20.04.1937
Efri deild: 48. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

9. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. (Sigurjón A. Ólafsson):

Ræða hv. 1. þm. Reykv. gefur ekki tilefni til mikilla andsvara, en hann gat ekki hrakið það, sem ég sagði, að stjórn félags ísl. botnvörpuskipaeigenda er ekki samnefnari fyrir togaraeigendur, eins og frv. samkv. 1. gr. ætlast til, og ég gæti, ef ég vildi, talið upp allverulegan fjölda útgerðarmanna, sem teljast ekki til þessa félagsskapar, og það er jafnvel stórt félag hér í Reykjavík sem ekki telst til þessa félagsskapar. Hv. þm. vildi leggja mikla áherzlu á, að það hefði ekki verið óánægja með þetta áður, en hann gleymir að geta þess, að þá var þessi þýzki markaður tæplega almennur. Siglingar á Þýzkalandsmarkað hafa aðallega átt sér stað þrjú síðustu ár, og það voru eitt til tvö skip, sem sigldu þangað, svo að það var ekki um mikla úthlutun að ræða á. Hinsvegar hygg ég, að það verði aldrei fært að fyrirbyggja, að óánægja geti átt sér stað, hvernig sem farið er að, því að allir vilja sitja að því bezta, svo að þótt hér yrði sköpuð ný regla til þess að fara eftir, væri óánægjan ekki útilokuð fyrir því.