10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Pétur Magnússon:

Ég get ekki hugsað mér, hvernig hæstv. forseti ætlast til, að þetta mál verði rætt án þess að hæstv. forsrh. sé viðstaddur, eins mikið og á milli bar í gær.

Hv. 10. landsk. svaraði ýmsu í ræðu hæstv. forsrh. hér í gær, og skal ég reyna, til þess að tefja ekki þessar umr. að óþörfu, að sneiða framhjá þeim atriðum að mestu leyti, sem hann gerði sérstaklega að umræðuefni. Mun ég halda mig að þeim atriðum, sem snertu ræðu mína hér í gær, og rekja þær aths., sem hann gerði við hana.

Hæstv. ráðh. hóf ræðu sína með því að segja, að hann undraðist, að ég skyldi telja bráðabirgðal. um leigunám Mjólkurstöðvar Kjalarnesþings einsdæmi í íslenzkri löggjöf. Hann ætlaði að hnekkja þessum ummælum mínum með því að vísa til annara bráðabirgðal., sem sett hefðu verið af fyrirrennara hans, um leigunám síldarbræðslustöðvarinnar á Önundarfirði. Vildi hann halda því fram, að þau l. hefðu verið hliðstæð l. um leigunám Mjólkurstöðvar Kjalarnesþings. Ég er undrandi yfir því, að hæstv. ráðh., sem sjálfur hefir verið dómari og mun hafa þurft að beita „analogi“ í dómum, skuli halda því fram, að hér sé um hliðstætt dæmi að ræða. Hann veit sjálfur, hvernig á stóð með leigunám síldarbræðslustöðvarinnar. Í byrjun síldveiðinnar 1934 leit út fyrir, að síldarbræðslustöðin myndi ekki verða rekin, nema ríkið tæki hana í sínar hendur. Gat ekki orðið samkomulag milli ríkisins og eigendanna um rekstur stöðvarinnar. Þannig var ástatt, að þá var sem erfiðast um erlendan gjaldeyri og mikil nauðsyn á að auka atvinnuna. Það mátti því með réttu segja, að almenningsþörf krefðist þess, að þetta stóra atvinnufyrirtæki væri ekki látið ónotað, og full nauðsyn væri á því, að síldarverksmiðjan yrði rekin, og að aflinn, sem hægt væri að fá, með þeim þá einna álitlegasta atvinnurekstri í landinu, rynni til verkamanna og til ríkisins.

Þannig horfði þetta við. En hvernig er því svo varið með hitt leigunámið? Við skulum ganga út frá því fyrst, að hæstv. ráðh. hafi haft rétt fyrir sér í sinni umsögn um þetta mál, að gjaldið, sem krafizt var í mjólkursamlaginu, hafi verið eitthvað fyrir ofan kostnaðarverð. Þá er það þannig, að örfáir menn, um 3–5% af mjólkurframleiðendunum hér í kringum Reykjavík, sem ekki vilja fara inn í allsherjar samtök mjólkurframleiðenda, verða að greiða eitthvað hærra verð, eitthvað fyrir ofan kostnaðarverð. Er þetta sambærilegt? Er hér nokkur almenningsþörf? Almenningur krefst þess vissulega eigi, að þessum mönnum, sem vilja standa utan við samtökin, sé gert auðveldara fyrir með því, að þeir geti fengið hreinsaða mjólkina án þess að greiða framleiðslukostnað. Mér þykir undarlegt, ef hæstv. ráðh. getur fært rök fyrir því, að almenningsþörf hafi krafizt leigunáms af þessum ástæðum.

Ég sný ekki aftur með það, að hér er um stjórnarskrárbrot að ræða. En ég skal geta þess, að það er 62. gr. stjskr., sem ég á við, en ekki 23. gr., sem er um bráðabirgðal. — 62. gr. setur það skilyrði fyrir skyldum einstaklinga og fyrirtækja til þess að láta af hendi eignir sínar, að almenningsþörf krefjist þess. Það er augljóst mál, að þessi forsenda fær ekki staðizt, því hér er ekki um neina almenningsþörf að ræða.

Um hitt atriðið, þá ádeilu, sem mjólkin fékk, ætla ég ekki að tala í þessu sambandi. Ég mun tala um það í öðru sambandi og færa rök fyrir því, að sú ádeila var ekki á rökum byggð.

Ég get ekki tekið neitt af því aftur, sem ég sagði um það, að þessi lagasetning væri einsdæmi, og ég skal bæta því við, að þau rök, sem hæstv. ráðh. flytur fyrir máli sínu, eru að sumu leyti einnig einsdæmi.

Hæstv. ráðh. játaði, að ég hefði skýrt að öllu leyti rétt frá um viðskipti mjólkurstöðvarinnar eða eigenda hennar og ríkisvaldsins til ársloka 1935, en sagði, að eftir það hefði ýmislegt verið rangt í greinargerð minni, og sýndi mér þá velvild að telja, að ég hefði ekki af ásettu ráði farið rangt með, heldur myndu aðrir hafa skýrt mér rangt frá. En þegar hæstv. ráðh. fór að tína til það, sem rangt hefði verið í frásögn minni í gær, þá taldi hann upp atriði, sem ómögulegt var að færa sannanir fyrir, viðtöl, sem farið höfðu fram á milli hans og eins af formönnum mjólkurstöðvarinnar. Þar stendur staðhæfing á móti staðhæfingu, og það eru aðeins þær líkur, sem komið hafa í ljós við síðari viðskipti, sem gætu gefið nokkurar upplýsingar um það, hver hefði rétt fyrir sér í þessum efnum. Og menn verða að trúa því, sem þeim þykir sennilegast.

Þá kom hæstv. ráðh. að aðalefni málsins og talaði fyrst um heimild sína til þess að ákveða hámarksverð hreinsunargjaldsins. Hann sagði, að ég hefði fellt niður, þegar ég las upp úr 7. gr. l. Þetta er misskilningur, eins og hæstv. ráðh. mun hafa áttað sig á. Hann var með Alþt., en þar er þetta breytt, svo að allt, sem ég las upp úr 7. gr., var rétt. En hæstv. ráðh. vildi leggja áherzlu á það og það eitt, að l. heimiluðu ráðh. tvímælalaust að ákveða hámarksverð á hreinsunargjaldið. Það er rétt, að l. heimila ráðh. þetta tvímælalaust, en ekki skilyrðislaust. Þau segja, að gjaldið verði að vera sanngjarnlega ákveðið. En eins og ég benti á í gær, getur enginn haldið því fram, að gjald, sem er fyrir neðan kostnaðarverð, sé sanngjarnt. Ég efast ekki um, að ef hæstv. ráðh. vill athuga þetta, þá mun hann sjá, að hér er takmörkun sett. Hefði hann t. d. ákveðið gjaldið 1 eða 1/2 eyri, þá hefði slík ákvörðun ekki staðizt fyrir dómstólunum, af því að heimild ráðh. er ekki skilyrðislaus. Það, sem hægt er að deila um, er það, hvort gjaldið hafi verið sanngjarnlega ákveðið hjá ráðh. eða ekki.

Það kemur þá fyrst til álita, hver hinn raunverulegi hreinsunarkostnaður hefir verið. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að fyrir honum hefði legið álit Jónasar Kristjánssonar, sem verið hefir ráðunautur stj. í mjólkurmálinu, að hreinsunarkostnaðurinn ætti ekki að fara fram yfir 2,2 aur. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. En hæstv. ráðh. gleymdi mikilsverðu atriði, og það er það, að þegar Jónas Kristjánsson gerði upp fyrir sjálfum sér, hvað kostnaðurinn yrði mikill, var gengið út frá því, að flöskugjaldið, 2 aurar, rynni til stöðvarinnar. Þetta kemur vel heim við reynsluna. Árið 1935 hefir mjólkurstöðin fengið 5 millj. lítra til hreinsunar. Gjaldið var þá 5 aurar á lítra. Tekjuafgangur var um 40 þús. kr., þ. e. a. s. nettóhagnaður sem næst 0,8 aurar á lítra. Þetta er það sama verð og J. K. gerir ráð fyrir, að stöðin geti hreinsað mjólkina fyrir. En þetta munar einum eyri á hvern lítra frá því, sem ráðh. hafði ákveðið, því hann ætlaðist til, að stöðin fengi aðeins 1 eyri í flöskugjald, þannig að heildargjaldið væri 3,2 aurar á lítra. Af þessu leiðir, að rekstrartap hefir orðið um 1 eyrir á lítra. Og það er ekki sanngjarnt, hvað sem hæstv. ráðh. segir, að ákveða gjaldið svo lágt, að stöðin tapi. Hæstv. ráðh. hefir því tvímælalaust farið út fyrir þá heimild, sem honum er veitt í 7. gr. mjólkurlaganna.

Í þessu sambandi talaði hæstv. ráðh. allmikið um það, að þáv. framkvæmdarstjóri Mjólkurfél. Kjalarnesþings, Eyjólfur Jóhannsson, hefði látið í ljós við sig, að stöðin myndi fullsæmd af því að fá 2,2 aura á lítra í hreinsunargjald, enda hefði hann verið fáanlegur til þess að gera samninga þar að lútandi. Hæstv. ráðh. sagði nú, að E. J. hefði heldur kosið þá leið, og hann hefði verið fús til að ganga að því, til þess að fyrirbyggja, að E. J. fengi óvinsældir hjá þeim, sem hann átti að vinna fyrir. Ég vil nú ekki segja, að hæstv. ráðh. segi ósatt, en ég efast um, að honum hafi verið sérstaklega annt um það, að E. J. yrði ekki óvinæll af þessu máli. Í sambandi við ýmislegt, sem fram kom seinna, veit ég ekki, hvort það verður talið sennilegt, að hæstv. ráðh. hafi lagt sig sérstaklega fram til þess að tryggja, að þessu fyrirtæki væri ekki gert rangt til. Má minna á ræðu hv. 10. landsk. Hefir það komið fram hjá bændunum, hverjum augum þeir hafa á þetta litið, og að þeim hefir ekki fundizt sérstaklega mikið til um umhyggju hæstv. ráðh. í þessum málum.

Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, að hann hefði í einkasamtali við E. J. gefið — ekki loforð, en vilyrði fyrir því, að þetta ákvæðisverð myndi verða bætt upp, ef reynslan sýndi, að mjólkurstöðin stæðist ekki við að hreinsa mjólkina fyrir þetta gjald. Þeir voru tveir einir, þegar samtalið fór fram, og þegar hvor segir á sinn veg frá, er ekki gott að fullyrða, hver réttar hefir fyrir sér. Þó er kannske hægt að fá dálitla bendingu um það, hvernig þessum vilyrðum ráðh. hefir verið varið. Af því að þetta þykir skipta nokkru máli, ekki lagalega, en siðferðislega, og það vildi hæstv. ráðh. leggja áherzlu á — þá þótti mér ástæða til þess að fá fyllri upplýsingar í þessu máli en ég hafði fengið í gær. Þá hafði ég engar upplýsingar um rétta samtal. Ég hafði ekki einu sinni heyrt á það minnzt, fyrr en hæstv. ráðh. gat um það. Út af fyrirspurn, sem ég lagði fyrir stj. mjólkursambandsins um þetta atriði, hafa mér borizt tvö bréf, stíluð til Alþingis, og þó að annað bréfið sé nokkuð langt, bréfið frá E. J., þá ætla ég samt, með leyfi forseta, að lesa það upp, til þess að hv. dm. gefist kostur á að heyra, hvernig litið er á þetta af hálfu hins aðiljans. Bréfið er þannig:

„Í umr. um leigunám mjólkurstöðvar Mjólkursamlags Kjalarnesþings í Ed. Alþ. í gær skýrði landbrh. frá viðtali, er fór fram milli mín og hans í einkaherbergi forsrh. í janúarmán. 1936. Þar sem landbrh. skýrir í sumum atriðum alrangt frá samtali okkar, og í öðrum atriðum mjög villandi, leyfi ég mér að senda hinu háa Alþingi skýrslu frá mér um nefnt samtal.

Landbrh. vildi fá samkomulag um það, að Mjólkurfélag Reykjavíkur tæki ekki fyrir gerilsneyðingu mjólkur meira en 2,2 aura pr. lítra. Hann segir, að ég hafi gengið inn á samkomulag um þetta atriði, en svikið það síðar.

Það er eitt rétt í þessu máli, að ég taldi hægt að framkvæma gerilsneyðingu mjólkur fyrir þetta gjald, en gerði kröfu til þess, að ef svo yrði ákveðið, en reynslan sýndi, að gjaldið yrði of lágt, þá yrði hallinn bættur upp af mjólkursamsölunni. En hér er aðeins hálfsögð sagan. Ráðh. fór ennfremur fram á, að hið svokallaða flöskugjald, 2 aurar pr. lítra, sem kaupandinn borgar meira fyrir að fá mjólk sína á flöskum en í lausu máli, gengi til mjólkursamsölunnar, en það hefir áður gengið til mjólkurstöðvarinnar. Hann bauð, að mjólkursamsalan greiddi fyrir brot á flöskum og efni í flöskulok, en flöskugjaldið rynni að öðru leyti til mjólkursamsölunnar. Efni í flöskulok og brot á mjólkurflöskum gerir tæplega 1 eyri, svo að tekjur stöðvarinnar hafa orðið 1 eyri pr. lítra minni en áður vegna þessa ákvæðis, en aðeins um 0,8 au. vegna lækkunar á gerilsneyðingargjaldinu. Þessu ákvæði mótmælti ég og sýndi fram á með rökum, að ekki væri hægt að reka gerilsneyðingarstöðina, ef hún fyrst yrði að lækka gerilsneyðingargjaldið um 0,8 aura pr. lítra, og yrði auk þess svipt meira en 1 eyri pr. lítra í sambandi við flöskugjaldið. Vitnaði ég þá í samtal, er ég hafði átt við Jónas Kristjánsson, mjólkurbústjóra á Akureyri, sem skýrði frá, að það hefði ekki verið hans meining, að flöskugjaldið rynni til mjólkursamsölunnar; hans ummæli hefðu aðeins átt við sjálft gerilsneyðingargjaldið.

Ég lagði ennfremur fyrir ráðh. bréf og símskeyti frá þremur stærstu mjólkurbúum Norðurlanda, Enigheden í Kaupmannahöfn, sem er mjólkurbú rekið af neytendafélagi jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn, Mjölkcentralen í Stokkhólmi og Oslo Melkeforsyning, sem bæði eru rekin af samvinnufélögum mjólkurframleiðenda undir mjólkurskipulagi, grundvölluðu á mjólkurlögum Svíþjóðar og Noregs. Upplýsingar þessar sýndu, að ekkert mjólkurbú hafði rekið gerilsneyðingu og flöskun mjólkur fyrir minna gjald en Mjólkurfél. Rvíkur áður en hámarksverðið var sett. Samkomulag náðist ekki milli mín og ráðherra um þetta mál, en með mér var í samningunum fyrir hönd Mjólkurfélags Reykjavíkur pólitískur flokksbróðir ráðherra, Klemens Jónsson í Árnakoti, sem ég þori óhræddur að leggja mál mitt undir og fá umsögn hans um það, hver fari með rétt mál. Það síðasta, sem ég sagði við landbúnaðarráðherra, er við skildum við nefndar viðræður, var, að ef hann setti hámarksgjald á mjólkina 2,2 aura, en léti mjólkurstöðina halda flöskugjaldinu eftir sem áður, skyldi ég ekki gera neina tilraun til að gera málið óvinsælt, ef hann vildi lofa að sjá um greiðslu frá mjólkursamsölunni, ef taprekstur yrði á árinu, eins og áður segir. Ráðherra gaf engin loforð, en mér virtist frekar ádrátt. Daginn eftir kom svo tilskipun um hámarksgjald fyrir gerilsneyðinguna, þar sem um leið er ákveðið að svipta mjólkurstöðina flöskugjaldinu. Ég og Klemens Jónsson bárum mál þetta undir stjórn Mjólkurfélags Reykjavíkur, sem var sammála um að taka ekki alvarlega ádrátt landbúnaðarráðherra um að greiða væntanlegan halla á rekstri mjólkurstöðvarinnar, en samkomulag var þó um að láta málið liggja niðri, þar eð landbúnaðarráðherra fór út sama dag, og eiga frekar tal við hann, er hann kæmi heim aftur.

Mitt fyrsta verk eftir að landbúnaðarráðherra kom heim úr siglingu sinni, var að fara til hans og tjá honum, að fyrirsjáanlegt væri, eins og ég hefði áður sagt, að ekki væri hægt að reka gerilsneyðinguna fyrir hið tilskipaða gjald, og fór fram á, að hann afnæmi hámarksgjaldið. Svar við þessu fékk ég ekki. Síðar skeði það, að Mjólkurfélag Reykjavíkur seldi Mjólkursamlagi Kjalarnesþings mjólkurstöð sína. Fóru þá 3 af stjórnendum Mjólkursamlags Kjalarnesþings á fund ráðherra og spurðu, hvort hann væri tilbúinn að greiða halla, sem yrði á rekstri mjólkurstöðvarinnar, enda hafði þeim skilizt á Steingrími Steinþórssyni búnaðarmálastjóra, að svo mundi vera. Þessu svaraði ráðherra neitandi og sagði sig ekki reka minni til, að hann hefði gefið ádrátt um neina aðstoð, þó halli yrði á rekstri mjólkurstöðvarinnar. Staðfestist hér grunur minn og stjórnar Mjólkurfélags Reykjavíkur um, að ekki hefði hugur fylgt máli, er ráðherra dróst á að endurgreiða halla, er verða kynni á rekstri mjólkurstöðvarinnar.

Hér fylgir með umsögn hinna 3 stjórnenda Mjólkursamlags Kjalarnesþings út af viðtali þeirra við landbúnaðarráðherra.

Eyjólfur Jóhannsson.“

Eins og sjá má á þessu, segir Eyjólfur Jóhannsson ákveðið og færir að því mikil rök, að hann hafi í raun og veru fengið vilyrði fyrir því, að mjólkurstöðin tæki mjólk utanfélagsmanna til vinnslu fyrir 4,2 aura, 2 aura flösku gjald og 2,2 aura hreinsunargjald, en hæstv. ráðh. hélt því fram í gær, að vilyrði hefði verið gefið fyrir 3,2 aura heildargjaldi. Nú getur hæstv. ráðh. staðið upp og sagt, að þetta sé allt ósannindi, og það, sem hann hafi sagt í gær, sé allt rétt. Það vill svo vel til, að hér er annað plagg, sem ætti að gefa frekari bendingu um, hvor þessara tveggja manna hafi rétt fyrir sér, en það er bréf frá Mjólkursamlagi Kjalarnesþings. Það hljóðar svo:

„10. apríl 1937.

Við undirritaðir stjórnendur í Mjólkursamlagi Kjalarnesþings, sem fórum á fund landbúnaðarráðherra á síðastl. sumri til að spyrja hann fyrir hönd samlagsins, hvort honum væri alvara með að láta mjólkursamsöluna í Reykjavík endurgreiða mjólkursamlaginu halla þann, er verða kynni á rekstri mjólkurstöðvarinnar vegna tilskipunar hans um hámarksgjald fyrir gerilsneyðingu mjólkur í mjólkurstöðinni, fengum það svar hjá ráðherra, að hann kannaðist ekki við að hafa gefið neitt vilyrði fyrir því, að mjólkursamsalan greiddi rekstrarhalla, þó verða kynni á mjólkurstöðinni, af nefndum ástæðum, og aðspurður neitaði hann að láta mjólkursamsöluna taka á sig slíkan rekstrarhalla, þó verða kynni hjá mjólkurstöðinni.

Þetta leyfum við okkur hér með að gefnu tilefni að votta.

Í stjórn Mjólkursamlags Kjalarnesþings.

Einar Ólafsson, Ólafur Bjarnason,

Lorentz Thors.“

Mér þykir næsta undarlegt, ef hæstv. ráðh. vill lýsa þessa þrjá menn vísvitandi lygara að því, sem stendur í þessu vottorði. Þeir eru þrír, sem tala við hann, og það er ótrúlegt, að þessir menn hafi komið sér saman um að gefa falsvottorð í málinu. Ég verð að segja, að það eru yfirgnæfandi líkur fram komnar til þess, að hér sé um misskilning að ræða hjá hæstv. ráðh., svo að maður leggi velviljaðan skilning í þetta.

Hæstv. ráðh. lagði mjög mikið upp úr því, að þó að hann hefði ekki gefið nein loforð, hefði hann gefið vilyrði um þetta, og hann vildi sýnilega leggja áherzlu á, að af hans vörum hefði það verið nóg, og hann gat þess í því sambandi, að það mundi enginn bera sér það, að hann hefði ekki staðið við það, sem hann hefði sagt, hvort sem hann hefði lofað þeim góðu eða illu. Það er dálítið einkennilegt, að hæstv. ráðh. skuli vera að veifa því framan í þingheim, að hann sé að hóta borgurunum illu, þeim mönnum, sem hann á að vinna fyrir, þessi æðsti starfsmaður landsins, sem borgararnir hafa falið umboð sitt; það er hálfeinkennilegt, að hæstv. ráðh. skuli næstum því hæla sér af þessu, en hitt sýnist mér koma greinilega fram í þessu máli af framkomu stjórnar Mjólkursamlags Kjalarnesþings, að þeir hafi litið eitthvað líkum augum á hæstv. forsrh. eins og Guðmundur biskup góði leit á Norðlendinga á sínum tíma. Ég hefi nú dvalið alllengi við þennan þátt málsins; ég gat ekki komizt hjá því, vegna þess að hæstv. ráðh. lagði mjög mikla áherzlu á þetta í ræðu sinni í gær og gerði það að ýmsu leyti að þungamiðju í vörn sinni, sem mér þykir undarlegt. Svo eru ýms atriði, sem ég skal fara fljótt yfir. Hæstv. ráðh. talaði um það, að gjaldið hefði verið fullkomlega nóg, ef starfskröftunum hefði verið vel fyrir komið. Ég hefi sýnt fram á, að raunverulegt kostnaðarverð 1935 hefði verið í kringum 4,2 aura á lítra, og ef unnt væri að lækka gjaldið til muna frá því, þá er það af því, að annaðhvort hafa kringumstæðurnar breytzt að einhverju leyti eða, eins og hann sagði, að starfskröftunum hefir ekki verið nægilega vel fyrir komið. Ég skal ekki fara út í það í sjálfu sér, hvernig starfskröftum hefir verið komið fyrir á þeim tíma, sem Mjólkursamlag Kjalarnesþings rak stöðina, en mig langar til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvað hafi verið gert til þess að bæta úr því. Hvaða sparnaður í mannahaldi hafi t. d. átt sér stað síðan samsalan fór að reka stöðina. Ég hefi verið að afla mér upplýsinga um þetta atriði, og þær upplýsingar, sem ég hefi fengið, sýna, að aðalbreytingin á mannahaldinu sé sú, að það hafi bætzt við framkvæmdarstjóri með 12000 kr. árslaun, og svo að það hafi átt að reka frá starfi í samsölunni þrjá Íslendinga, sem höfðu unnið þar alllengi, og án þess að neitt sérstakt hafi verið sett út á störf þeirra, og í staðinn hafi átt að taka einn til tvo Dani og þriðja manninn íslenzkan, en svo heyri ég sagt, að endirinn á öllu þessu hafi orðið sá, að Danirnir komu að vísu, en að Íslendingarnir séu þar ennþá allir. Ef eitthvað er til í þessu, þá er þetta ákaflega einkennileg sparnaðarráðstöfun. Hæstv. ráðh. sló því föstu, að stöðin bæri sig ákaflega vel með þessu gjaldi, en þá væri líka æskilegt að heyra af hans vorum ástæðuna fyrir því, að mjólkurverðið til framleiðenda hefir þó lækkað til nokkurra muna, að ég ætla, síðan rekstur mjólkurstöðvarinnar var tekinn úr höndum samlagsins. Það sýnist vera dálítið einkennilegt ósamræmi í þessu.

Þá kom hæstv. ráðh. næst að því, sem ég hygg, að sé hin raunverulega ástæða til þess örþrifaráðs, sem hann greip til, þegar hann setti bráðabirgðalögin um leigunámið, og hún var sú, að stjórn mjólkursamlagsins hefði sýnt honum ýmiskonar stirðleika og misboðið honum á margan hátt. Hann talaði um, að þeir hefðu svikið hann; en ég hefi leitt rök að því, að þar er um misskilning að ræða hjá hæstv. ráðh., en það held ég, að flestir hljóti að vera sammála um, að þó að stjórn mjólkurstöðvarinnar kunni að hafa staðið eitthvað uppi í hárinu á hans hágöfgi, þá sé það tæpast nægileg ástæða til að setja bráðabirgðalög um að svipta stjórn samvinnufélags umráðaréttinum yfir tækjum, sem þeim eru nauðsynleg til atvinnurekstrarins. Hæstv. forsrh. verður, eins og aðrir, að venja sig við að vera ekki allt of viðkvæmur, og hann ætti að hafa eins góða æfingu í því eins og margir aðrir, og þó að honum finnist sér misboðið, má hann ekki nota það vald, sem honum er veitt, til þess að hefna sín á þennan hátt fyrir persónulegar mótgerðir. (Forsrh.: Hvaða orð lét ég falla um þetta?). Hæstv. forsrh. talaði með miklum hita um, að framkoma þessara manna og svik við sig hefðu verið þannig, að það hefði enginn maður í hans stöðu gert annað en það sem hann hefði gert. Það eitt er víst a. m. k., að það verður ekki talið, að almenningsþarfir krefjist þess, að hæstv. ráðh. sefi pólitískar tilfinningar með slíkum tiltektum. Þá taldi hæstv. ráðh., að eitt af svikunum við sig, að mér virtist, hefði verið það, að mjólkurstöðin var seld rétt eftir að þessi samtöl fóru fram, sem ég var að ræða um áðan. Mér er óskiljanlegt, hvers vegna hæstv. ráðh. var það á móti skapi. Var það af umhyggju fyrir Mjólkurfélagi Reykjavíkur eða mjólkurframleiðendum? Það getur tæplega verið, því að það voru mjólkurframleiðendur sjálfir, sem stóðu að þessari skiptingu félagsins, svo að ég held, að ef hæstv. ráðh. hefir fallið þetta sérstaklega þungt, hafi legið þarna eitthvað annað á bak við heldur en umhyggja fyrir félagsskapnum eða félagsmönnum. Svo segir hann, að eftir að salan hafi farið fram, hafi verið algerlega neitað um gerilsneyðingu á mjólk. Þetta er algerlega rangt, og það er sannanlega rangt. Það var alltaf fram boðið frá því fyrsta til þess síðasta, að mjólk utanfélagsmanna skyldi verða hreinsuð, gegn því að greitt yrði kostnaðargjald fyrir hreinsunina, en eins og ég gat um í gær, gat stjórn samlagsins virðingar sinnar vegna ekki látið bjóða sér, að utanfélagsmenn fengju aðra og betri aðstöðu en félagsmenn. Það var ekki hægt. En að þessi synjun hefir ekki komið strax eftir að Mjólkursamlag Kjalarnesþings var stofnað, sést bezt á því, að mjólkursamlagið var stofnað 1. apríl, en það var ekki fyrr en í júlí, að framleiðendum var tilkynnt, að ekki yrði lengur hreinsað fyrir þá. Það líða þrír mánuðir, sem þjark stendur um þetta; það er ekki fyrr en mjólkursamlagið sér, að það eru ekki möguleikar á því að fá friðsamlega lausn á málinu, sem það grípur til þess úrræðis að segja við utanfélagsmenn, að þeirra mjólk verði ekki tekin lengur. Það var búið að reyna allar aðrar leiðir. Hæstv. ráðh. staðhæfði, að þessi framkoma mjólkursamlagsins hefði verið „moralskt“ röng. Ég fullyrði, að mjólkursamlagið hafði ekkert úrræði annað en þetta, ef það átti ekki gersamlega að gera sig hlægilegt og láta misbjóða sér. Hæstv. ráðh. talaði um Mjólkursamlag Borgfirðinga í sambandi við synjun Mjólkursamlags Kjalarnesþings; hann sagði, að þar hefði verið ólíku saman að jafna, því að sú mjólkurstöð hefði verið seld nýlega, og við söluna hefðu engin skilyrði verið sett um vinnslu á mjólk fyrir utanfélagsmenn. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hafi sagt þetta af ókunnugleik. Ég get upplýst það, að það, sem selt var Mjólkursamlagi Borgfirðinga, var niðursuðustöð, sem „Mjöll“ átti áður; það var ekki mjólkurhreinsunarstöð að öðru leyti, og við þá sölu voru ekki sett skilyrði, af því að það lá ekki neitt fyrir um slíkt. Hitt liggur í augum uppi, að það var miklu meiri ástæða til þess að neyða Mjólkursamlag Borgfirðinga til að hreinsa mjólk fyrir utanfélagsmenn, því að Mjólkursamlag Borgfirðinga rekur samtímis mjólkurstöð og úthlutunarstarfsemi, en hér er ekki slíku til að dreifa. Þessi samanburður er þess vegna á engan veg hagstæður fyrir hæstv. ráðh.

Ég hefi þá drepið á öll atriði, sem verulegu máli skipta í þessum kafla í ræðu hæstv. ráðh., en þá komum við næst að öðrum kafla, sem í rauninni væri miklu alvarlegri fyrir Mjólkursamlag Kjalarnesþings, ef rétt hefði verið það, sem hæstv. ráðh. sagði um það efni í gær; en það er um ástand stöðvarinnar, hvernig hún hafi verið úr garði gerð, og hvernig sú mjólk hafi verið, sem félagið lét frá sér fara, og það var annað en fagur vitnisburður, sem hæstv. ráðh. gaf félaginu í þessu efni, og ég vil segja, eins og ég síðar mun drepa á, að sumar staðhæfingar hæstv. ráðh. voru þannig, að þær mega heita alveg einsdæmi. Hann talaði fyrst um, hve miklar kvartanir hefðu borizt um slæma mjólk. Ég get vel trúað, að þetta sé rétt. Sannleikurinn er sá, að þetta hefir komið fyrir og kemur fyrir enn þann dag í dag, að mjólk, sem er seld í bæinn, er mjög misjöfn að gæðum, en það út af fyrir sig segir ekkert um það, hvort tæki hreinsunarstöðvarinnar eru í lagi eða ekki. Það er svo, að þessi mjólk, sem er safnað saman á mörgum stöðum, er „samsull“, eins og hún hefir verið kölluð, og stjfl. voru reiðir yfir í fyrra, og það er mjólk, sem er misjöfn að gæðum, mér er sagt, að það komi fyrir víðar en hér á landi, að það sé þekkt fyrirbrigði í öllum löndum, að jafnvel þótt vel sé með mjólkina farið, þá komi það fyrir, að mjólkin sé slæm á bragðið, og mun almennt álitið, ef öruggt er, að ekki sé um óþrifnað að ræða, að þetta stafi af óheppilegri fóðurgjöf, sem hefir svo áhrif á bragð mjólkurinnar. Það er talið, að þetta eigi sér stað hér á landi sérstaklega á vertíðinni, og stafar það sennilega af því, að á sumum stöðum er fóðrað meira með fiskefni og fiskúrgangi en góðu hófi gegnir. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. fær mjólk frá samsölunni, en ef hann fær það, þykir mér undarlegt, ef hann hefir ekki rekið sig á það undanfarna daga, að mjólkin hefir verið mjög misjöfn að gæðum, og stundum fær maður mjólk, sem er lítt drekkandi. Það er vitað, að það þarf ekki að koma slæm mjólk nema frá fáum stöðum til þess að sú mjólk, sem seld er út um bæinn, verði slæm á bragðið. Þessar kvartanir hafa því ekkert sönnunargildi, þegar um ástand mjólkurstöðva er að ræða, en hæstv. ráðh. vildi samt sem áður slá því föstu, að þessi slæma mjólk hefði stafað eingöngu af því, að tæki stöðvarinnar hefðu verið í svo lélegu ástandi, að ekki hefði verið við það unandi, og hann vildi fyrst og fremst kenna því um, að nægileg kælitæki hefði vantað í mjólkurstöðina. Ég hafði upplýst það hér í gær, að löngu áður en mjólkurstöðin var tekin eignarnámi af samlaginu, hafði verið beðið um gjaldeyrisleyfi fyrir þessum vélum, að það hefði staðið alllengi á því, en verið veitt áður en eignarnámið fór fram, og þá þegar hefðu verið gerðar ráðstafanir til þess að fá vélarnar áður en eignarnámið fór fram. Hæstv. ráðh. lýsti yfir því af miklum hita og með svo miklum sannfæringarkrafti, að mér lá við að trúa honum, að þetta væru tilhæfulaus ósannindi, því að gjaldeyrisleyfið hefði verið veitt daginn eftir að beiðnin um það kom til gjaldeyrisnefndar. Mér þótti illt, ef ég hefði farið með rangt mál, og meðan á umr. stóð í gær lét ég spyrjast fyrir um það hjá gjaldeyrisnefnd, hvenær beðið hefði verið um gjaldeyrisleyfið og hvenær það hefði verið veitt. Starfsmaður í skrifstofunni gaf þar upplýsingar, að gjaldeyrisbeiðnin væri dagsett 18. apríl, en stimpluð innkomin í gjaldeyrisnefnd 21. apríl, en gjaldeyrisleyfið hefði verið veitt 12. júní. Hæstv. ráðh. veit, að 12. júní er ekki næsti dagur á eftir 21. apríl, og þess vegna er það rangt, sem hæstv. ráðh. hélt fram í gær, en þar sem ég get hugsað mér, að hann mundi nú segja, að þetta væri ósannað, en ég vildi vera vel undir það búinn að svara því, þá lét ég framkvæmdarstjóra mjólkursamlagsins fara á gjaldeyrisskrifstofuna í morgun til þess að fá skriflegt vottorð frá gjaldeyrisnefnd um þetta. Starfsmaður sá, sem varð fyrir svörum, sagðist ekki treysta sér til að ráðast í þetta áhættufyrirtæki án þess að bera það undir skrifstofustjórann, og það er ef til vill eðlilegt, þó að ég verði að segja, að fyrir nokkrum árum síðan hefði ekki þurft að fara til yfirmanna í skrifstofum til þess að gera jafnsjálfsagðan hlut eins og að gefa hlutaðeigendum sjálfum upplýsingar um, hvenær bréf hefði komið til skrifstofunnar. Svo náðist nokkru seinna í skrifstofustjórann, og hann sagðist helzt ekki þora að gera þetta öðruvísi en að bera það undir formann nefndarinnar. Svo er náð í formanninn og hann beðinn um að gefa þetta vottorð. En hann sagði: „Ég vil ekki beinlínis neita því, en ég get ekki gert það nema bera það undir nefndina í heild sinni. Fundur verður nú einhverntíma í næstu viku, og þá skal ég bera það upp“. Ég gerðist þá svo frekur, að ég talaði við formann nefndarinnar og sagði honum, að um þetta stæðu deilur hér á Alþ. og þess vegna mæltist ég til þess, að hann léti mér þetta vottorð í té, svo að hið sanna gæti komið í ljós. Ég taldi mig eiga heimtingu á því. En ég fékk sama svarið, að þetta skyldi verða lagt fyrir nefndina í næstu viku. Ég segi frá þessu fyrst og fremst til þess að gefa ástæðu fyrir því, að ég er ekki undir það búinn að leggja fram sönnunargögn hvað þetta atriði snertir, og þó öllu fremur til þess að sýna, hvernig ástandið er í þessum efnum hér á landi, þegar forstöðumenn fyrir ríkisstofnunum þora ekki að bera sannleikanum vitni af hræðslu við stjórnarvöldin. Og hamingjan má vita, hvort þessi aumingja starfsmaður líður ekki einhver óþægindi út af þessu. (Forsrh: Ég skal sjá um, að þetta vottorð fáist). Ég þakka ráðh. fyrir það, en ég vona, að hann rengi mig ekki um það, að ég skýri rétt frá þessari viðureign. — En af þessu má sjá, að það er ekki hægt að saka mjólkursamlagið um það, að dráttur yrði á að fá kælivélarnar. Ef hinsvegar leyfið hefði fengizt strax og sótt var um það, hefðu vélarnar komið áður en hitatímarnir byrjuðu.

Þá sagði hæstv. ráðh., að bezta sönnunargagnið fyrir því, hvernig mjólkinni hefði verið skilað, væri það, að í júlí 1936 hefði mjólkursalan minnkað um rúma 13 þús. lítra. Það má nú náttúrlega ekki draga of miklar ályktanir af því, þó mjólkursalan minnki einn og einn mánuð. Fyrst og fremst er þess að gæta, að hagur fólksins í bænum hefir verið þröngur, og peningaleysi almennings kemur fljótt niður á mjólkursölunni. Út af fyrir sig er því ekki hægt að draga miklar ályktanir af þessu. En það er nú samt eitt atriði í þessu máli, sem er dálítið eftirtektarvert og ég er í raun og veru ákaflega ánægður yfir, að hæstv. ráðh. skuli hafa upplýst hér, og það er það, að aðallækkunin á mjólkursölunni kemur fram í júlímánuði, en eins og kunnugt er, þá var það samsalan, sem rak mjólkurstöðina 2/3 hluta júlímánaðar, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, þá vill svo til, að mjólkursalan er þann tíma mánaðarins, sem stöðin er rekin af Mjólkursamlagi Kjalarnesþings, jafnmikil og hún var á sama tíma ársins 1935. En eftir að samsalan tekur við stöðinni minnkar mjólkursalan daglega, þangað til heildarútkoma mánaðarins verður sú, að mjólkursalan hefir minnkað um 13 þús. lítra. Hvernig stendur á þessu? Ekki hefir samsalan líklega verið að gera sér leik að því, eins og hæstv. ráðh. var að gefa í skyn með Mjólkursamlag Kjalarnesþings, að senda heilsuspillandi og skemmda mjólk út um bæinn. Ekki hefir hún viljað vinna að því að leggja sjálfa sig í rústir. Nei, en ætli það geti ekki verið hugsanlegt, að ráðh. hafi með sínum eigin aðgerðum í þessu máli orðið til þess, að minna var keypt af mjólkinni en áður? — Aðdróttanir hæstv. ráðh. um það, að mjólkin hafi verið skemmd af ásettu ráði af starfsmönnum samlagsins, eru svo fyrir neðan allar hellur, að þær eru ekki svaraverðar. Það er fyrst og fremst svo heimskulegt að láta sér detta í hug, að menn, sem eiga afkomu sína undir mjólkurframleiðslu, séu að gera sér leik að því að fá neytendur til þess að hætta að kaupa vöruna með því að skemma hana og eiga þannig á hættu, að varanleg stöðvun verði á mjólkurnotkun. Og í öðru lagi er það svo illgirnislegt, að engu tali tekur, að ætla mönnum, að þeir geri sér leik að því að senda í bæ með 35 þús. íbúum skemmda og hættulega voru. Það er náttúrlega með öllu ósæmilegt af hæstv. ráðh. að bera slíka aðdróttun fram hér á Alþ.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að vél ein í mjólkurstöðinni, pasteurshitunarvél, hefði skilað mjólkinni óunninni, þannig að hún hafi komið úr vélinni eins og hún kom inn í hana, og að vélin hafi verið alveg ónýt. Þetta er rangt hjá hæstv. ráðh., og það ætti hann að vita. Eini fóturinn fyrir þessu er sá, að það urðu mistök stuttan tíma með þessa vél af óaðgætni umsjónarmannsins, en vélin reyndist, þegar að var gætt, vera í góðu standi og af ágætri tegund. Þetta ætti hæstv. ráðh. að vita, þar sem nú er búið að sló því föstu með dómi og ritstjóri flokksblaðs hans og Alþýðublaðsins hafa verið sektaðir fyrir ummæli í þessa átt, sem hæstv. ráðh. bar fram í gær, og þau dæmd dauð og ómerk. Það sýnir, hvað lítið er um varnir hjá hæstv. ráðh., að hann skuli þurfa að grípa til annars eins og þessa.

Hæstv. ráðh. vitnaði þá til umsagnar héraðslæknis og heilbrigðisfulltrúa, og þá fyrst þótti mér kasta tólfunum. Það er nefnilega rétt, að það liggur fyrir umsögn frá þessum mönnum, og hún allt annað en fögur. En það þarf bara að gera dálitla aths. við þetta. Héraðslæknirinn og heilbrigðisfulltrúinn voru í þau 6 ár, sem búið var að reka stöðina, búnir að vera mánaðarlegir gestir þar og aldrei haft við neitt að athuga. En svo er stöðin tekin af Mjólkursamlagi Kjalarnesþings þ. 11. júlí, og skömmu eftir að sú afhending fer fram koma þessir sömu menn, héraðslæknir og heilbrigðisfulltrúi, þangað til eftirlits, og þá kveður við nokkuð annan tón heldur en áður, því þá er kominn þarna svo andstyggilegur óþrifnaður og óforsvaranleg umgengni, að engu tali tekur. Þetta var að vísu ekki svo í allri stöðinni, en þannig stóð á, að um það leyti, sem afhendingin fór fram, var verið að búa til osta þar. Ég kann nú ekki að lýsa því, hvernig farið er að því, en þeir þurfa að liggja einhvern ákveðinn tíma, og passa verður vel upp á þá, því annars myndast rotnun og þeir skemmast. Þegar stöðin var afhent, var þetta á eðlilegu stigi, en þegar hinir nýju ráðamenn taka við, skipta þeir sér ekkert af þessu, heldur láta ostana morkna niður og maðka líklega líka, svo af þessu verður hinn mesti óþrifnaður í stöðinni, og var það þetta, sem heilbrigðisfulltrúi og héraðslæknir fundu að. Ég hefi tilhneigingu til að ætla, að hæstv. ráðh. hafi ekki verið kunnugt um, hvernig þessu var varið, því ég held, að hann hefði ekki minnzt á þetta annars. (Forsrh: Hver hefir sagt hv. þm. þetta svona?). Ég hefi áreiðanlegar upplýsingar um það, að þetta var svona. Óþrifnaðarins gætir sem sagt fyrst eftir að mjólkursamlagið hafði sleppt stöðinni.

Hæstv. ráðh. gerði ákaflega mikið úr því, að bæði hús og vélar hefðu verið í mikilli vanhirðu og margt farið aflaga í rekstri samlagsins. Ég hefi hér í höndum úttekt tveggja manna, sem skoðuðu stöðina og öll áhöld með mestu nákvæmni, og er því ekki að neita, að það er ýmislegt, sem þeir setja út á, en ég býst við, að vandfundið sé það atvinnufyrirtæki, sem ekki má finna sitthvað að, þegar það er skoðað fyrirvaralaust. T. d. var þarna sumstaðar ryðgað kringum rúður og kíttun ábótavant, og eins kölkun lofta og veggja sumstaðar í húsinu o. s. frv. En það er ekki hægt að segja, að þetta sé stórfellt, því eftir að þessi skoðun fór fram, var boðið út í að gera við allt, sem ábótavant þótti, og ég hefi hér í höndum tilboð frá þekktum húsameistara í bænum, þar sem hann býðst til að taka það að sér fyrir kr. 2487,06. Ennfremur hefi ég í höndum tilboð frá vélsmiðju einni hér í bænum, sem býðst til þess að taka að sér viðgerð á vélum fyrir 280 kr. og viðgerð á strokk fyrir 200 kr., þannig að viðgerð vélanna, til þess að þær væru í fullkomnu standi, er metin á 480 kr. samtals. Af þessu mega allir sjá, að það er barnaskapur einn að láta sér detta í hug að ætla sér að réttlæta leigunám stöðvarinnar með því, að hún hafi verið í svo lélegu standi, að ekki hafi verið við það unandi. Það voru vissulega nógir möguleikar fyrir stjórnarvöldin til að neyða stjórn samlagsins til að bæta úr þessu, ef þörf hefði verið á. — Annars er vert að geta þess, að árlegur viðhaldskostnaður stöðvarinnar hefir verið 7 þús. kr., og má því sjá, að þeir ágallar, sem þarna voru taldir vera, eru ekki annað en það, sem alltaf kemur fyrir, að ýmislegt gengur úr sér.

Ég las í gær upp kafla úr umsögn, sem mjólkursamlagið hafði fengið frá mjólkurbúaráðunaut danska ríkisins, sem er verkfræðingur og eins og gefur að skilja nýtur mikils álits í Danmörku, og ég lét þess getið þá, að fyrir hann hefðu verið lagðar allar teikningar stöðvarinnar og þær upplýsingar, sem máli skipta. En þessu svaraði hæstv. ráðh. með því að skýra frá umsögn Jónasar Kristjánssonar, sem hann hafði eftir 2 verkfræðingum, sem hann ráðgaði sig við í Danmörku um ástand mjólkurstöðvarinnar, og komst að þeirri niðurstöðu, að mjólkurstöðin væri í slíku ástandi, að ekki gæti borgað sig að gera við hana, heldur væri réttara að byggja nýja stöð og láta þessa ónotaða. Það er nú a. m. k. frá leikmanns sjónarmiði ákaflega merkilegt, ef það hefði við rök að styðjast, að þessi mjólkurstöð, sem ekki er nema 6 ára gömul, og enginn vefengir, að byggð hafi verið fullkomlega eftir kröfum tímans, sé nú orðin svo ófullkomin, að ekkert sé við hana að gera. Ég verð að játa, að ég veit ekki nein deili á þessum mönnum, en mér þykir ólíklegt annað en að þessi danski ráðunautur sé mikilhæfur maður, sem treysta megi, og að ekki verði hjá því komizt að leggja mikið upp úr orðum hans um þetta atriði. Viðvíkjandi því, hvort það borgaði sig að stækka stöðina eða réttara væri að byggja nýja, talaði hann nokkuð líka í þessari sömu umsögn, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp það, sem hann segir um það atriði: „Að lokum skal ég leyfa mér að geta þess, að ef ég væri spurður ráða um það, hvort betra væri að stækka mjólkurstöð, sem þegar hefir verið reist og sem væri búin öllum nýtízku vélum og tækjum og auk þess væri á hagkvæmum stað til útsendingar á vörum til viðskiptavina, eða byggja alveg nýja mjólkurstöð, þegar stækkunin mundi kosta ca. 100000 kr. og ný stöð 400–500 þús. kr., þá myndi ég telja það embættisvanrækslu af minni hálfu, ef ég réði til hins síðarnefnda.“ — Þetta er nú álit þessa manns, og ég vil ekki að óreyndu ganga inn á, að hans umsögn sé ómerkari heldur en þessara tveggja verkfræðinga, sem hæstv. ráðh. vísaði til í gær.

Ég þykist nú hafa leitt rök að því, að það eru engar sannanir fram komnar fyrir þeim staðhæfingum, sem hæstv. ráðh. bar fram í gær um það, að ástand stöðvarinnar hefði verið óviðunandi. Aðalrökin, sem hann færði fram, voru þau, að kælivélar hefði vantað og að pasteurshitunarvélin hefði verið í ólagi. En ég hefi nú sýnt fram á það, að annað stafaði af því, að stöðinni var varnað þess að ná í vélarnar, og hitt stafaði af misskilningi, því pasteurshreinsunarvélin var í nothæfu standi.

Hæstv. ráðh. sagði ýmislegt um þetta mál almennt, og skal ég ekki fara langt út í það. Hann vildi gefa það í skyn, að framkoma Eyjólfs Jóhannssonar í þessu máli hefði mótazt af því, að hann hefði viljað eyðileggja mjólkurskipulagið allt. Þessi staðhæfing er afareinkennileg, þegar þess er gætt, að það er meira verk Eyjólfs Jóhannssonar en nokkurs annars manns, að mjólkurskipulagið er komið á. Hann var búinn að berjast fyrir þessu mjólkurskipulagi í aðalatriðunum í mörg ár áður en hæstv. ráðh. og aðrir valdamenn fóru að láta það mál til sín taka.

Þá spurði hæstv. ráðh., hvað við mundum hafa gert í hans sporum, ef við hefðum séð, að samsalan var að hrynja. Þar er því til að svara, að ég held, að hæstv. ráðh. hafi hvorki gert samsölunni né mjólkurframleiðendum nokkurn greiða með þessari töku sinni á mjólkurstöðinni. Ég held, að hann hafi heldur bætt á þann eld, sem skapazt hafði um þetta mál, bætt á þá óánægju, sem eðlilega hafði risið vegna þess, hvert óréttlæti hafði verið sýnt á ýmsan hátt í framkvæmd mjólkurlaganna. Og ég held, að ef hæstv. ráðh. hefði viljað mjólkurskipulaginu og framleiðendunum vel, þá hefði hann valið allt aðrar leiðir í þessu máli.