24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

95. mál, samvinnufélög

Flm. (Einar Árnason):

Á þeim hálfum öðrum áratug, sem liðinn er síðan samvinnulögin voru sett, hefir orðið mikil breyt. á viðskiptaháttum einstaklinga þjóðarinnar og jafnvel þjóðfélagsins sjálfs. Er því ekki nema eðlilegt, að nauðsyn sé á breytingum og endurbotum á þeirri löggjöf, sem hefir staðið að mestu leyti óbreytt í svo langan tíma. Það er ekki óeðlilegt, þótt breyting komi, sem gengur í þá átt að færa lögin í samræmi við þær kröfur viðskiptalífsins, sem nú eru og á hverjum tíma. Í grg. er tekið fram, hverjar eru aðalbreytingar, sem frv. gerir á samvinnulögunum. Sú breyt., sem mesta athygli mun vekja í þessu frv., er niðurfelling sameiginlegu ábyrgðarinnar í samvinnufélögunum og upptekning takmarkaðrar ábyrgðar. Þetta atriði er gamalt deilumál. Ekki svo mjög innan samvinnufélaganna, heldur einstakra manna á milli, og má segja um það, að sitt hæfi hverjum, en því má ekki gleyma, að þegar samvinnufélögin fyrst risu á legg, held ég, að enginn neiti því, að samábyrgð hafi verið eina úrræðið til þess að þau gætu komið fyrir sig því bolmagni, sem nauðsynlegt var, til að þau gætu lifað og þroskazt. Það var svo, að slík fyrirtæki sem kaupfélögin fyrstu höfðu ekki þá tiltrú hjá lánsstofnunum í landinu, að þau gætu fengið lán, nema félagsmenn ábyrgðust einn fyrir alla og allir fyrir einn fjárreiður félagsins. En tímarnir eru breyttir, og það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að þær ástæður, sem voru fyrir hendi, þegar samvinnufélögin voru að rísa, eru allt öðruvísi en á þeim árum. Starfsemi samvinnufélaganna er orðin miklu fjölbreyttari og víðtækari en hún var á fyrstu árum þeirra. Félögin hafa mörg stækkað mjög mikið, og því erfiðara að fá yfirsýn yfir fjárreiður þeirra sem félögin hafa meira og fjölbreyttara starf með höndum og eru stærri. Er erfitt að fylgjast með, hversu mikil ábyrgð hvílir á hverjum félagsmanni. Reynslan er þegar búin að sýna, að trygging sameiginlegrar ábyrgðar er allt önnur og minni en hún var á fyrstu árunum, og reynslan er líka búin að sýna, að það er ákaflega erfitt að framkvæma sameiginlega ábyrgð eins og hugsað var í fyrstu og framkvæmt í byrjun. Og ennfremur er reynslan búin að sýna, að lánsstofnanir landsins telja ekki þessa ábyrgð eins mikils virði nú og var fyrr á tímum. Svo hefir líka sú breyt. orðið á hér hjá okkur hin síðustu ár, að t. d. bændur hafa nú víðast hvar veðsett miklu meira af eignum sínum en áður. Má þar sérstaklega minna á kreppulánasjóð. Þar af leiðandi hlýtur þessi samábyrgð að rýrna mikið um leið. Það var svo hin fyrstu ár samvinnufélaganna, að þau voru aðallega starfrækt af bændum, sem ekki höfðu þau fjárráð, að þeir gætu í raun og veru keypt vörur sínar gegn staðgreiðslu, og varð því að gripa til lánsverzlunar, en til þess þurfti einhverja tryggingu. Þetta er nú breytt að miklu leyti, sérstaklega í kaupstöðum landsins, þar sem eru kaupfélög og samvinnufélög, sem selja gegn staðgreiðslu, og liggur í augum uppi, að þar, sem þeirri reglu er fylgt nógu fast fram, er óþarft að hafa þessa sameiginlegu ábyrgð, enda er það svo um sum hin nýrri félög, að þau telja sig ekki geta unað við að taka á sig hina sameiginlegu ábyrgð, og þar með öðlast þann rétt að vera skrásett sem samvinnufélög. Nú starfa tvennskonar samvinnufélög, með sameiginlegri ábyrgð og takmarkaðri ábyrgð. En aðeins önnur tegund þeirra hefir rétt til að láta skrásetja sig samkvæmt samvinnulögunum. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta, sem er kannske stærsta breyt. frv., muni valda miklum ágreiningi í hv. d., og skal ég ekki fara lengra út í það.

Þetta frv. er flutt eftir ósk Sambands ísl. samvinnufélaga. Vil ég geta þess, að það er ekki búið til í neinu flaustri. Það hefir verið undirbúið nú síðustu tvö árin og mikið verið vandað til þess undirbúnings. Það hefir verið til umræðu í flestum eða öllum kaupfélögum, sem nú eru í Sambandi ísl. samvinnufélaga, og á síðasta aðalfundi S. Í. S. var þetta frv. borið fram og samþ., og lagt til, að það yrði flutt á þessu Alþ. Í þessu frv. koma fyrir ýms lögfræðileg spursmál, og skal ég geta þess, að lögfræðingur hefir unnið að þeim. Vonast ég því eftir, að svo sé frá því gengið, að ekki sé mikið við það að athuga. Annars er það svo um önnur atriði frv. en þau, sem ég hefi nú þegar minnzt á, að þau eru flest eða öll sett til að koma á meira öryggi um fjárhagslega starfrækslu innan samvinnufélaganna, eftir því sem reynslan hefir sýnt, að þörf var á. Einnig eru sett þar ný ákvæði, sem nauðsynlegt þykir, að séu í samvinnulögunum, en vantað hefir fyrirmæli um.

Út af 12. gr. vil ég geta þess, af því á hana er ekki minnzt í grg. frv., að þar er svo fyrir mælt, að þeim félögum einum, sem skrásett eru eftir þessum lögum, sé heimilt að hafa orðin „kaupfélag“, „samvinnufélag“, „pöntunarfélag“ eða önnur orð, sem merkja samvinnufélag, í nafni sínu, eða skammstafanir úr þeim orðum. Þetta ákvæði er sett vegna þess, að oft hefir borið við, að sett hafa verið á stofn ýmiskonar félög, sem kalla sig samvinnufélög, en geta þó ekki raunverulega kallazt því nafni, og er langt frá því að fullnægi á nokkurn hátt þeim skilyrðum, sem sett eru í gildandi samvinnulögum.

Um 13. gr. vil ég taka það fram, þar sem ákveðið er, að fella skuli þær breytingar, sem felast í þessu frv., inn í meginmál samvinnulaganna, að það er nauðsynlegt vegna þess, að það myndi verða erfitt að skilgreina ýms ákvæði samvinnulaganna að öðrum kosti.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál að svo komnu, en vildi mega mælast til þess, að hv. d. fallist á að vísa frv. til allshn. að þessari umr. lokinni.