23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

86. mál, alþýðutryggingar

*Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson):

Mér finnst hún einkennilega áberandi umhyggjan, sem hæstv. ráðh. ber fyrir þessu umtalaða starfsfólki, þegar hann fer að fara bónarveg að okkur andstæðingum málsins, um að skipta um skoðun og leggja ekki á móti frv. Það er eitthvað á bak við þessa framkomu. Það, sem menn verða fyrst og fremst að athuga í þessu sambandi, er það, hver var hinn raunverulegi tilgangur alþýðutryggingalaganna, þegar þau voru sett, a. m. k. hvað þetta umdeilda atriði snertir. Þá þegar var barnakennurum í sjálfsvald sett, hvort þeir tryggðu sig í lífeyrissjóði embættismanna eða í lífeyrissjóði Íslands. Það er þess vegna ljóst, að þegar það frv. var samið, og eins og Alþingi gekk frá þeim lögum, var ætlazt til, að þessu fólki yrði veitt frjálst val um það, hvort það greiddi lífeyrisgjald til lífeyrissjóðs Íslands eða tryggingarsjóðs ríkisins. Hinsvegar bar hæstv. ráðh. fram frv. á síðasta þingi, er varð að lögum, um að fresta endurgreiðslu úr lífeyrissjóði embættismanna eða barnakennara, samkv. 62. gr. alþýðutryggingalaganna. En þessi l. um frestun endurgreiðslunnar gengu svo seint í gildi, að allmargir starfsmanna, sérstaklega stjórnarráðs og pósts, munu á tímabilinu frá því alþýðutryggingalögin gengu í gildi og þangað til þessi lög fengu staðfestingu hafa snúið sér til forstöðumanna þessara sjóða og fengið endurgreitt það, sem þeir höfðu greitt til sjóðanna. En þegar á að meta það, hvort aðrir tilsvarandi starfsmenn eiga að fá samskonar endurgreiðslu, verður að taka tillit til þess, að sumir hafa fengið slíka endurgreiðslu, og því mælir allt með því, að sama regla eigi að gilda fyrir alla starfsmenn hins opinbera. Það getur ekki átt sér stað, að þeir starfsmenn, sem ekki hafa verið nógu fljótir í tíðinni með að fá þessa endurgreiðslu, kannske fyrir það, að þeim hefir ekki verið gert aðvart um það, að von væri á lögum, er sviptu þá þessum rétti, eigi að líða fyrir þessa tilviljun. Það sýnist ekki geta verið meining Alþingis að ætla að orsaka hér mikið misrétti meðal samskonar starfsmanna. En eins og tekið er fram í nál. mínu á þskj. 133, felst einmitt þetta misrétti í frv., og því er rétt að fella það. Samkv. gömlu lögunum áttu þeir embættismenn og starfsmenn ríkisins, sem um er að ræða, að greiða til lífeyrissjóðanna yfir 20 þús. kr. á ári samtals, en samkv. l. um lífeyrissjóð Íslands væri þessi greiðsla 5 til 6 þús. kr. Það sýnist afaróeðlilegt, að þeir, sem ekki hafa meðan það var hægt óskað eftir endurgreiðslu úr gömlu lífeyrissjóðunum, skuli nú eiga að greiða ferfalt gjald við hina, sem fengið hafa endurgreiðslu og komnir eru inn í lífeyrissjóð Íslands, eins og upphaflega var ætlazt til, að allir færu, sbr. 62. gr. alþýðutryggingalaganna. Á það vil ég einnig benda, að sú launaupphæð, sem tillög til lífeyrissjóðs embættismanna byggist á, er í ýmsum tilfellum mjög misjöfn. Hjá þeim, sem taka laun samkv. launalögum, miðast tillögin við þau laun. Þessi laun eru fremur lág, en svo hafa þessir menn auk þess talsverðar aukatekjur fyrir sín störf, sem ekkert tillit er tekið til. Aðrir opinberir starfsmenn hafa haft aftur á móti laun samkv. samningi, hærri föst laun en hinir, en engar aukatekjur. Afleiðingin verður sú, að þeir, sem taka laun eftir launalögum, greiða iðgjöld af lægri upphæð en hinir. Þannig geta tveir menn, sem hafa jöfn heildarlaun, segjum 4800 kr., annar er undir launalögum, hinn tekur laun samkv. samningum, greitt mjög mishátt tillag til lífeyrissjóðs, þar sem annar verður að greiða árlega kr. 300.00 en hinn ekki nema kr. 150.00.

Ég vil benda á það, að í nál. mínu er prentvilla, þar sem fallið hefir niður orðið ekki í byrjun fjórðu málsgr. Þar á að standa „sem ekki taka laun sín“ o. s. frv. Þessu fólki skapar frv. sérstaklega mikið misrétti, eins og áður er sagt, með því að meina því að njóta þeirra réttinda um val, sem 62. gr. alþýðutryggingalaganna átti að gefa þeim.

Ég fæ ekki séð, að það skipti svo miklu máli, þó hæstv. ráðh. lýsi því yfir, að hann muni bera fram nýtt frv. viðvíkjandi þessu. Það er nú liðið allverulega á þetta þing, og er ekki séð, að það frv. fengist afgr., þó það kæmi fram. Og auk þess er ekki séð, að það feli í sér nokkra bót á því misrétti, sem hér á að framkvæma. En ef þetta frv. á að leiðrétta það misrétti, sem af því skapast, að allir fá ekki að velja samkv. 62. gr., ef það á að vera í sama anda og sú lagagr., þá þarf vitanlega ekki að bíða eftir því frv. Þá er vitanlega fyrirhafnarminnst að láta l. um frestun 62. gr. falla úr gildi; þá er takmarkinu náð. Vitanlega er það hlægilegt af hæstv. ráðh. að halda því fram, að það fólk, sem vill fá endurgreiðslu úr lífeyrissjóði embættismanna og barnakennara og kaupir sér tryggingu í lífeyrissjóði Íslands, geti orðið fyrir tapi við breytinguna. Það er ekki hlutverk hæstv. ráðh. í þessu efni að sjá um, að þetta fólk velji rétt, heldur hitt, að það eigi allt kost á þeirri völ, sem lögin nr. 26 frá 1936 ætla því. Þetta voru nú heldur léttvæg rök hjá hæstv. ráðh. Hann þykist vera að spara þessu fólki einhverja vexti. En ég vil í þessu sambandi benda á þau fjögur fskj., sem prentuð eru með nál. mínu á þskj. 133, þar sem svo að segja allt starfsfólk símans í Reykjavík, bæði bæjarsímans og landssímans, fer fram á það, að frv. þetta verði fellt og að starfsfólkið fái að velja svo sem gert er ráð fyrir í 62. gr. Samskonar yfirlýsingar eru þarna frá starfsfólki símans á Akureyri, Siglufirði og Vestmannaeyjum. Og auk þessa, eftir að þskj. 133 var prentað í morgun, hafa borizt 3 skeyti frá starfsfólki símans til viðbótar við hin. Eitt frá Ísafirði, undirritað af sex starfsmönnum, þar sem farið er fram á hið sama, að fólkið hafi frjálst val um tryggingarstofnanirnar samkv. 62. gr. og skorað er á Alþingi að samþ. ekki það frv., sem hér liggur fyrir. Hin tvö skeytin eru frá Borðeyri og Seyðisfirði, og eru þau shlj. þessu skeyti. Það er því alveg ljóst, að starfsfólk símans er andvígt frv. og óskar þess að eiga frítt val um, hvort það kaupir sér tryggingu í lífeyrissjóði embættismanna eða lífeyrissjóði Íslands. Það vill svo einkennilega til, að starfsfólk símans er sá eini hópur, sem þetta frv. nær raunverulega til.

Ég vil svo að síðustu benda á það, hvað hér er verið að fara fram á. Það er ekki annað en það eitt, að látin verði gilda þau ákvæði alþýðutryggingalaganna um valið, sem allir voru sammála um á sínum tíma. Í öðru lagi er farið fram á það, að þessu fólki sé endurgreitt það fé, sem það hefir greitt í lífeyrissjóðinn gamla, þegar hinn var stofnaður. Og gamli sjóðurinn á meira að segja að hirða vextina; fólkið á að fá þetta vaxtalaust. Í þriðja lagi, að þessi regla um endurgreiðsluna gildi jafnt fyrir alla. Það er vitað, að svo og svo stór hópur starfsmanna hins opinbera, bæði í stjórnarráðinu og pósthúsinu, hafa fengið endurgreitt fé sitt. Og hér er ekki farið fram á annað en að þessi sjálfsagða regla gildi jafnt fyrir alla. Ég vil því vona, að hv. þdm. athugi vel, hvað hér liggur á bak við, og felli því þetta frv.