14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Ég minnist þess ekki að hafa átt skipti um ferðir til Þýzkalands fyrir togara. Ég hefi ekki sótt um leyfi fyrir nokkurt skip, eins og ekki er von, þar sem ég er ekki útgerðarstjóri fyrir nokkurt skip. En ég held, að hv. 2. þm. Reykv. geti tæplega varið það, að það er sannarlega misrétti í þessari n.; þar með er ég ekki að segja, að það sé hægt að gefa fiskimálanefnd þær reglur, að hún gæti ómögulega misnotað þær. Það verður að taka tillit til svo margs í þessum efnum; hv. 2. þm. Reykv. las hér upp eina 9–10 punkta, sem hann sagði, að væri allt reglur n., og væri vissulega erfitt að setja það allt í l. Þá sagði hv. þm., að fiskimálanefnd bæri ábyrgð á þessum málum. Hvaða ábyrgð ber hún? Ég veit ekki til, að fiskimálanefnd verði krafin til neinnar ábyrgðar; það eru hvergi í l. um þessa n. nein fyrirmæli um það, að hún beri ábyrgð. Hv. þm. var að lesa hér upp úr bréfi, sem ég hafði skrifað n., um að það væri nauðsynlegt að skipta kvótanum niður og fara ekki með of stóra farma. En það kemur ekki í veg fyrir, að n. geti skipt kvótanum réttilega milli skipa. Frv. er um úthlutun kvótans og sektir við því að brjóta fyrirskipanir n., en ég hefi sýnt fram á það, að menn muni yfirleitt hafa yfir framkvæmdum þessarar n. að kvarta. Ég skal ekki að öllu leyti fara inn á deilur þeirra hv. þm. G.-K. og hv. 2. þm. Reykv. um einstök framkvæmdaratriði, sem þeir voru að lýsa; en eins og ég hefi tekið fram, þá hefi ég nú skjallega sönnun fyrir því, að framkvæmd n. á úthlutuninni hafi ekki verið réttlát, sízt af öllu miðað við skipafjölda og stærð skipa. Ég skal viðurkenna, að það sé erfitt fyrir n. að fara eftir einni reglu um þetta.

Hv. 2. þm. Reykv. þarf ekki að gera ráð fyrir, að þetta ástfóstur hans, fiskimálanefnd, sé svo fullkomið í sínum störfum, að enginn megi eða geti bent á neitt, sem betur mætti fara en það gerir nú. Um leið og frv. er afgr., sem veitir aðgang til að láta menn sæta stórsektum fyrir að brjóta á móti reglugerð frá þessari stofnun, án þess að á nokkurn hátt sé hægt að gera stofnunina ábyrga fyrir sínum störfum eða framkvæmdum, þá er ekki mikið ofmælt, þó farið sé fram á, að leyfunum sé úthlutað réttlátlega. Ef hv. 2. þm. Reykv. finnst svo sanngjörn till. of mikið, þá mun hann eflaust stökkva upp á nef sér yfir hverju atriði, sem menn vilja ekki selja honum sjálfdæmi í.