23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

86. mál, alþýðutryggingar

*Thor Thors:

Ég hefi því miður ekki getað mætt fyrr á þessum fundi, þar sem ég hafði ákveðið að mæta á öðrum fundi kl. 5, en mér er kunnugt um, að hér hafa orðið umr. um það, hver sé afstaða mín til þessa máls. Ég vil þá láta þess getið, að þegar hæstv. atvmrh. kom til mín í gær og spurði mig, hvort ég vildi vera því fylgjandi, að þessu máli yrði hleypt áfram, þá sagði ég já. Þá hafði ég ekki fengið þær upplýsingar, sem síðan hafa komið fram í þessu máli. ég vissi ekkert um það þá, að rökstudd mótmæli gegn þessu frv. hafa komið frá starfsfólki símans, og hefði ég vitað þetta þegar ég talaði við hæstv. ráðh., þá hefði ég tvímælalaust orðið andvígur því a. m. k., að frv. yrði flýtt svo mjög, sem raun hefir á orðið. Annars vil ég segja það, að ég tjáði hæstv. ráðh., að ég mundi skrifa undir nál. með fyrirvara og hafa þannig óbundnar hendur um, hvernig ég brigðist við málinu við 3. umr., eftir að ég hafði heyrt um alla málavöxtu. Nál. frá hv. meiri hl. hefir aldrei komið fram, og enginn fundur var haldinn í n. um þetta mál í gær. Hv. 2. þm. Reykv. hefir í öðru þarfara að standa þessa dagana heldur en að gegna þingskyldu sinni um það að halda nefndarfund, sem ákveðið er. Hann þarf að gefa mannvonzku sinni lausan tauminn og undirbúa sig undir árásina, en gefur sér ekki tíma til að sinna alvarlegum þingmálum. Hefði þetta mál komið fyrir í n., þá hefði verið hægt að athuga þessi mótmæli. En það er rétt, að ég tjáði hæstv. atvmrh., að ég mundi vera því samþykkur, að málið færi til 2. umr., en ég sagði honum hinsvegar, að ég hefði fyrirvara um það.