25.02.1937
Efri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

12. mál, skipsstjóraréttindi til handa Pétri Sigurðssyni

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ríkisstj. hefir gert ráð fyrir, að þegar lokið væri landmælingum, þannig að fella mætti niður þau fjárframlög, sem í því skyni hafa verið veitt, þá væri snúið sér að því að taka upp reglubundið áframhaldandi starf við sjómælingar kringum landið, enda er á því hin mesta nauðsyn. Sá maður, sem mest hefir unnið að þessum málum og bezta þekkingu hefir á þeim hér á landi, er Friðrik Ólafsson skipherra. En það þykir ekki nægilegt að hafa ráð á aðeins þessum eina manni til þess að vinna þetta starf, þegar þar að kemur. Því taldi ríkisstj. nauðsyn á að tryggja sér hr. Pétur Sigurðsson, sem hér ræðir um í frv., sem fyrir liggur. Hann hefir lokið prófi við sjóliðsforingjaskólann í Kaupmannahöfn með ágætri 1. einkunn. Hefir hann beztu umsögn frá sínum kennurum og yfirmönnum og virðist hinn álitlegasti maður. Til þess að hann geti rækt þessi störf og önnur fleiri, sem hugsanlegt er, að honum yrði trúað fyrir í sambandi við þetta starf, eða laust við það, þá verður að telja nauðsynlegt, að hann hafi skipstjóraréttindi hér heima. Þess vegna fer ríkisstj. fram á, að henni verði veitt heimild til að veita hr. Pétri Sigurðssyni réttindi til þess að hafa á hendi skipstjórn á íslenzkum skipum. Þetta mun hafa verið gert áður, að með l. hafi verið heimilað að láta erlend próf í þessari grein jafngilda íslenzku.

Vil ég vænta þess, að hv. d, fallist á ákvæði þessa frv., og legg til, að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og allshn.