10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. 2. þm. Rang. hefir nú talað hér í hálfan annan tíma um þetta mál, en ég geri ekki ráð fyrir, að fundi verði haldið lengur áfram en til kl. 7, og þess vegna býst ég ekki við, að mér gefist tækifæri til að svara að öllu leyti þessari löngu ræðu á þeim hálfa tíma, sem ég hefi til umráða.

Ég hafði ætlað mér að svara hv. 10. landsk. að nokkru, en ég hefi tapað miðanum, sem ég skrifaði í gær, svo ekkert getur orðið úr því, enda kemur það ekki að neinum verulegum sökum, því flest af því, sem hann sagði um rétta mál, var alveg út í hött. Og það er ekki hægt að neita því, að það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði um þetta mál, snerti jafnhliða þau atriði, sem hv. 10. landsk. minntist á, því hann hefir lagt sig í króka til þess að reyna að sanna, að mjólkurstöðin hafi verið í ágætu lagi, og að eignarnámið hafi ekki verið á rökum byggt.

Ég skal taka það strax fram um það atriði, sem hv. 2. þm. Rang. lagði mikið upp úr, að ég hefði sagt, að innflutningsleyfið hefði verið veitt daginn eftir að um það var beðið, að ég hafði þetta eftir mjólkursölunefndinni. Ég reyndi áðan að ná í innflutningsnefndina, til þess að fá sannanir um það, hvor okkar hefði rétt í þessu máli, en mér hefir ekki tekizt það.

Ég mun lítilsháttar drepa á aðalatriðin í ræðu hv. 2. þm. Rang., að svo miklu leyti sem mér vinnst tími til þann stutta tíma, sem eftir er til fundarloka. En áður en ég sný mér að ræðu hv. þm., er bezt að ég byrji á því að gefa hv. þm. upplýsingar, sem ég var að fá í símanum frá Ingimar Jónssyni.

Hv. 2. þm. Rang. hefir viðurkennt, að í mjólkurstöðinni hafi verið maðkað skyr og úldinn ostur, en hann vildi halda því fram, að það hefði verið nokkru eftir að stöðin var tekin leigunámi, og því sé það ekki þeirra sök, sem höfðu stöðina áður. En nú ber svo til, að stöðin var tekin á laugardegi, en strax mánudaginn eftir var það, að þeir heilbrigðisfulltrúi og héraðslæknir koma þangað eftir beiðni Ingimars til þess að líta á, hvernig var umhorfs á stöðinni hvað þrifnaðinn snerti. Hvernig haldið þið nú, góðir hlustendur, að hafi litið út á stöðinni, þar sem neyzlumjólk ykkar var gerilsneydd? Það voru hvorki meira né minna en 8 tunnur af úldnum osti og möðkuðu skyri geymdar þarna hjá mjólkinni. Þetta eitt ætti að nægja sem svar við allri hinni löngu ræðu hv. 2. þm. Rang. Það eitt, að geyma stórskemmda og eitraða vöru hjá neyzlumjólk fólksins, var út af fyrir sig nóg ástæða til þess að skerast hér í leikinn, eins og gert var. Hinar skemmdu og skaðlegu vörur voru þegar fluttar burtu, og skyrið a. m. k. var notað fyrir áburð uppi í Mosfellssveit.

Ég vænti nú, að hv. þm. sjái, hverskonar heimildarmenn hann hefir að baki sér, þegar hann hugleiðir sannindin um úldna ostinn og maðkaða skyrið. Mér finnst það ekki neitt sérstaklega skemmtilegt hlutverk fyrir einn málflytjanda, að ráðast á landbúnaðarráðh. fyrir það eitt, að forða bæði honum og öðrum neytendum frá að neyta vöru, sem framleidd er við slíkan þrifnað sem hér hefir verið lýst.

Hv. þm. virðist alls ekki ganga inn á það, að um hliðstætt dæmi þessu eignarnámi væri að ræða, þegar fyrrv. dómsmrh., flokksbróðir hv. þm., tók síldarverksmiðju leigunámi. Hann sagði., hv. þm., að þar hefði gegnt allt öðru máli, því að það atvinnufyrirtæki hefði ekki verið notað. Ég tel mig nú hafa fært full rök fyrir því, að almenningsheill krafðist þess, að þessi umrædda mjólkurvinnslustöð væri tekin eignarnámi, þó ekki væri nema vegna sóðaskaparins, sem þar ríkti. Mun ég þó gera því enn betri skil síðar. En áður en ég fer lengra út í það, vil ég spyrja hv. þm., hvort hann hefði í raun og veru athugað, hverskonar fordæmi hafi verið gefið með því að taka eignarnámi atvinnufyrirtæki, sem ekki var rekið. Eru þau kannske ekki mörg atvinnufyrirtækin, sem ekki eru rekin? Og hefir hv. þm. gert sér grein fyrir því, hve margir togarar eru, sem liggja hér við hafnargarðinn, oft meiri hluta árs? Nei, ég býst ekki við, að hv. þm. hafi gert sér þetta ljóst, og þá ekki heldur það, hversu það fordæmi, að taka eignarnámi fyrirtæki af því að það er ekki rekið, er miklu hættulegra en fordæmi það, sem ég hefi gefið með því að taka leigunámi fyrirtæki, sem hafði svikið gefin loforð, brotið gjörða samninga, og var auk þess stórkostlega brotlegt gagnvart öllum kröfum um þrifnað og hreinlæti. Með því að taka síldarbræðslustöðina eignarnámi var því gengið miklu lengra en þó að mjólkurvinnslustöðin væri tekin, því að ef það eitt ætti að vera fullnægjandi ástæða til þess að taka fyrirtaki eignarnámi, að það væri ekki rekið, mætti að sjálfsögðu taka eignarnámi nærri því hvert fyrirtæki landsmanna.

Þá talaði hv. þm. um staðhæfingar þær, sem farið hafa á milli okkar Eyjólfs Jóhannssonar. Ég hefi í eitt skipti sagt, hvað á milli okkar hafi farið, og læt það nægja. Vottorð það, sem hv. þm. las upp, undirritað af 3 mönnum, afsannar ekkert af því, sem ég hefi sagt um viðskipti okkar Eyjólfs.

Hv. þm. vildi halda því fram, að ég hefði ekki lagt tillögur Jónasar Kristjánssonar til grundvallar fyrir tilboðum mínum, að flösku gjaldið ætti allt að ganga til stöðvarinar. Það er rétt, að ég hefi ekki sannanir fyrir þessu hér við hendina, en ég vil bjóða Eyjólfi Jóhannssyni ásamt stjórn mjólkurfélagsins upp í stjórnarráð til þess að sjá öll skjöl snertandi þetta mál, og má þá vera, að þeir sannfærist um, að það er rétt, sem ég hefi sagt.

Mig undrar ekki neitt, þó að hv. 2. þm. Rang. þyki ég ósanngjarn, að láta tvo sérfróða menn endurskoða stöðina og athuga, hvað kosti að gerilsneyða mjólkina, en ákveða þó hreinsunargjaldið 1 eyri lægra en þeir telja, að eigi eða þurfi að vera. Ég skal játa, að væri þetta rétt, þá væri ég ekki sanngjarn, en í þessu atriði sem flestu öðru er hv. þm. sagt rangt frá. Til þess að leiða hv. þm. í allan sannleika um þetta, þá vil ég endurtaka tilboð mitt um að stjórn mjólkurfélagsins ásamt honum komi upp í stjórnarráð, og það strax á morgun, ef þeir vilja, og endurskoði þá reikninga, sem þar eru snertandi þetta atriði. Hitt er rétt, að Eyjólfur Jóhannsson taldi vafasamt, að stöðin gæti borið sig með því að hafa gerilsneyðingargjaldið ekki nema 2,2 aura pr. lítra.

Ég sé ekki ástæðu til að svara því miklu, sem haldið hefir verið fram undir þessum umr., að ég hafi svarað ýmsu með illu í þessu mjólkurmáli. Það er að sjálfsögðu rétt, að það hefir orðið að taka á ýmsu í þessu deilumáli með nokkurri harðneskju, en slíkt er ekkert einsdæmi hér á landi. Ég hefi t. d. lesið það í enskum blöðum, að komið hefir fyrir, að fresta hefir orðið fundum sökum æsinga þegar rætt hefir verið um slík mál sem þessi. Annars er það svo, að þó að beitt sé harðneskju, þá er ekki þar með sagt, að beitt sé ranglæti. Þá spurðist hv. þm. fyrir um það, hvers vegna mjólkurverðið til bændanna hefði lækkað á árinu 1936 frá því, sem það var áður. Ég hélt í sannleika sagt, að hv. þm. myndi fara nærri um ástæðuna, en hún var sú, að mjólkurframleiðslan jókst að miklum mun frá því, sem hún var árið áður, og þess vegna varð að setja í vinnslu meira en áður, en það vita allir, að minna fæst fyrir þá mjólk, sem unnið er úr, en hina, sem seld er til neyzlu.

Þá lagði hv. þm. mikið upp úr því, að forstjóri mjólkurfélagsins hefði boðið að hreinsa mjólkina fyrir kostnaðarverð. Þetta er rétt, forstjórinn bauð þetta, og hann hafði áður lagt drengskap sinn við því, að það væri hið raunverulega kostnaðarverð við gerilsneyðinguna, sem hann tók fyrir hana, en þegar reikningarnir voru gerðir upp, upplýstist það, að hann hafði sagt ósatt. Gróði stöðvarinnar vegna mjólkurhreinsunarinnar fyrir utanfélagsmenn varð óeðlilega mikill. Ég krefst því ekki, að menn trúi oftar manni, sem einu sinni er staðinn að því að segja ósatt.

Þá kem ég að því, sem hv. 2. þm. Rang. kallaði 2. kafla í ræðu minni. Hann viðurkenndi í þessum kafla ræðu sinnar, að aðfinnslurnar út af mjólkurstöðinni væru alvarlegar, ef þær væru sannar, og svo þóttist hann ætla að sýna fram á, að þær væru ekki á rökum reistar. Ég hafði vitað það áður, að þessi hv. þm. var vel hæfur málflytjandi, enda reyndi hann eftir föngum að beita lagni sinni í vörninni fyrir mjólkurstöðina. Hjá góðum málflytjendum er það venja að bera fram öll þau rök, sem hægt er. En þegar veikan málstað er að verja, nota slíkir menn þá aðferð að fara fljótt yfir sögu; reyna að vekja ekki athygli á hinum veiku punktum, og þá aðferð notaði hv. þm. nú.

Ég hafði bent á það í ræðu minni, að mjólkurmarkaðurinn hefði lækkað mjög mikið síðastl. vor frá því sem hann var árið áður, og bað m. a. um skýringar á því, hvers vegna selzt höfðu 6 þús. lítrum minna í júní síðastl. en á sama mánuði árið áður, þrátt fyrir fólksfjölgunina á árinu. Þessu svaraði hv. þm. ekki öðru en því, að það myndi stafa af því, að mjólkin væri misjöfn að gæðum, vegna mismunandi fóðurs, sem gripunum væri gefið. Þetta svar nægir, vona ég, til að sýna hv. hlustendum, hversu mjög hv. þm. er hér á veikum ísi. Tími sá, sem hér er um að ræða, er júní og júlí mán., sá tími ársins, sem gripirnir fá fóður sitt af jörðinni, án nokkurra milliliða. En ég hefði haldið, að móðir náttúra blandaði fóðrið svo hæfilega, að ekki væri hægt að kenna því um hin misjöfnu gæði mjólkurinnar. Þetta er því ekkert svar við fyrirspurn minni, heldur svar út í hött, til þess að leiða athygli frá hinum raunverulegu orsökum.

Þá ætla ég að koma að því atriði, sem hv. 2. þm. Rang. fór svo fljótt yfir í sinni löngu ræðu, en það er ástandið í stöðinni þegar hún var tekin.

Ég skal með leyfi lesa hér bréf eða vottorð frá Sigurði Péturssyni, sem er útlærður gerla- og mjólkurfræðingur, og hefir tekið, að því er ég bezt veit, mjög gott próf í Þýzkalandi í þeim fræðum. Þessi maður athugaði stöðina og rekstur hennar áður en hún var tekin. Bréfið er á þessa leið:

„Eins og ég gat um í bréfi mínu, dags. 25/6 s. l., hefir Mjólkursamlag Kjalarnesþings um lengri tíma ekki látið framkvæma neina flokkun á mjólk þeirri, er það tekur á móti í mjólkurstöð sinni. Dagana 30/6 og 1/7 s. l. var flokkunin framkvæmd, og kom þá í ljós, eftir því sem ég hefi séð á vigtarmiðum stöðvarinnar, að um helmingur framleiðenda fékk mjólk sína í 3. og 4. flokk.

Þann 2. þ. m. rannsakaði ég mjólk frá 9 framleiðendum, og tók sýnishorn um leið og þeir skiluðu mjólkinni í stöðina. Af þessum mjólkursendingum reyndust mér 7 vera takandi, en 2 alls ekki. Ekkert af þessari mjólk hafði þó stöðin endursent, eftir því sem ég fékk að vita í gær.“ Bréfið er dags. 4. júlí, og Sigurður Pétursson segir ennfremur: „Af ofanrituðu er sýnilegt, að í mjólkurstöð M. K. er tekið á móti mjög miklu af mjólk, sem er ónothæf sem neyzlumjólk. Þar af leiðir, að mikill hluti af þeirri mjólk, gerilsneydd og ógerilsneydd, sem mjólkursamsalan tekur á móti hjá M. K., hlýtur að vera 3. og 4. flokks mjólk, enda er geymsluþol mjólkurinnar nú svo lítið, að mikið af þeirri mjólk, sem stöðin afhendir að morgni, er orðið ónothæft að kvöldi sama dags eða jafnvel fyrr“.

Það getur verið, að hv. 2. þm. Rang. þyki þetta ekki nægilegar ástæður, ofan á maðkaða skyrið og myglaða ostinn, til þess að taka stöðina og koma í veg fyrir það, að borgararnir þyrftu að drekka mjólk frá mjólkurstöð, sem rekin var á þennan hátt, svo ég ekki nefni það, sem stöðin hafði brotið af sér á annan hátt og ég nefndi í gær, og sé því ekki ástæðu til að endurtaka, en ég, er ekki viss um, að margir vilji fylgja hv. þm. í því. Það er heldur ekkert launungarmál, eftir að heilbrigðisstjórnin kynntist ástandinu, að því varð ekki afstýrt, að þetta athæfi yrði gert að opinberu máli, nema með því að taka í taumana eins og gert var. En þrátt fyrir þetta allt heldur hv. 2. þm. Rang. því fram, að ekki hafi verið nægileg ástæða til að taka stöðina, og að eitthvað annað hafi verið með stöðina á Flateyri. En ég vil segja það, að ég veit ekki, hvenær almenningsheill er í veði, ef ekki í þessu tilfelli, þegar fyrir liggur vottorð sérfræðings um svo óheyrilegan og háskalegan sóðaskap og hér var um að ræða.

Þá vil ég að lokum minnast á það, sem hv. þm. taldi fullkomnustu ósvífni hjá mér, að ég hefði látið það á mér skilja, að þetta hefði allt verið gert til þess að eyðileggja mjólkurmarkaðinn, og þóttist hann færa rök að því, hve heimskulegt væri að láta sér detta annað eins í hug. Ég sagðist ekki trúa því, að þetta hefði verið tilgangurinn með svikseminni í rekstri stöðvarinnar, heldur ætli ég, að trassaskap hefði verið um að kenna. En ef átt hefði að láta mjólkurskipulagið hrynja, þá var þetta óneitanlega langsamlega sterkasta aðferðin. Þessu þóttist hv. þm. vísa á bug með því að sýna fram á, að ekki gæti verið, að þeim, sem stóðu fyrir þessari stofnun og áttu hana, hefði dottið í hug að fara að eyðileggja hana fyrir sjálfum sér. Almennt álitið líta þessar röksemdir sæmilega út. En hvað á maður að halda, hvað getur maður verið alveg viss um, þegar þessir sömu menn voru búnir fyrir hálfu öðru ári að gera allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að eyðileggja mjólkurmarkaðinn með organiseruðum mjólkurstrækum? Hvernig stóð á því, að þeir, sem notuðu markaðinn, gerðu þetta þá? Hvað gekk þeim þá til að vilja eyðileggja markaðinn? (PM: Þeir ætluðu að bæta hann). Og hvað kemur í ljós, ef gerður er samanburður á áhrifum af háttalagi stöðvarinnar s.l. sumar og strækunum 1935 á mjólkurmarkaðinum. Þrátt fyrir hverja strækuna eftir aðra 1935 tókst þessum mönnum þá ekki að minnka mjólkursöluna í bænum eins mikið og þeim tókst að minnka hana síðastl. sumar, því þá féll salan um tugi þúsunda á mánuði niður fyrir það, sem hún fór í öllum strækunum 1935. Ef þessir menn hafa talið sig hafa leyfi til þess að eyðileggja markaðinn með einu móti, hver munur er þá á því að gera það á annan hátt? Ef til vill hefir það ekki verið svo, — ef til vill hefir þetta stafað af trassaskap, ef til vill af því, að mennirnir, sem þarna réðu, voru óhæfir til að stjórna. En þó sú hafi verið ástæðan, þá höfðu þeir ekki að heldur leyfi til að eyðileggja markaðinn og stofna heilsu bæjarbúa í voða. Og minn réttur var engu minni fyrir það, mín skylda hin sama að taka í taumana áður en skipulagið hrundi í rústir.