09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki nú í þessari ræðu að svara hv. 10. landsk.; ég skrifaði atriði niður hjá mér úr ræðu hans og mun svara henni seinna. En ég er satt að segja hissa á því, að hæstv. forseti skyldi vera að ómaka sig að leiðrétta þessa ósannsögli hjá hv. 10. landsk., sem hver maður hlaut að sjá, að voru ósannindi, viðvíkjandi mjólkursamlaginu á Akureyri, að mjólkurlögin giltu þar. Það er ekki skylda að gerilsneyða mjólk þar. Þetta er því álíka satt og annað, sem þessi hv. þm. segir um þetta mál.

En ég vil, áður en hv. 2. þm. Rang. talar, gefa nokkrar upplýsingar, sem hann fær þá jafnframt tækifæri til þess að svara. mér þykir betra að gera það nú, því að ég býst ekki við, að hv. þm. tali fyrir kl. 7, og getur hann því haft þetta til hliðsjónar þegar hann svarar næst.

Því hefir verið haldið fram, að mjólkurstöðin sé sérstaklega fullkomin og teikningar af henni hafi verið sendar út o. s. frv. Ég hefi fengið skeyti þessu viðvíkjandi frá Jónasi Kristjánssyni. Hann segir í þessu skeyti, að hann hafi 28.–11.–1936 lagt teikningar af mjólkurstöðinni í Reykjavík fyrir þekkta mejeriarkitekta í Danmörku, og þeir hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að umbygging á stöðinni væri svo dýr, að þeir ráðlegðu að byggja nýja stöð. Ég get afhent hv. 2. þm. Rang. þetta skeyti til þess að sýna honum, hvert er álit þessara þekktu sérfræðinga á þessu sviði.

Svo er annað, sem ég vil vekja sérstaka athygli á og biðja hv. 2. þm. Rang. að svara í sinni væntanlegu ræðu. Það er út af vottorði, sem ég fékk í hendur frá forstjóra mjólkursamsölunnar meðan ég var að flytja mína fyrri ræðu, og las þess vegna ekki upp til enda og gaf ekki þær upplýsingar, sem þar liggja fyrir. Ég vil því lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt sölulistum vorum var mjólkursalan hjá samsölunni í júlímánuði 1936 130491/2 ltr. minni en í sama mánuði árið 1935, en hefði samkv. meðaltalssöluaukningu ársins 1936 átt að vera 13020 ltr. meiri.

Í júnímánuði 1936 var salan 6259 ltr. minni en í sama mánuði 1935, en hefði samkv. meðaltalssöluaukningu ársins átt að vera 12600 ltr. meiri“.

Þarna munar næstum 19000 ltr. Ég vil spyrja þessa hv. þm., sem hér eru til andsvara, hvernig stóð á því, að þetta skyldi koma fyrir? Ég vil í alvöru spyrja þá, hvað hefðu þeir gert í mínum sporum, þegar þeir sáu, að mjólkurmarkaðurinn var að hrynja saman?

Ég vil fá skýr svör við því, hvernig á þessu hefði getað staðið, ef allt hefði verið í lagi. Þetta vildi ég biðja hv. 2. þm. Rang. að athuga um leið og hann svarar næst; en það tókst að koma mjólkursölunni það mikið upp aftur, eftir að stöðin var tekin, að söluaukningin varð stórkostleg frá því, sem var árið 1935, þrátt fyrir mistök á þessum tveimur mánuðum. Hér er um svo alvarlegar upplýsingar að ræða í þessu máli, að það er ómögulegt að ganga fram hjá þeim. (PM: Má ég skjóta inn í? Er það upplýst í þessu sambandi, að mjólkin hafi komið skemmd frá stöðinni?). Ég skal svara strax. Það er upplýst, að mjólkin var ekki prófuð þegar hún kom í stöðina, og það komu kærur yfir því, að hún kæmi skemmd á markaðinn. Það er ástæðan fyrir því, að mjólkurmarkaðurinn var að falla saman. Önnur ástæða er ekki til.