23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

86. mál, alþýðutryggingar

Forseti (JörB):

Menn hafa heyrt ástæður hæstv. atvmrh. fyrir því, hvers vegna hann vill flýta þessu máli. Það er af því, að það þarf að fá afgreiðslu fyrir páskahelgina. Hv. 6. þm. Reykv. hefir vitaskuld rétt til þess að bera fram fyrirspurnir og fá þeim svarað, en nú stendur þannig á, að hæstv. ráðh. er upptekinn. En ég vil vona, að ef hv. þm. hyggst að bera fram brtt. og þær kynnu að verða nokkuð öðruvísi, ef hann gæti fengið skýrslur um einhver atriði hjá hæstv atvmrh., þá auðnist þeim að ná tali saman, þó utan þingfundar sé. Vona ég, að það geti heppnazt, og vantreysti ég hvorugum til, ef góður vilji er til þess að greiða fyrir málinu. Ég vil því mega vona, að hv. dm. lofi málinu til 3. umr.