08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

Frsm. 1. minni hl. (Páll Hermannsson):

Ég tek ekki beinlínis til máls sem frsm. fyrir nefnd, heldur aðeins fyrir nefndarhluta. Um þetta frv. fór svo, að ekki náðist samkomulag um það í landbn. Einn nm., hv. 2. þm. Rang., ætla ég að vilji eindregið láta fella frv., og hinsvegar hefir annar nm., hv. 4. landsk., ekki tekið afstöðu til málsins sem stendur, og í þriðja lagi legg ég til, að þetta frv. verði samþ. Það er svo um þessi mjólkurmál hér, að um þau hefir stundum verið allmikill hávaði og sögð um þau mörg orð. Ég álít, að mörgum mönnum á Alþ. standi nær en mér að flytja langa ræðu um mjólkurmál. Er það bæði af því, að mjólkurmálin snerta mig minna en fjölda manna hér í Reykjavík og nágrenni, og hinsvegar af því, að ég er þessum málum ekki eins kunnugur og fjölmargir aðrir. Ætla ég því ekki að verða stórorður um þetta, heldur aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna ég sem meðlimur landbn. legg til, að þetta lagafrv., sem er bráðabirgðal., verði samþ. Að því liggja tvær ástæður. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, hefir smátt og smátt komið betur í ljós, að mjólkurhreinsunarstöð Mjólkurfélags Reykjavíkur, sem nú mun hafa færzt yfir á hendur félags, sem heitir Mjólkurfélag Kjalarnesþings, hefir ekki getað innt af hendi þessa hreinsun, svo við hafi mátt una. Mér er tjáð, að meir og meir hafi borið á umkvörtunum um slæma vöru frá þessari hreinsunarstöð, og að sérstaklega mikið hafi borið á þessu um eða fyrir mitt síðasta ár. Að það hafi orðið að taka aftur mjólkursendingar, sem búið var að senda til kaupenda, vegna þess hve mjólkin var slæm, og að yfirleitt hafi verið hér almenn óánægja með vöruna. Er þetta talið stafa af því, að vélar mjólkurhreinsunarstöðvarinnar væru ekki fullnægjandi, hvorki til að kæla né hreinsa. Eigendur stöðvarinnar munu hafa haft góð orð um, að úr þessu skyldi bætt, án þess að það bæri nokkurn árangur. Svo hefir líka komið í ljós við rannsóknir, að gerlagróður í mjólkinni reyndist annar og öðruvísi en ætlazt er til um neyzlumjólk, án þess að á því fengjust neinar bætur. Ég hefi hér afrit af bréfum, sem skrifuð eru af Sig. H. Péturssyni, sem ég ætla, að sé gerlafræðingur, sem sýna glögglega, ef því má treysta, sem þar stendur, að útbúnaður hjá þessari stöð hefir ekki verið í því lagi, sem verður að krefjast. Hér segir í bréfi dags. 25. júní, að kælitæki þau, sem hafi átt að koma, hafi ekki fengizt ennþá, svo að kæling mjólkurinnar sé ófullnægjandi. Hann talar einnig um, að viðeigandi prófun á mjólkinni hafi ekki farið fram, og að framleiðendurnir geti sér að skaðlausu sent 3. og 4. flokks vöru til stöðvarinnar án þess að það sé rannsakað. Þetta sýnist vera illt ástand. Sami maður talar um, að af 9 sýnishornum hafi við rannsókn 7 verið tæk, en 2 ekki, en þó hafi stöðin ekkert hafzt að í þessu máli. Mér virðist ég hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um, að meðferð mjólkurinnar í þessari stöð sé svo, að ekki megi við hana una um neyzlumjólk.

Þetta er önnur ástæðan fyrir því, að ég tel breytingu nauðsynlega á þessu máli, og sú breyt. mun ekki verða fáanleg nema með því að taka stöðina úr höndum eigendanna og reka hana undir betri skilyrðum.

Annað atriði, sem mér finnst eiga að ráða nokkru um þetta, er, að um þessar mundir kom í ljós, að ekki allir mjólkureigendur fengu gerilsneydda og hreinsaða sína mjólk. Er mörgum kunnugra um það en mér, hver aðdragandi var að því. Eftir heimild í lögum mun ráðh. hafa ákveðið, hvaða gjald skyldi tekið fyrir hreinsun mjólkurinnar. Var ákveðið eftir tillögum þess manns, sem margir telja, að bezt vit hafi á þeim málum hér á landi, en það er Jónas Kristjánsson, sem stýrir mjólkursamlaginu á Akureyri, að mjólkurhreinsunarstöðin mætti taka 2,2 aura á lítra fyrir hreinsun. Mun orka tvímælis, hve réttlátt það verð er, en einskonar samningar eða samkomulag skilst mér, að hafi verið á milli ráðh. og kannske mjólkursölun. annarsvegar um þetta hámarksverð. Ég vil ekki fullyrða, að gengið hafi verið til samninga um þetta, en ganga má út frá því, að ekkert ósamkomulag hafi verið um það.

Um sama leyti var greidd álitleg fjárhæð frá ríkinu til þessa félags, sem gera má ráð fyrir, að það hafi átt rétt til að fá, en svo einkennilega vildi til, að einmitt á þessu tímabili var upphæðin greidd. Hefir það því gerzt um sama leyti og óánægjan var mest og það fór að verða örðugt fyrir suma menn að fá mjólk sína hreinsaða í stöðinni, og endaði með því, að þeir menn, sem vildu standa fyrir utan þennan félagsskap, fá sína mjólk alls ekki hreinsaða þar.

Hér sé ég, að í bréfi dags. 4. júní, sem mun vera frá Mjólkurfél. Kjalarnesþings, undirritað af 3 mönnum, sem mun vera stj. félagsins, stendur þetta: „Þar sem þér ekki hafið ennþá gerzt meðlimur í félagi okkar, höfum við í dag, samkv. áðurrituðu, ákveðið að neita að veita mjólk yðar móttöku, með því að yður er tilkynnt í bréfi dags. 30. f. m., að Mjólkursamlag Kjalarnesþings hætti að taka mjólk utanfélagsmanna til vinnslu frá og með deginum í dag.“ — Þarna eru skjallegar upplýsingar um, að mjólkurframleiðendum er neitað að fá mjólk sína hreinsaða. Finnst mér það eðlilegt, að til einhverra ráða sé gripið gegn þessu og því, að mjólkin reynist ónothæf vegna þess, að stöðin er í ólagi, og engin tilraun gerð til að endurbæta hana. Þegar hitt bætist við, að viss hluti af mönnum fær ekki hreinsun á sinni mjólk, sé ég ekki annað en að skylda bæri til að bæta úr þessu. Hér er ekki nema um þessa einu stöð að ræða, sem getur hreinsað mjólk, og því var það eitt fyrir hendi að taka hana af eigendunum vegna þarfa almennings og reka hana á þann hátt, sem heppilegastur er, og var það gert með brb.l. Má tala langt mál um þetta atriði mjólkurmálsins, en mér finnst það falla frekar undir starfssvið annara manna en mín. Geri ég ráð fyrir, að í útvarpsumr., sem fram munu fara um mjólkurmálið, verði minnzt á þetta atriði.

Læt ég svo þetta nægja sem rökstuðning fyrir því, að ég legg til, að frv. verði samþ., og geri ráð fyrir, að hinir nm. muni einnig gera grein fyrir sinni afstöðu.