13.04.1937
Efri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

Magnús Jónsson:

Ég greiddi atkv. á móti að takmarka umr. um þetta mál, en það var ekki af því, að ég bæri sjálfan mig og minn ræðutíma fyrir brjósti, því að ég ætla að tala stutt, heldur af því, að mér finnst vera um svo sérkennilegt og merkilegt teoretiskt mál að ræða, að ég get ekki talið úr hófi fram, þó að parti af tveimur fundartímum sé varið til að ræða það.

Ég gat ekki verið við fyrri hluta umr. og skal af þeim ástæðum mjög lítið fara út í efnisleg atriði málsins, af því ég veit ekki glögglega, hvað hefir verið um þau sagt. Á hinn bóginn var sá hluti af umr., sem ég heyrði, á þann hátt, að frá flestum eða öllum þeim atriðum, sem hæstv. forsrh. bar fram, var gengið svo, að það væri ekki nema endurtekning, ef ég færi að rifja það upp frekar. Það voru þó eitt eða tvö atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem kannske væri ástæða til að svara, en ég tel víst, að þeir hv. þm., sem hann átti orðastað við, muni svara þeim fyrir sitt leyti, og tel ég því ekki ástæðu til að hlaupa þar í skarðið. Ég vil aðeins segja örfá orð um þá hlið málsins, sem varðar þá athöfn að taka mjólkurstöðina leigunámi og gera það samkv. bráðabirgðalögum, því að mér finnst með þessu atriði stappa nærri broti á tveimur gr. stjónarskrárinnar.

Það er almenn regla, að þegar um það er að ræða, hvort eitthvað sé brot á stjskr., þá er réttur hennar gerður mjög hár, svo að málið er þá heldur látið niður falla en að eiga það á hættu, að stjskr. sé brotin. En ég get nú ekki betur séð, eftir mínu leikmannsviti, en að með þeirri athöfn, sem hér er um að ræða, sé gengið mjög nærri ákvæðum stjskr., og þá fyrst og fremst 62. gr., þar sem svo er ákveðið, að enginn sé skyldur að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefjist, og í öðru lagi 23. gr., þar sem ræðir um heimild ráðh. til að gefa út bráðabirgðalög. Ástæður þær, sem hæstv. ráðh. hefir tilgreint við hans hátign konunginn, þegar hann fær hann til að gefa út þessi bráðabirgðalög, eru tvennar. Þær hafa verið ræddar mjög ýtarlega, og m. a. af síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Rang., mjög vandlega í því, sem hann kallaði síðari kapítula sinnar ræðu, svo að ég tel óþarft að rifja það upp. Ég vil aðeins örstutt minnast á, hvort það sé ekki rétt, að hér hafi verið gengið mjög nærri stjórnarskránni.

Hæstv. ráðh. færir fram tvennar ástæður fyrir þessu; fyrst og fremst, að stöðin hafi brotið þau skilyrði, sem sett voru við löggildingu hennar, að hún hafi átt að gerilsneyða fyrir utanfélagsmenn, en hin ástæðan er sú, að á rekstri stöðvarinnar hafi verið þeir ágallar, að það hafi mátt teljast alþjóðarþörf að koma í veg fyrir, að slíkt héldi áfram. Ef þessar ástæður eru ekki réttar, þá hefir hæstv. ráðh. brostið heimild til að gera þetta, jafnvel þó að hann gæti útvegað sér þá réttu formlegu heimild með þessum bráðabirgðalögum.

Nú er það upplýst í þessu máli, og því hefir ekki, svo að ég viti, verið mótmælt, að stöðin neitaði ekki að gerilsneyða mjólk fyrir utanfélagsmenn. Ég hefi ekki einu sinni heyrt hæstv. ráðh. andmæla því. Hann hefir aðeins sagt, að stöðin hafi sett þau skilyrði, og að framkoma yfirmanna stöðvarinnar hafi verið með þeim hætti, að þessir menn hafi ekki getað eða viljað notfæra sér þá heimild, sem stjórn stöðvarinnar vildi gefa til að taka við mjólkinni. Og þessi dæmalausu ókjör, sem utanfélagsmönnum voru sett, voru þau, að þeir skyldu greiða fyrir gerilsneyðinguna sama gjald og félagsmenn, þ. e. a. s. kostnaðarverð. Ég held því, að hæstv. ráðh. gagnist illa þau rök, að þetta skilyrði hafi verið brotið, því að hann getur ekki ætlazt til, að utanfélagsmenn fái mjólk sína gerilsneydda fyrir lægra gjald en kostnaðarverð, þ. e. a. s. það gjald, sem félagsmenn sjálfir borga. Inn í þetta blönduðust svo ýmis önnur atriði hjá hæstv. ráðh., eins og það, að forstjóri stöðvarinnar hafi á sínum tíma gefið þannig upp, hvað kostaði að gerilsneyða mjólk, að það væri ekki von, að menn tryðu honum. Ég skal ekki blanda mér inn í svona vesalar fjarstæður. Eins og hæstv. ráðh. gæti ekki tryggt, að reikningarnir yfir þessa starfsemi væru nægilega glöggir til að sjá, hvar hinn verulegi gerilsneyðingarkostnaður væri, en enginn getur ætlazt til, að mjólkurstöðin geri þetta fyrir minna en það raunverulega kostar eigendurna. Það er því ekki um neitt að ræða annað en verðið, sem átti að borga fyrir þetta starf. Inn á það er þá þetta mál komið. Ef hæstv. ráðh. hefir þótt þetta ósanngjarnt, að stöðin tæki sama af utanfélagsmönnum, þá er það ekki annað en spursmál um verðið, spursmál um það, hvort hagsmunir örfárra manna; sem af einhverjum ástæðum — kannske til að skaffa hæstv. ráðh. árásarefni á þetta fyrirtæki — hafa haldið sér utan við þennan félagsskap, hafa gerzt það, sem í almennu íslenzku máli er kallað félagsskítir, hvort hagsmunir þessara fáu manna skuli eiga að ráða því, að tekið sé af fjölmennu félagi framleiðenda tæki, sem þeim eru nauðsynleg við þeirra framleiðslu. Hér er vitanlega engin almenningsþörf á ferðinni. Hér er hvorki um almenning að ræða né heldur þörf. Hér er um örfáa menn að ræða og aðeins ósanngirni þeirra, sem neituðu að nota sér aðstoð þessarar stöðvar fyrir það verð, sem öllum hlýtur að koma saman um, að var sanngjarnlega upp sett.

Hitt atriðið, það óstand og ólag, sem átti að hafa verið á stöðinni, það hefir nú verið tekið lið fyrir lið, smátt og stórt og tætt í sundur af hv. 2. þm. Rang. og ef til vill af öðrum hv. þm. líka, hv. 10. landsk., en ræðu hans heyrði ég ekki; en ég þarf ekki að heyra meira en ræðu hv. 2. þm. Rang., svo greinilega gekk hann frá því. Í svarræðu sinni lagði hæstv. ráðh. áherzluna á aðeins eitt atriði, og ég býst við, að ef hv. 2. þm. Rang. kæmi hér við þessa umr., mundi ekki verða erfitt fyrir hann að svara einnig því, en ef hv. þm. kæmi ekki, mundi ég ekki spara mig að bera fram þær ástæður, sem ógilda með öllu þessi orð hæstv. ráðh. og sýna fram á, að það eru lakir heimildarmenn og lítt hlutvandir, sem hann hefir bak við sig í þessu máli og hafa sagt honum þessa sögu um maðkaða skyrið, sem hann hefir nú sagt hér í d. En jafnvel þótt ráð hefði verið rétt, að þarna hefðu staðið nokkur ílát með skemmdu skyri og skemmdum osti, þá hefði það alls ekki verið nóg til að heimila eignarnám samkv. 62. gr. stjskr. Þar stendur, að almenningsþörf verði að krefjast þess. Í því liggur náttúrlega það, að ekki verði bætt úr misfellunum með öðru en eignarnámi. Nú vænti ég, að hæstv. ráðh. vilji gera svo vel að standa upp og sýna fram á, að ómögulegt hafi verið að koma þessum skyrköggum og ostakössum úr húsinu nema með því að taka stöðina eignarnámi eða að ómögulegt hafi verið að hafa eftirlit með, að fyllsta hreinlætis væri gætt í stöðinni.

Ég skal ganga út frá, að það sé rétt, að óþrifnaður hafi verið í stöðinni, en þrátt fyrir það er engin ástæða til leigunáms og engin heimild samkv. þeirri gr. stjskr., sem kveður svo á, að almenningsheill verði að krefjast þess, þ. e. a. s. að ekki verði bætt úr því á annan hátt en með eignarnámi. Ef þetta ólag hefði verið á, þá var hæstv. ráðh. það í lófa lagið að hafa fullt eftirlit með rekstrinum og fá bætt úr öllum misfellum. Það er því sýnilegt, að hér er ekki um neitt að ræða annað en hreina og beina tylliástæðu, og ég sé ekki í raun og veru, að eignarrétturinn, sem ég skal ekki deila um hér almennt nú, en er sterklega verndaður í stjskr., sé orðinn mikill, ef ástæður slíkar sem þessar heimiluðu eignarnám, því að ef alltaf væri heimilt að gera eignarnám, þegar svona ástæður væru fyrir hendi, þá sé ég ekki, að nein eign geti nokkurntíma verið örugg, því að þá gæti ráðh., ef honum byði svo við að horfa, tekið eignarnámi hverja þá eign, sem honum sýndist, og borið fram einhverjar og einhverjar ástæður, sem mættu vera meira og minna ósannar þar að auki, því að alltaf mætti finna einhverjar tylliástæður fyrir slíku eignar- eða leigunámi.

Annars vil ég út af því, sem hv. frsm. n. sagði í upphafi, og hæstv. ráðh. hefir hvað eftir annað talað um þá vondu vöru, sem send var út frá þessari stöð, minna á, að það er dálítið einkennilegt, að konur hér í Reykjavík, sem óánægðar hafa verið yfir mjólkinni og látið í ljós, að hún væri vond, þær voru lögsóttar og dæmdar í sekt fyrir að láta þetta álit sitt í ljós, en hér á þingi leyfa þm. og ráðh. sér að taka upp slík ummæli, áreiðanlega ekki meira rökstudd en þau voru hjá þessum góðu húsmæðrum.

Ég hefi þá sýnt fram á, að hér er ekki um neina almenningsþörf að ræða, og því síður nokkra þörf, sem ekki hefði verið hægt að bæta úr á annan hátt.

Það er sjálfsagt tvímælalaust, að eftir þessum bráðabirgðalögum hefir hæstv. ráðh. fengið hina formlegu heimild. Bráðabirgðalögin eru náttúrlega sett samkv. 23. gr. stjskr. En þá er eftir að athuga, hvort ástæður hæstv. ráðh. til að gefa út bráðabirgðalögin standast eða ekki. Ég hefi í því efni athugað stjórnlagafræði Lárusar H. Bjarnasonar. Hún er að vísu frá 1913, en það ákvæði, sem er hér að lútandi, er enn alveg óbreytt frá því, sem þá var. Og af því ég er leikmaður í lögfræði, þá vil ég bera fyrir mig það mesta autoritet í þessu efni og tilfæra þau orð, sem Lárus H. Bjarnason segir um þetta atriði. Hann segir fyrst, að til þess að gefa út bráðabirgðalög verði að vera brýn nauðsyn og óhjákvæmileg þörf. Síðan segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Það nægir ekki, að æskilegt væri að geta gripið til slíkra laga. Jafnvel nauðsyn nægir ekki; nauðsynin verður að vera „brýn“. Það þarf að vera hætta á ferðum, heill almennings eða eftir atvikum einstaklinga verður að vera í húfi að meira eða minna leyti, svo sem drepsótt, uppreisn o. s. frv. Enn verður hættan að vera svo bráð, eða heimta svo hraðar aðgerðir, að bráðabráðabirgðalög séu einasti vegurinn til að bæta úr.“

Það er gaman að athuga, hvað þessar ástæður, sem hæstv. ráðh. ber hér fram fyrir þessu leigunámi, standast vel við hliðina á skilgreiningu okkar bezta stjórnlagafræðings. — Svo segir hann: „Loks verður þörfin að vera þannig vaxin, að við henni verði ekki gert nema með nýjum lögum. Verði úr hættunni bætt með aðgerðum valdstjórnarinnar, t. d. með konunglegri tilskipun, eru bráðabirgðalögin ekki leyfileg.“

Ég hefi sýnt fram á, að þó að þessar ástæður, sem eru meira og minna ósannar, væru allar sannar, þá væri auðvelt að bæta úr því án þess að eignarnám væri látið fram fara og án þess að bráðabirgðalög væru sett. Sami skilningur og þessa stjórnlagafræðings kemur líka fram í reyndinni. Hann segir 1913, að yfirleitt hafi þessi heimild ekki verið notuð hér á landi. Svo tilgreinir hann örfá dæmi, eitthvað 3 eða 4, upp á, að bráðabirgðalög hafi verið gefin út fram til ársins 1913. Svo koma stríðstímarnir, sem heimta meira og minna bráðabirgðalög, og þó er það munur, að fyrir 1913 stóð þingið stuttan tíma og aðeins annaðhvert ár, svo að þá leið hátt á annað ár á milli þinga, en nú er þing haldið a. m. k. einu sinni á ári, svo að nú líða í hæsta lagi 9 mánuðir milli þinga, og samt þarf stj. nú að hrúga niður bráðabirgðalögum, og má nærri geta, hvort ástæðurnar eru alltaf brýnar. Hér vantar því ennþá eina ástæðuna til þess að þetta eignarnám færi fram.

Lárus H. Bjarnason segir einnig í þessari sömu bók, að það verði alveg að vera á valdi ráðh. að meta þetta, en stj. verði að meta, að viðlagðri ábyrgð gagnvart Alþingi fyrir landsdómi, þau skilyrði, sem fyrir hendi eru. Ég sé því ekki betur en að hér sé mjög skýlaust og greinilegt landsdómsmál.

Þegar svo er litið á, hvaða árangur það er, sem verið er að ná með þessu, þá sést, að það, sem verið er að gera, er ekkert nema það, að vaða með árás inn á einkafyrirtæki, og það einkafyrirtæki, sem er byggt upp á þeim grundvelli, sem maður skyldi halda, að ráðherra Framsfl., sem jafnan kennir sig mjög við samvinnuhreyfinguna, mundi vilja viðurkenna. Þetta er samvinnufyrirtæki, sem er eign margra manna. Það hefir unnið sig upp í það, að vera eitt með meiri fyrirtækjum landsins og samvinnufyrirtæki, sem þar að auki hefir sýnt svona mikla ábyrgðartilfinningu með því að skera þessa framleiðsluvöru bændanna frá þeirri verzlun, sem rekin var í sambandi við mjólkursöluna, aðeins til þess að ekki skyldi geta komið til mála, að framleiðendurnir yrðu fyrir nokkrum hnekki, þó að verzlunarreksturinn biði einhvern hnekki, því að hann er jafnan nokkru áhættusamari en mjólkursala. Og þegar bændur höfðu búið svona vel um hnútana, þá gerist hæstv. ráðh. svo djarfur að gefa út bráðabirgðalög um að taka þessa eign bændanna af þeim, og hæstv. ráðh. hefir aldrei getað tilfært nokkurt dæmi um eignar- eða leigunám hliðstætt þessu. Hann hefir reynt það í einu tilfelli, en þar er vitaskuld ekki um nokkra hliðstæðu að ræða.

Annars má það vel segjast hér, að hin raunverulega ástæða fyrir útgáfu bráðabirgðalaganna er vel kunn. Ef hæstv. forsrh. hefði viljað segja konungi satt, hefði hann sennilega tilgreint ástæðurnar eitthvað á þessa leið: Með því að mér líkar illa við forstjóra Mjólkursamlags Kjalarnesþings, að hann er mér andstæður í pólitík og erfiður á ýmsa lund, og með því að flestir bændur í þessu héraði eru líka pólitískir andstæðingar mínir, sé ég ástæðu til þess að ná mér niðri á þeim. Þess vegna bjóðum vér og skipum o. s. frv. Annað, sem hæstv. ráðh. hefir fram að færa, eru bara tylliástæður, og er það vel farið, að þær tylliástæður hafa nú verið tættar hér í sundur ögn fyrir ögn af nokkrum hv. þm.