13.04.1937
Efri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Pétur Magnússon:

Hæstv. forseti hefir ákveðið að veita mér aðeins 10 mínútna ræðutíma, og get ég því ekki farið út í mörg atriði, og geymi ég það til 3. umr., enda var ekki margt hjá hæstv. forsrh., sem gefur mér tilefni til andsvara.

Hæstv. forsrh. sagði, að ekki þýddi að deila um samtal hans og Eyjólfs Jóhannssonar, sem farið hefði fram undir fjögur augu, og er það auðvitað rétt. En þó eru allar líkur til, að í þessu sambandi gæti einhvers misskilnings hjá honum. Það er vitað, að vinnslukostnaður var 1935 5 aurar á lítra og flöskugjald 5 aurar. Er því ólíklegt, að Eyjólfur Jóhannsson hafi viljað fara niður fyrir þetta verð, sem um hefir verið rætt, þar sem ekki hefir verið gert líklegt, að sparnaður hafi orðið á rekstri stöðvarinnar. Ég held ekki, að hæstv. ráðh. fari hér með vísvitandi ósannindi, en ég held, að hér sé um misskilning að ræða af hans hálfu. Hann hefir ekki gætt þess, hverju það munaði fyrir samsöluna, að flösku gjaldið hækkaði um einn eyri.

Það eru staðhæfingar hans um, að skemmd mjólk hafi verið send út um bæinn. Segir hann það hafa stafað af illri meðferð mjólkur á stöðinni. Hann gefur jafnvel í skyn, að maðkar hafi skriðið niður í mjólkina. Ég mun síðar sýna fram á, að þetta er ekki á rökum reist. En það, hve mjólkin hefir oft þótt bragðvond, getur stafað af því, að mjólk frá fyrri dögum hefir verið seld í húðum. Ég hefi heyrt, að þetta hafi komið fyrir, eftir að hætt var að setja dagsetningu á flöskurnar.

Um mjólkurflokkunina er það að segja, að sú vanræksla, sem þar hefir átt sér stað, stafaði af skorti á tækjum til að framkvæma flokkunina. Höfðu orðið einhver mistök við pöntunina, og komu önnur tæki en ætlazt var til.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri ólíklegt, að mjólkurframleiðendur hefðu af ásettu ráði skemmt mjólkina eða sent hana út í slíku ástandi, að hún væri óhæf til neyzlu, til þess að eyðileggja mjólkurskipulagið. Kvað hann það ekki meira en hitt, að þeir hefðu staðið hér að mjólkurverkföllum. Það mjólkurverkfall, sem hér var framkvæmt, var ekki gert til að eyðileggja skipulagninguna, það veit hæstv. forsrh. vel, heldur til að knýja fram endurbætur á mjólkurl., og það tókst. Var þá ekki hægt að sjá aðra möguleika til að ná þessari tilætlun, og er ekki undarlegt, þó að mjólkurframleiðendur stæðu að þessu verkfalli. Hitt er auðsætt, hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir þá, ef þeir hefðu sent skemmda mjólk á markaðinn. Yrði því að leggja fram öflugri sannanir en hæstv. ráðh. hefir fram að flytja, til að nokkur trúi slíku.

Þá vil ég drepa á það atriði, sem hæstv. forsrh. gerir að höfuðatriði, sóðaskapinn á stöðinni. Ég get svarað því með því að lesa bréf Eyjólfs Jóhannssonar, með leyfi hæstv. forseta:

„12. apríl 1937.

Við umræður í efri deild Alþingis um frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka mjólkurstöð Mjólkursamlags Kjalarnesþings á leigu hefir hæstvirtur landbúnaðarráðherra viljað gera mikið úr óþrifnaði í nefndri mjólkurstöð og talið hann svo víðtækan, að nægur væri til að réttlæta þá ráðstöfun að hafa tekið mjólkurstöð samlagsins leigunámi, þvert á móti vilja stjórnar samlagsins og samlagsmanna. Hann skýrði frá því, að vottorð lægi fyrir frá héraðslækni og heilbrigðisfulltrúa um, að myglaður ostur og maðkað skyr hefði legið á gangi og í herbergjum mjólkurstöðvarinnar, og framhjá þessum sóðaskap hefði orðið að ganga með neyzlumjólk bæjarbúa, og hefði hún af þeim ástæðum verið í yfirvofandi hættu, og bæjarbúar jafnvel átt á hættu að fá skaðskemmda og hættulega neyzluvöru.

Ég tel skyldu mína að gefa nokkru fyllri skýringu á þessu máli, þar sem í fyrsta lagi hæstvirtur landbúnaðarráðherra telur þetta nokkru máli skipta um réttmæti þeirrar ákvörðunar hans um leigunám mjólkurstöðvarinnar, þótt þess sé ekki getið í forsendum bráðabirgðalaganna, auk þess, sem það gæti haft veruleg áhrif á traust kaupenda gagnvart mjólkurstöðinni og þannig haft áhrif á mjólkurneyzlu bæjarbúa.

Svo er húsum hagað í mjólkurstöðinni, að gerilsneyðing og meðferð allrar sölumjólkurinnar fer fram í fyrstu og annari hæð hússins. Á þessum tveimur hæðum eru auk þeirra herbergja, sem notuð eru við sjálfan mjólkuriðnaðinn, rannsóknarstofa, skrifstofur, íbúð fyrir stöðvarstjórann, sem nú mun notuð fyrir annað starfsfólk, auk baðherbergja og snyrtiherbergja fyrir starfsfólk. Í kjallara undir mjólkurstöðinni er skyrgerð, ísrjómagerð, bræðsluostaverksmiðja, skyrgeymsla, skyrafgreiðsla, geymsla á varahlutum, hráefnum og öðru mjólkursölunni tilheyrandi. Þegar komið er inn í kjallarann — en inn í hann er sérstakur inngangur — er fyrst komið inn í geymsluherbergið. Úr geymsluherberginu er gengið inn í osta- og ísrjómaverksmiðjuna og um aðrar dyr inn í skyrgerðina. Vegalengdin úr ostaverksmiðjunni inn í það herbergi í mjólkurverksmiðjunni, sem næst liggur og notað er til sölumjólkurmeðferðar, er 25 metrar; á leiðinni eru 3 gangar og 3 hurðir. Leiðin úr skyrgerðinni er 8 metrum styttri, en þar er líka um 3 ganga að fara og 3 hurðir á milli. Frá efnisgeymslunni eru 2 gangar og 2 hurðir, áður en komið er inn í sjálf mjólkurvinnsluherbergin.

Þessu skýri ég frá til þess að ljóst megi verða, að þó um óþrifnað væri að ræða í kjallaranum, gæti hann ekki haft nokkur áhrif á mjólkina, sem unnin er í gerilsneyðingarstöðinni, sökum þess, að kjallarinn er algerlega einangraður frá mjólkurvinnsluherbergjunum.

Þá kem ég að því, hvort um sóðaskap hafi verið að ræða í kjallaranum eða ekki. Þó að ég hafi ekki komið að stjórn mjólkurstöðvarinnar frá 1. apríl 1936, að Mjólkurfélag Reykjavíkur seldi mjólkurstöðina til Mjólkursamlags Kjalanesþings, og til 4. júlí sama árs, að ég tók að mér framkvæmdastjórn fyrir mjólkursamlagið, er mér þó kunnugt um, að hér er rangt með farið; eða vægast sagt mjög villandi.

Í fyrsta lagi mun það vera rangt, að um nokkurt vottorð sé að ræða frá héraðslækni eða heilbrigðisfulltrúa. Frásögn landbúnaðarráðherra mun vera eftir Ingimar Jónssyni skólastjóra, einum af núverandi stjórnendum stöðvarinnar. — Um skyrið er það að segja, að í geymsluherbergi kjallarans voru nokkrar tunnur af gömlu skyri; var þar verið að gera tilraun um að fullverka súrt skyr. Var tilraun þessi gerð til að vita, hvort á þennan hátt væri hægt að losna við eitthvað af skyri samlagsins, sem mjólkursölunefnd hafði lagt bann við, að selt yrði nýtt í bænum og fyrirskipað, að allt skyldi ganga til bænda út um sveitir, en sjálf mjólkurlögin gera ráð fyrir frjálsri sölu á fullverkuðu súru skyri. Við framleiðslu fullverkaðs súrs skyrs verður skyrið að standa í tilluktum stórum ílátum fleiri mánuði. Loft má ekki komast að skyrinu meðan það er í verkun; annaðhvort eru slegin þétt lok yfir tunnurnar, svo að á þann hátt sé fyrirbyggt, að loft komist að skyrinu, eða að brætt er yfir skyrið með feiti, eins og yfirleitt var gert í gamla daga, en á þann hátt er líka hægt að fyrirbyggja, að loft komist að skyrinu. Skyr þetta var í verkun, þegar ríkisstjórnin yfirtók rekstur mjólkurstöðvarinnar.

Hver sá, er nokkuð þekkir til fullverkunar á súru skyri, veit, að um leið og ílátin eru opnuð kemur mjög sterk súrlykt upp úr ílátunum, mjög ólík þeirri, er fólk á að venjast, sem alltaf kaupir nýtt skyr. Má vera, að farði hafi setzt ofan á ílátin; er það ekki óalgengt við slíka skyrverkun. Það lítur út fyrir, að skyrgerð þessi hafi hneykslað skólastjórann, sennilega fyrir þá sök, að hann hefir ekki vitað, að hér var verið að gera tilraun með framleiðslu á fullverkuðu súru skyri.

Það mun algerlega tilhæfulaus ósannindi, að um maðka hafi verið að ræða í þessu skyri, enda ekki rétt, að neitt slíkt vottorð eða umsögn liggi fyrir.

Viðvíkjandi ostagerðinni er það að segja, að Mjólkurfélag Reykjavíkur keypti fyrir nokkru samskonar vélar og mikið eru notaðar erlendis á síðari árum, til að bræða upp ost, sem hefir gallazt að útliti, rifnað og komizt mygla í sárið, eða á annan hátt orðið óútgengilegur. Mjólkurfélag Reykjavíkur hafði tekið osta frá mjólkurbúum hérlendis, aðallega frá Flóabúinu og Ölfusbúinu, og á þann hátt hjálpað mjólkurbúunum til að bjarga verðmæti frá eyðileggingu, um leið og þetta gaf mjólkurstöðinni aukatekjur. Við bræðsluostagerðina eru allar skemmdir skornar úr ostunum, en það, sem gott er af ostunum, er brætt í þar til gerðum vélum og osturinn látinn í dósir. Kemur þá fram hinn bezti og verðmætasti ostur, sem til er á heimsmarkaðinum. Vitanlega eru allar skemmdir teknar frá og þeim brennt. — Að þessi ostagerð hefir hneykslað skólastjórann, er einnig af þekkingarskorti hans á þessum hlutum. En ef deila þarf á einhvern fyrir að hafa skemmt ostinn, eru það þá önnur mjólkurbú en mjólkurstöðin í Reykjavík, því að hún hefir ekki framleitt neinn ost, en aðeins gerzt sek um að hjálpa öðrum mjólkurbúum með að bjarga nokkru af ostum þeirra frá áframhaldandi skemmdum.

Að endingu vil ég benda á það, sem eitt út af fyrir sig ætti að afsanna allan áburð á hendur Mjólkursamlagi Kjalarnesþings í þessu máli.

Eftirlitsmaður mjólkursamsölunnar, Sigurður Pétursson gerlafræðingur, hafði daglegt eftirlit með öllu, sem gerðist í mjólkurstöðinni; hann gekk daglega um öll herbergi stöðvarinnar, þar sem mjólkin er meðhöndluð, og meðal annars um kjallarann.

Væri það ekki í fyllsta máta vantraust á eftirliti mjólkursölunefndar, ef skýrsla landbúnaðarráðherra um ástand mjólkurstöðvarinnar væri sönn?

Virðingarfyllst

(sign.) Eyjólfur Jóhannsson.

Til efri deildar Alþingis.“

Það liggur þá fyrir í fyrsta lagi, að heilbrigðisfulltrúi hefir ekki gert neina aths. við stöðina, í öðru lagi, að Sigurður Pétursson eftirlitsmaður hefir ekki krafizt endurbóta, og í þriðja lagi, að óþrifnaður, sem kynni að hafa átt sér stað, stafar af því að verið er að gera tilraunir, sem fara fram á öðrum stað en þeim, sem notaður er til geymslu mjólkurinnar. Og í fjórða lagi, að þótt hæstv. ráðh. hefði nokkur rök fyrir sínu máli, þá gat hann bætt úr mistökum öðruvísi en með því að taka stöðina leigunámi og svipta samvinnufélag bænda umráðarétti yfir þessum eignum. Hann hefði getað sett bráðabirgðal. um hreingerningu á mjólkurstöðinni.