08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

60. mál, læknishéruð

*Pétur Ottesen:

Það koma alltaf betur og betur í ljós vandkvæðin af því, að ekki skuli hafa verið komið í framkvæmd að breyta launalögunum. En eins og kunnugt er, hafa breytingar á þeim verið undirbúnar af milliþn. og legið hér fyrir á undanförnum þingum. Það er einmitt sakir þessa, að frv. þetta er komið fram, þar sem farið er fram á að breyta launaákvæðum tveggja embættismanna. Þó að inn í frv. séu sett ákvæði um ný skilyrði um þekkingu þessara manna, þá skiptir það ekki máli, því að þess myndi gætt við veitingu embættanna, að veita þau aðeins vel hæfum mönnum. Aðalefni frv. er því launaspursmál, jafnframt því, sem hér er verið að ganga inn á nýja braut, þar sem á að fara að greiða læknum skrifstofufé, því að það hafa þeir ekki haft áður. Að haldið verði áfram á þessari nýju braut, er enginn efi, því að reynslan er sú, að þar sem hægt er að smeygja inn litla fingrinum í þessu efni, koma menn fljótlega með alla hendina. Þess vegna er hér verið að fara inn á nýja braut, sem vitanlega verður yfirfærð á alla læknastétt landsins, úr því að þessi braut er opnuð. Ég vildi aðeins benda á þetta sem dæmi þess, að það er ekki rétt af hæstv. Alþingi að skjóta því svo fram af sér eins og gert hefir verið, að gera breytingar á launalögunum, sem hér hafa legið fyrir á undanförnum þingum, en ekki hafa náð fram að ganga. Ég ætla, að í þeim breyt., sem þar er um að ræða, sé ekki nein till., sem opni þá leið, að læknum sé greitt sérstakt skrifstofufé.