15.03.1937
Efri deild: 19. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

60. mál, læknishéruð

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hygg, að ekki sé ástæða til að óttast, að þetta frv., ef samþ. verður, hafi í för með sér vandræði fyrir sveitirnar í kringum Akureyri. — Í 1. gr. frv. segir, að það megi leysa héraðslækna að meira eða minna leyti eða með öllu undan skyldu og svipta þá rétti til þess að stunda almennar lækningar. Að sjálfsögðu yrði héraðslæknirinn á Akureyri ekki leystur undan þeirri skyldu að vitja sjúklinga utan Akureyrar, án þess að samtímis yrði tryggt, að þær sveitir, sem hlut eiga að máli, ættu kost á einhverjum öðrum lækni. Annars geri ég ekki ráð fyrir, að ástæða sé til að bera neinn kvíðboga fyrir þessu ákvæði, því það segir sig sjálft, að þar sem svo mikið læknaval er eins og á Akureyri, þá eru ekki líkur til, að læknar neiti að fara til sjúklinga utan bæjar eða innan, þegar á þá er kallað. Auk þess mundi það ekki auka vinsældir lækna, ef þeir neituðu að vitja sjúkra, enda mundu þeir ekki gera það, nema alveg sérstaklega stæði á. En eins og ég sagði áðan, þá verður um leið og ákveðið er, að hve miklu leyti læknar verða leystir undan þessari skyldu, ákveðið, ef þörf þykir, hverjar ráðstafanir skuli gerðar til að tryggja þeim mönnum, sem t. d. utan Akureyrar búa, að þeir hafi lækni til að snúa sér til. Það hefir verið gert í Reykjavík, eins og hv. 1. þm. Eyf. minntist á. Og verður þetta atriði að sjálfsögðu athugað í sambandi við það erindisbréf, sem væntanlega verður sett.

Það er að vísu rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. heldur fram, að bæirnir séu sviptir hlunnindum um leið og héraðslæknirinn er leystur undan skyldu til þess að vitja sjúklinga, að svo miklu leyti sem taxtar héraðslækna kunna að hafa verið lægri heldur en hinna „praktiserandi“ lækna. En ég hygg, að í flestum tilfellum muni þetta ekki vera nema lítið, sem um er að ræða, því t. d. héraðslæknirinn á Akureyri hefir ekki getað sinnt nema svolitlu af sjúkravitjunum í bænum, og þar að auki er allur þorri manna þar kominn í sjúkrasamlag.

Hv. 10. landsk. hefi ég svarað með því, sem ég hefi svarað hv. 1. þm. Eyf.