23.03.1937
Neðri deild: 25. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

12. mál, skipsstjóraréttindi til handa Pétri Sigurðssyni

*Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Sjútvn. hefir haft þetta frv. til meðferðar og leggur til, eins og nál. ber með sér, að það verði afgr. óbreytt hér í d. — Í Ed. hefir frv. tekið nokkrum breyt. frá því, sem það var, þegar það upphaflega var lagt fram, og eru þær breyt. einungis þess eðlis að útiloka það, að um geti verið að ræða, að viðkomandi maður geti hlaupið yfir það að sigla þann eðlilega stýrimannstíma, sem gert er ráð fyrir í l. um atvinnu við siglingar, þótt honum verði veitt undanþága frá því að ganga undir þau próf, sem þau l. fyrirskipa. Þessi maður hefir fengið sína siglingafræðilegu menntun við skóla, sem ekki verður dregið í efa, að veiti a. m. k. ekki minni menntun heldur en stýrimannaskólinn hér í Reykjavík. Þar að auki hefir þessi maður stúdentspróf frá menntaskólanum hér, þannig að hann hefir miklu fullkomnari undirbúningsmenntun heldur en algengt er um þá menn, sem ganga þessa braut. Það munu liggja dálítið sérstakar ástæður til, að farið er fram á að veita honum þessi réttindi, því að í sjálfu sér virðist það ekki óeðlilegt, að þessi maður, sem ekki verður dregið í efa, að hafi fullkomnari menntun heldur en þeir, sem ganga undir próf hér við stýrimannaskólann, geti eytt 1–2 dögum í að taka íslenzkt skipstjórapróf, en hann mun eiga óhægt með að koma til landsins um það leyti, sem próf fara hér fram, og þess vegna mun þetta frv. vera borið fram.

Frá mér persónulega vildi ég taka það fram, að þó hér í þessu tilfelli sé gengið inn á þá braut að veita manni, sem stundað hefir nám við erlendan skóla, undanþágu frá því að taka próf hér heima, þá tel ég, að slíkt eigi alls ekki að taka upp sem neina reglu.