20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

18. mál, leiga á mjólkurvinnslustöð

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki heldur að svara þessu mörgum orðum. Það er vitaskuld rétt, að þessi hv. þm. er fulltrúi fyrir menn, sem eru á því svæði, sem mjólkurstöðin tekur til, og af þeirri ástæðu ætti hann ekki að láta til sín heyra í málinu, eftir að hann hefir fengið upplýsingar um, hvernig þessi stöð hefir verið rekin. En það var samskonar fyrirkomulag og hjá Sláturfélagi Suðurlands, en hann á einmitt að hafa gát á því, hvernig það félag er rekið.

Að svo mæltu ætla ég ekki að fara út í frekari umr. um málið. Ég vil aðeins vitna til atkvgr. hv. 1. þm. Rang. Hann greiddi atkv. með málinu, eftir að hann var búinn að fá upplýsingar um, hvernig ástandið var, því þá þorði hann ekki að fara austur í Rangárvallasýslu nema að hafa greitt atkv. með málinu.