynnir sér skýrslur um þau leyfi, sem úthlutað hefir verið, og sömuleiðis tekur til athugunar það sölumagn, sem úthluta má, og deilir á togaraflotann, að útkoman hefir orðið ákaflega misjöfn. Ég tek hér til dæmis tvö skip frá Patreksfirði og eitt frá Ísafirði, sem ekki er sjáanlegt, að hafi fengið neina úthlutun. Mér er ekki kunnugt um, að frá Ísafirði hafi verið sótt um neinn kvóta, en frá Patreksfirði var farið þess á leit að fá útflutningsleyfi á fiski til Þýzkalands. Ég skal að svo komnu máli ekki fara nánar út í hinar einstöku tölur, sem eru í þessum skýrslum, sem samtryggingin hefir sent mér, en ef tilefni gefst til, mun ég gera það. En af þeirri athugun tel ég fulla þörf á, að n. sé bent á að gæta fyllsta réttlætis um úthlutun útflutningsleyfa til Þýzkalands. Við það er brtt. mín og hv. 6. þm. Reykv. miðuð.

Á þskj. 307 er komin fram brtt. við þá brtt. frá hv. þm. G.-K., sem orðar þetta nákvæmar og ýtarlegar heldur en gert er af okkur hv. 6. þm. Reykv. Það getur verið, að skýrist undir umr., að rétt sé að samþ. það orðalag. Ég skal svo, meðan ekki fara frekari umr. fram, ekki lengja þessa deilu.