30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

86. mál, alþýðutryggingar

*Sigurður Kristjánsson:

Það er orðið svo langt síðan þetta mál var til umr. síðast, að það er eiginlega slitið úr samhengi, sem ég ætlaði að segja, og það er ekki ástæða til að bæta miklu við það, en eins og hv. þdm. er kunnugt, er komin fram brtt. við frv., sem rétt er að athuga; að sönnu hefi ég áður lýst yfir því í þessum umr., að ég teldi langbezt að fella þetta frv., en ef það tækist ekki, þá er mikil bót í því að samþ. þessa till. Þessi till. á þskj. 136 fer fram á að undanskilja ákvæðum frv. það fólk, sem er starfandi við póst og síma. Það er ekki hægt að neita því, að þetta fólk hefir nokkra sérstöðu, í fyrsta lagi af því, sem raunar hefir áður verið fram tekið af mér og fleirum, að þessi trygging er svo dýr, að þessu fólki er varla fært að kaupa hana; í öðru lagi sökum þess, að margt af þessu fólki hefir komizt undir ákvæði laganna rétt áður en lögin um alþýðutryggingar gengu í gildi. Ég held, að fólki hér á bæjarsímanum hafi verið gert að skyldu á árinu 1935 — og þau ákvæði gengu í gildi 1. júlí þ. á. — að tryggja sig samkv. lögum um lífeyrissjóð embættismanna. Þetta starfsfólk vissi þá, að til stóð að setja lög um almennar alþýðutryggingar, og það áleit sér ofvaxið að tryggja sig samkv. lögum um lífeyrissjóð embættismanna og fór fram á, að ákvörðuninni yrði frestað, og það fékk frest frá 1. júlí til áramóta 1935–'36, og eitthvað þremur mánuðum áður en lögin gengu í gildi um alþýðutryggingar kom þetta fólk, sem ég ætla, að sé þó nokkuð margt, undir tryggingarskyldu í lífeyrissjóði embættismanna. En þegar þau lög síðan voru afgr., var í þeim ákvæði um að heimila þeim sýslunarmönnum, sem það vildu, að velja um tryggingu, og það er nú eins og gerist og gengur, að fólk fylgist ekki alltaf algerlega með, þótt verið sé að gera breyt. á lögum; þær verða stundum nokkuð snögglega, og svo er um þau lög, sem nú á að framlengja, og þetta fólk fékk þess vegna ekki tækifæri til þess að vita um, að verið var að loka þessari leið, fyrr en það var um seinan. Ég ætla nú ekki að endurtaka hér það mikla misrétti, sem þetta fólk verður ósjálfrátt fyrir, vegna þess hvernig þessu er fyrir komið; ég skýrði frá því við fyrri hl. þessara umr., en ég ætla að geta þess, sem mér er kunnugt um, að vegna þeirra ákvæða tryggingarlaganna, að fólk þetta mætti velja um, hvort það heldur vildi halda áfram að tryggja sig í lífeyrissjóði embættismanna eða tryggja sig samkv. alþýðutryggingalögunum og taka þá út eign sína í lífeyrissjóði embættismanna, þá gerðu ýmsir af þessum mönnum beinlínis ráðstafanir með tilliti til þess, að þeir fengju þetta fé endurgreitt. Og nú er það t. d. vitað um kennarana, að þeir hafa mikil umráð yfir sínum sjóði og njóta þar lána til þess að koma sér upp íbúðarhúsum, en það er einmitt það, sem a. m. k. fjölskyldumönnum liggur mest á og er jafnframt erfiðast. Og mér er kunnugt um, að þegar þarna var opnuð leið til þess, að síma- og póstfólk og nokkrir fleiri fengju endurgreiðslu úr lífeyrissjóðnum og leyfi til að tryggja sig annarsstaðar, þá gerðu ýmsir af þessum mönnum ráðstafanir til þess að koma sér upp íbúðarhúsum og höfðu beinlínis fengið lán upp á þessa litlu greiðslu. Ég segi þetta ekki fyrir það, að þetta sé almennt, heldur til að sýna fram á, að þegar löggjöfin er að hringla með kjör manna fram og aftur, alveg tilfinningalaus fyrir því, hvernig það kemur niður á mönnum, þá getur það skapað svo mikil vandræði hjá ýmsum mönnum, að það er alls ekki við það unandi, og það er varla forsvaranlegt að leika sér að fátæku fólki eins og köttur að mús, vera ýmist að gefa von um, að mönnum opnist einhver leið til þess að koma upp húsi, og loka henni síðan aftur, þegar menn eru búnir að taka að sér skuldbindingar, sem þeim er engin leið að standa við, þegar búið er að loka þessari leið. Á þessu stigi málsins hygg ég, að ekki þýði að koma fram með spurningar, sem ég ætlaði að bera fram um daginn, en það var vissulega skylt og nauðsynlegt, að fyrr í þessum umr. hefði málið verið skýrt betur frá hendi hæstv. stj., t. d. að hér hefði legið fyrir skýrsla um það, hvað þessi sjóður er stór. Mér er sagt, að hann mundi vera nálægt 2 millj. króna. Einnig væri nauðsynlegt að fá upplýsingar um, hvar sjóðurinn er geymdur, hvað mikið af honum er fast og til hvað langs tíma, og ennfremur, hvort ekki væri hægt að gera einhverja athugun á því, hvað líklegt er, að margt af fólki með mikið „kapital“ muni kjósa að ganga úr þessum sjóði og yfir í hinn almenna alþýðutryggingasjóð. Þetta eru upplýsingar, sem að sjálfsögðu eru nauðsynlegar fyrir menn til þess að geta tekið skynsamlega ákvörðun um þetta mál, en það er alveg forsómað að gefa þær, og lítur út fyrir, að enda þótt málið sé búið að vera nokkuð lengi á döfinni, þá verði nokkurt flaustursverk á afgreiðslunni. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með þessari brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 136, en hinsvegar held ég við það, að ég álít réttast að fella frv.