24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

95. mál, samvinnufélög

*Pétur Magnússon:

Ég hefi ekki kvatt mér hljóðs í því skyni að mótmæla því frv., sem hér liggur fyrir. Þvert á móti er ég þeirrar skoðunar, að sú aðalbreyting á samvinnulögunum, sem hér er farið fram á, sé til mikilla bóta frá því, sem nú er. Ég tel reynsluna þegar hafa sýnt það nægilega, að það, sem upphaflega vakti fyrir mönnum með ákvæðinu um ótakmarkaða samábyrgð í kaupfélögunum, hafi ekki náð tilgangi sínum. Samábyrgðin hefir ekki haft þá þýðingu, hvorki fyrir félögin sjálf eða þá, sem viðskipti hafa við þau, sem ætlazt var til. Og ég tel allar líkur til, að sú breyt., sem hér er stungið upp á, að ábyrgð félagsmanna sé bundin við tiltekna fjárhæð, verði til hagsbóta, bæði fyrir félögin, á þann hátt að lánstraust þeirra aukist, og eins fyrir þá, sem skipta við þau, þannig að þeir hafi betri tryggingu fyrir viðskiptum sínum við félögin. Ég mun því verða eindregið fylgjandi því frv., sem hér liggur fyrir.

En það, sem olli því, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, að ég vildi vekja athygli hv. flm. og þeirrar n., sem kemur til með að fá málið til meðferðar, á því, hvort ekki er ástæða til að kveða eitthvað skýrar á heldur en nú er í samvinnulögunum um stofnsjóði samvinnufélaganna. Það er sem sé þannig, að mér virðist allmikil óvissa hafa ríkt um afstöðu stofnsjóðanna og þýðingu þeirra fyrir samvinnufélögin, eða sérstaklega um það, hvort stofnsjóðirnir séu raunverulega tryggingarfé, og ef svo er, á hvern hátt sú trygging geti verið gerð gildandi. Það er að mínu áliti óheppilegt, að um þetta þurfi að vera nokkur vafi. Í 25. gr. samvinnulaganna, sem ræðir um stofnsjóðina, er fyrst kveðið á um, eftir hvaða reglum skuli lagt fé í þá. Því næst segir: „Fé stofnsjóðanna skal notað sem veltufé í þarfir félagsins, og skulu vextir lagðir við höfuðstól um hver áramót.“ Annað er ekki um þetta sagt í samvinnulögunum. Nú er það samt sem áður almenn skoðun, að það fé, sem menn eiga í stofnsjóði, sé réttlægra en aðrar kröfur á samvinnufélögin, þannig að ef til þess kemur, að ganga þurfi að samvinnufélögum, þá tapist stofnféð fyrst, áður en aðrir kröfuhafar tapa nokkru af sínum innstæðum. Hvort sú skoðun fær staðizt lagalega, skal ég ekki segja.

Svo er annað; þó að þetta orkaði ekki tvímælis, þá vantar í samvinnufélögin reglur um, hvernig nota á stofnsjóðina, ef krefja þarf framlags af félagsmönnum. Aðferðir í því efni hafa verið mjög á reiki, og óvissa um, hvað rétt væri. Ég ætla, að svo standi á nú um starfandi samvinnufélög, að ágreiningur sé innan þeirra um þetta efni, hvort félögum er heimilt að afskrifa stofnfjárinnstæður félagsmanna án þess að til gjaldþrotaskipta komi. Þetta er svo mikilvægt atriði, að ótækt er, að um það ríki nokkur óvissa. Eftir þeim reglum, sem fylgt er um framlög til stofnsjóða, liggur í augum uppi, að þeir geta a. m. k. í stærri félögum numið stórum fjárhæðum, jafnvel á skömmum tíma.

Úr því farið er að breyta samvinnulögunum á annað borð, sýnist mér æskilegt, að þetta atriði sé tekið til yfirvegunar um leið, og ef ástæða þætti til, settar skýrari reglur um, hverja aðferð skuli viðhafa, þegar grípa þarf til stofnfjárins sem tryggingar, ef á annað borð er svo litið á, að skoða beri stofnsjóðina sem tryggingarfé, sem náttúrlega gengi þó á eftir varasjóðum og öðrum óskiptanlegum sjóðum félaganna. Ég vil beina því til þeirrar n., sem þetta frv. fær til athugunar, hvort hún vill ekki athuga þetta atriði einnig áður en málið er afgreitt.