20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Ólafur Thors:

Ræða hæstv. forsrh. hefir ekki gefið mér tilefni til langra andsvara. Ég hugsa, að honum verði hált á því, ef hann ætlar að verja mál sitt með því einu, að einn af þm. Sjálfstfl. — og þá sjálfsagt í ógáti — hafi greitt atkv. með frv. til 3. umr. Hæstv. ráðh. veit, að eins og störfum á þinginu hefir verið háttað undanfarið, þá hafa menn þurft að spyrja hæstv. forseta eða þá menn, sem sitja við hliðina á þeim, til þess að vita, um hvaða mál væri verið að greiða atkv. Ég veit t. d., að gegn einu máli, sem framsóknarmenn bera fram, töluðu þeir kröftuglega hæstv. atvmrh. og hv. þm. Hafnf., en með því greiddu atkv. í dag allir jafnaðarmenn með tölu. Ég hygg því, að þetta sé veik vörn fyrir hæstv. forsrh., ef hann hefir ekkert sterkara fram að bera en þetta.