22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

56. mál, útflutningur á kjöti

*Sigurður Kristjánsson:

Ég vil ekki efast um það, að ýmislegt verði gert til þess að liðka til fyrir mönnum um kjötsöluna, og að kjötverðlagsn. muni í framtíðinni reyna að sjá svo til, að þeir, sem ekki geta selt á útlendum markaði, geti fengið að selja meira hlutfall á innlendum markaði en l. mæla fyrir um. En það er ekki ástæða til að hafa slíka tilhögun á þessu. Það er ekki skylda fyrir hæstv. Alþ. samþ. l., sem eru þannig úr garði gerð, að það er látið vera undir kjötverðlagsn. komið, hvort hún vill veita undanþágur frá þeim, svo að með ákvæðum þeirra komi ekki fram stórkostlegt misrétti gagnvart kjötseljendum. Þess vegna er það ekki rétt hjá hv. 2. þm. N.-M., að ekki sé ástæða til að breyta þessum l., af því að það muni verða liðkað á annan hátt til, svo að þessir menn, sem ég gat um áðan, bíði ekki tjón af því misrétti, sem l. tvímælalaust skapa. Lögin eiga nefnilega ekki að skapa misrétti. Það er rétt að taka hlutina alveg eins og þeir eru. Og þeir eru þannig, að þetta mun smám saman verða til þess, að þeir menn, sem ekki hafa skilyrði til sölunnar eftir skýlausum lagafyrirmælum, munu smátt og smátt draga úr sinni fjártöku og draga sig út af þessu verzlunarsviði.

Það er okkur nú öllum vitanlegt, að kjötmarkaðurinn í Svíþjóð og Danmörku er orðinn sáralítill. Líka er það vitanlegt, að sá markaður er jafnopinn fyrir alla, líka fyrir þá, sem hafa einkarétt á enska markaðinum og að nokkru leyti líka á þeim norska. því að það er ekki hægt að neita því, að S. Í. S. hefir a. m. k. einkarétt á markaðinum í Noregi, sem skapazt hefir af því að kaupsýslumenn höfðu unnið innanlandsmarkaðinn fyrir sitt kjöt að mestu leyti áður en kjötl. gengu í gildi, eða á árunum 1930 til 1932, eins og þeir hefðu þó verið, ef þeir þá hefðu verið útilokaðir frá innlenda markaðinum með 75% af sínu kjöti.

Nú er mjög fjarri því, að jafnrétti næðist með því, þó að norska markaðinum væri úthlutað eftir þörfum og þeim mun meira til þeirra manna, sem útilokaðir eru frá innlenda markaðinum, því að vitanlega er saltkjötsmarkaðurinn miklu lakari en annar markaður, meðan sú skipun er á, að saltkjötið er ekki bætt upp með fé er verðjöfnunarsjóði til jafns við annað kjöt, með sömu upprunalegum gæðum.

Út af því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði um norska markaðinn, sem sé það, að hann hefði verið betri síðastl. ár en næsta ár á undan, að það hefði verið nokkur keppni um hann, vil ég taka þetta fram:

Norski markaðurinn gaf, að ég ætla, fyrir síðustu kjötframleiðslu um 100 kr. fyrir saltkjötstunnuna, og það er margsannað, að kostnaðurinn við hverja tunnu er yfir 30 kr., eða líklega 33 kr., nákvæmlega reiknað. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að á þessum markaði í Noregi sé tunnan nú ekki nema á 95 kr. Og talsvert mikið hafa menn orðið að draga að selja, því að ég ætla, að af stjórnarvaldanna hálfu hafi verið lagðar nokkrar hömlur á söluna framan af haustinu, svo að mikið nokkuð verður að fara í þessa sölu á 95 kr. tunnan. Og ef dregnar eru þar 35 kr. frá verði hverrar tunnu, þá verða eftir 60 kr., eða rúml. 50 au. fyrir hvert kg. kjöts.

Í öðru lagi er það greinilegt, að þeir menn, sem dæmdir eru til þess að selja sitt kjöt eingöngu á saltkjötsmarkaðinum, utanlands og innan, verða því harðar úti eftir því sem fleiri af þeim þurfa að fara með sitt kjöt á norska markaðinn. Úr þessu verður ekki hægt að bæta, nema með öðru af tvennu, annaðhvort að allir hafi sama rétt til freðkjötssölu til Englands, sem þó mundi nú tæplega nægja til þess að ná fullkomnu réttlæti í þessu efni, eða þá að kjötið yrði bætt upp alveg jafnt, hvort það er flutt út fryst eða kælt eða saltað, þannig að það kjöt, sem væri jafngott upprunalega og ekkert gallað fyrir tilverknað eigandans, væri greitt jafnháu verði til framleiðenda. Í raun og veru væri þetta bezta lausnin. Þá þyrfti ekki með eins mikilli nákvæmni að gæta þess, að allir nytu hlutfallslega sama réttar um sölu kjöts á vissum mörkuðum, ef kjötið væri þannig bætt upp.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að það sé viðhöfð nein keppni eða nein sérstök togstreita í þessu máli, ef það sama vakir fyrir öllum, að allir njóti sama réttar í þessum kjötsölumálum. Því að ég fer hér ekki fram á neitt annað. Og ég vil á engan hátt tefja fyrir því, að lögin frá 1933 um kjötsöluna fái framlengingu á réttum tíma, því að það er nauðsynlegt að framlengja ákvæði þeirra um margt annað en hér hefir verið umræðuefnið. En hinsvegar vil ég líka, að um leið sé sett undir þann leka, að þeir menn geti orðið misjafnlega úti, sem þurfa að nota útlendan markað, einkum af því að l. frá 1935 hafa skapað alveg nýtt viðhorf í þessum kjötsölumálum.

Það er ekki hægt að neita því, að sá réttur, sem eitt félag hefir fengið til enska markaðarins, er þannig til kominn, að ríkið ábyrgðist söluna á enska markaðinum. Ríkið hefir því óbeint haft þann útflutning. Og rétturinn til þessa útflutnings, sem var tilraunaútflutningur, hefir yfirfærzt til eins firma í landinu. En ég sé ekki ástæðu til þess að svo sé, því að tiltölulega lítið hefir verið flutt á þann markað af freðkjöti, sem S. Í. S. hefir ekki átt. Einnig eiga l. um þetta að vera þannig, að þau skapi ekkert misrétti.