23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

86. mál, alþýðutryggingar

*Jóhann Jósefsson:

Það er eiginlega alveg samboðið öðrum málflutningi hæstv. ráðh. og aðferð í þessu máli, að bera mér það á brýn, að ég hafi notað málþóf um þetta frv., fyrir það, að ég hefi einu sinni talað um málið. Það fer að verða æðivandlifað hér á þingi, þegar maður má eiga það á hættu að vera sakaður um málþóf fyrir að láta skoðanir sínar í ljós með einni ræðu. Ég veit ekki, hvað það kallast hjá hæstv. ráðh., en hjá leikmanni væri það kallaður hroki, en þessi hæstv. ráðh. leyfir sér að tala eins og hann einn eigi málfrelsi hér í hv. d.

Hæstv. ráðh. sagði, að við, sem teldum kröfur þessa fólks réttlátar, værum e. t. v. aðeins að skaða hagsmuni þess, en rök hans fyrir þessu voru ekki svo skýr, að ég skildi þau. Þá var hann í þessu sambandi að tala um, að til stæði af hálfu stj., að borið yrði fram frv. til breyt. á alþýðutryggingalögunum. Ég veit ekki, hvernig þær breyt. líta út, og því er erfitt fyrir mig eða okkur andstæðinga stj. að vita, hver áhrif þær kunna að hafa. Hann sagði þó, að í breyt. þessum væri till. um að fella niður ákvæði 62. gr. um frítt val, þannig, að þeir starfsmenn, sem goldið hafa til lífeyrissjóðs embættismanna, eigi að halda áfram að gjalda í þann sjóð. Hæstv. ráðh. sagðist ekki vita, hvort þingvilji væri fyrir þessari breytingu. En setjum svo, að sá þingvilji næðist, þá skilst mér, að það fólk, sem gerir kröfu um, að frv. á þskj. 105 verði fellt, verði fyrir tvennskonar ranglæti. Nú er það vitað, að síma- og póstfólk og annað lágt launað starfsfólk ríkisins er á engan hátt færara um að greiða há iðgjöld heldur en þeir, sem eiga að greiða til lífeyrissjóðs Íslands. Þess vegna finnst mér, ef breytt yrði l. þannig, að ákvæði 62. gr. um hið frjálsa val yrðu felld úr gildi, þá væri þessu starfsfólki gert rangt samanborið við hina. Mér skilst því, að það ofurkapp, sem hæstv. ráðh. leggur á að lögleiða þennan frest, eigi rót sína að rekja til þess, að hann ætlist til, að þingmeirihlutinn ræni þetta fólk til fullnustu þessum rétti.

En það er líka um annað misrétti að ræða, ef 62. gr. verður felld. Það er vitað, að talsverður hópur starfsmanna ríkisins hefir þegar fengið endurgreiðslu úr lífeyrissjóði embættismanna. Ef þingið tekur þennan rétt af þeim sem enn hafa ekki átt þess kost að nota sér hann, þá skapast með því misrétti milli sambærilegra starfsmanna. Ég sé því ekki, að um annan kost sé að ræða fyrir þá, sem ekki vilja þetta misrétti, en að fella frv., líka vegna þess, að hæstv. ráðh. varaðist vendilega að gefa nokkra yfirlýsingu um það, að sá réttur, sem felst í 62. gr., er fella á niður, verði á einn eða annan veg gefinn aftur, heldur þvert á móti. Hæstv. ráðh. boðaði frv., er rændi þessum rétti, og það eitt er nóg til þess, að ég tel mér skylt að vera móti frv.

Ég vísa svo til föðurhúsanna öllum aðdróttunum um málþóf, en vil benda á, að frá hendi hæstv. ráðh. er rekið á eftir þessu frv. á óþinglegan hátt.