20.04.1937
Efri deild: 48. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. (Sigurjón A. Ólafsson):

Ég sagði áðan í minni stuttu ræðu, að fiskimálanefnd myndi sennilega alltaf hafa samband við togaraeigendur, þegar um úthlutun leyfa væri að ræða, og þetta hefir ekki verið hrakið. Nú er n. þannig skipuð, að maður verður að ætla, að innan hennar séu það margir fulltrúar togaraeigenda, að ólíklegt sé, að óréttlæti væri beitt af hálfu n., því að eins og l. mæla fyrir, á fiskifélagið þar einn fulltrúa, bankarnir sinn hvorn og togaraeigendur einn; og þetta er meira en helmingur n. Af hálfu bankanna hefir oftast mætt togaraeigandi í n., eftir því sem ég man bezt, svo að ég get ekki séð annað en að það sé óþarfi að óttast það, að hér sé vitandi vits verið að beita rangindum í úthlutun þessara leyfa.

Till. hv. þm. N.-Ísf. fer fram á, að leitað sé álits stj. félags ísl. botnvörpuskipaeigenda. Nú er það vitanlegt, að stj. þessa félagsskapar, sem ekki er til nema á pappírnum, er enginn samnefnari fyrir alla togaraeigendur landsins, því að margir togaraeigendur eru ekki í þessum félagsskap. Það út af fyrir sig finnst mér gera till. óframbærilega, að hér er verið að búa til nýja stofnun, sem raunverulega er ekki fulltrúi allra togaraeigenda. — Það er nú svo um þessi leyfi, að ég er ekki nægilega kunnugur til þess að geta rætt um það, eftir hvaða reglum farið hefir verið; hinsvegar er mér kunnugt um það, að n. hefir viljað, að úthlutun þessara leyfa yrði framkvæmd þannig, að reynt sé að forðast allt það, sem menn með rökum geti talið óréttlæti.

Í Nd. komu fram till., sem stefndu í svipaða átt og þessi till., en þær fengu heldur ekki byr. Mér skilst, að menn telji það réttlátast að reyna að dreifa þessum leyfum milli skipanna nokkuð eftir því, hvaða veiðar hafi verið stundaðar, og það er ekki hægt að neita því, að það sýnist ekki óréttlátt, að þeim sé á einhvern hátt hyglað, sem sérstaklega stunda enska markaðinn og hafa oft og einatt rekið þær veiðar með halla. En þó að ég segi þetta, er ekki þar með sagt, að hér hafi skapazt algild regla, en ég hygg, að eins og n. er skipuð, þá sé hún sér þess fullkomlega meðvitandi, að hér þurfi að setja á reglur, sem skapi það réttlæti í þessum efnum, sem nauðsynlegt er. Ég sé því ekki ástæðu til, að farið sé að leita álits stj. þessa félags, því að eins og ég hefi áður sagt, er hún enginn samnefnari fyrir togaraeigendur hér á landi.