20.04.1937
Efri deild: 48. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. þm. Reykv. drap nokkuð á það, að ekki myndi hafa verið réttlát úthlutun fiskimálanefndar á ísfiskkvótanum. Um þetta var mjög rætt í hv. Nd., eins og hv. dm. er sjálfsagt kunnugt, og skal ég ekki fara að endurtaka neitt af þeim umr. hér. En það er rétt hjá hv. þm., að ekki hefir verið úthlutað til félaganna eftir tölu skipa eingöngu, enda er það varla hægt. — Hv. þm. nefndi ýms skip og taldi sum hafa fengið of lítið og önnur of mikið, og vildi halda því fram, að hér hefði verið um hlutdrægni að ræða.

Ég skal benda honum á eitt félag, sem hann sjálfsagt telur, að fiskimálanefnd beri fyrir brjósti, félagið, sem gerir út togarann Hávarð Ísfirðing. Þessi togari hefir engan Þýzkalandstúr fengið á árinu. Það voru auðvitað ýms sjónarmið, sem n. varð að taka tillit til.

Eins og ég hefi lítillega drepið á áður, get ég sagt það sem mína skoðun, að mér fyndist það eðlilegt, ef hægt væri að tengja einmitt saman Þýzkalands- og Englandstúrana, vegna þess að Englandstúrarnir hafa yfirleitt verið fremur slæmir, en Þýzkalandstúrarnir fremur góðir.

Hv. þm. sagði, að í till. fælist ekkert fyrirlag um að fara eftir till. stj. félags ísl. botnvörpuskipaeigenda. Ég get ekki skilið till. þannig, því að þar segir, að það eigi að „fara sem mest eftir tillögum félagsstjórnarinnar“. Það þarf ekki að leita til félagsstj., af því að félagið á sinn fulltrúa í fiskimálanefnd, og bankarnir, sem hér hafa hagsmuna að gæta, eiga þar líka sína fulltrúa, og mér er ekki kunnugt um, að þessir menn eða fulltrúi félags ísl. botnvörpuskipaeigenda hafi nokkurn tíma gert ágreining um úthlutun leyfanna. Mér þykir rétt að taka þetta fram, og ég sé ekki, að Alþ. geti á nokkurn hátt haft aðstöðu til að setja sanngjarnari reglur um úthlutun leyfanna heldur en fiskimálanefnd, enda liggja fyrir hjá n. skýrslur um ísfisksölur hvers einasta togara.