17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Pétur Ottesen:

Svo vildi til við 1. umr., að allmikill hraði var á umr., svo að sumir þeirra, sem ætluðu að taka til máls, urðu of seinir. Nú þegar frv. liggur fyrir til 2. umr., vil ég segja, f. h. okkar, sem erum umboðsmenn þeirra bænda, sem harðast urðu fyrir barðinu á því, að þessi mjólkurvinnslustöð var tekin leigunámi, að það er ekki einasta vilji okkar, heldur og skylda að láta koma fram hér í Nd. þær óánægjuraddir, sem risið hafa út af þessu atferli, en þar sem ræður okkar munu verða almenns efnis, en samkv. þingsköpum á aðallega að ræða einstakar gr. frv. við 2. umr., viljum við beygja okkur fyrir þingsköpum og fresta því til 3. umr. að láta koma fram umkvartanir þeirra, sem að okkar dómi hafa verið harðast leiknir í þessu máli. Við fulltrúar þessara manna munum því fresta máli okkar til 3. umr., þegar samkv. þingsköpum er leyfilegt að ræða almennt um málið.