05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

95. mál, samvinnufélög

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Aðalefni þeirrar breyt., sem þetta frv. felur í sér á samvinnulöggjöfinni, er tekið fram í grg. frv., sem er í 4 liðum. Fyrsti liðurinn greinir frá þeirri breyt., er frv. fer fram á, að samábyrgð allra félagsmanna í samvinnufélögum er afnumin sem skilyrði fyrir því, að þau geti orðið skrásett samkv. samvinnul. Í öðru lagi eru í frv. sett skýr ákvæði um framlag og varasjóð og um útborgun úr stofnsjóði. Ennfremur eru sett nánari ákvæði um afskriftir af eignum félaga og um ráðstafanir á tekjuafgangi. Þá er einnig sett inn í frv. þetta heimild til þess að sameina 2 eða fleiri samvinnufélög í eitt félag. Og í 4. lagi eru sett nokkru víðtækari ákvæði um valdsvið skilanefndar við uppgerð á félögum, ef til slíks kemur. Allshn. hefir athugað frv. og borið breyt. þess saman við l. og komizt að þeirri niðurstöðu, að breyt. séu mikið til bóta. Mælir n. því eindregið með, að frv. gangi fram.

Eins og tekið er fram í nál., hefir hv. flm. frv. óskað eftir, að allshn. bæri fram vatill. við 6. gr. frv., og er þessa brtt. að finna á þskj. 196. N. mælir einnig með þessari breyt.

Fleira hefi ég ekki fram að taka f. h. allshn. Í framsögu málsins við 1. umr. var gerð ýtarleg grein fyrir öllum breyt., sem felast í frv., og nauðsyn þeirra breyt. á samvinnul. Vænti ég því, að um þetta mál verði ekki neinn ágreiningur. Og a. m. k. er það með öllu ágreiningslaust af hálfu allshn.