23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

86. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson):

Er ekki heimilt að fara fram á, að atkvgr. bíði til morguns, þar sem vitað er, að menn úr öllum flokkum eru fjarstaddir? Það má segja sósíalistunum til heiðurs, sem standa sem einn maður utan um sinn flokksforingja, hv. 2. þm. Reykv., að það séu hæg heimatökin með að ná í þá, því að þeir sitja í herbergi hér uppi og hafa setið þar í dag, og enginn sósíalisti verið við umr. hér í dag; þeir hafa skotizt hingað inn öðru hverju, rétt rekið inn nefið, en horfið jafnharðan út aftur, svo að hér hafa ekki setið aðrir stjórnarsinnar en einn eða tveir framsóknarmenn, og hæstv. forseti ætti manna bezt að skilja, að það er þreytandi að verða að tala um mál, sem væntanlega er ekki ákveðið flokksmál, eins og þetta er, þannig að þau rök, sem fram koma, gætu ef til vill sannfært einhverja. Það er dálítið þreytandi að verða að þola það, að þessir hv. þm., sem eiga þó skyldu sinnar vegna að greiða atkv. eftir sannfæringu sinni, skuli ekki lofa manni að tala til þessarar sannfæringar, sem sjaldan virðist gera vart við sig. Það er ekki nema sanngjarnt, að það sé tekið tillit til þess, að þessir hv. þm., sérstaklega sósíalistar, hafa ekki komið í þessa hv. deild í dag fyrr en nú, og þeir verði því a. m. k. látnir bíða hér þangað til búið er að safna saman andstæðingum frv. Ég leyfi mér þess vegna að mælast til þess, að atkvgr. verði frestað.